Hafnarfjarðarbær bíður niðurstöðu í vatnsmáli til 2016
.
Skipulagsstofnun taldi að aukin vatnsvinnsla væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Þessu eru Hafnfirðingar ósammála og telja að á þurrkatímum geti vötn og lækir minnkað til muna. Ekki síst hafa menn áhyggjur af vatnsbóli bæjarins í Kaldárbotnum.
Þyrfti að hefja vatnsdælingu
Dagur Jónsson, vatnsveitustjóri Hafnarfjarðar, segir að Kaldárbotnar og Vatnsendakrikar séu hluti af sömu vatnsrás. Neysluvatn Hafnarfjarðarbæjar hafi verið sjálfrennandi frá því vatnsveitan var stofnuð 1904. Verði af aukinni vatnstöku Reykvíkinga og Kópavogsbúa gæti þurft að dæla neysluvatni til Hafnfirðinga þegar úrkoma er undir meðallagi. Það hefði aukinn kostnað í för með sér. Þá stríði það gegn markmiðum bæjarins um sjálfbærni.
Ásýnd Hvaleyrarvatns gæti breyst
Dagur segir að auki geti ásýnd lækja og stöðuvatna breyst. Til að mynda gæti vatnsborð Hvaleyrarvatns lækkað verulega þegar úrkoma er lítil. Dagur segir að unnt væri að komast hjá þessari auknu vatnsþörf Kópavogs og Reykjavíkur með betri nýtingu vatns. Til að mynda þurfi að auka viðhald dreifikefa svo að vatn leki ekki úr pípum. Þá væri það æskilegt að sveitarfélögin gætu haft meiri samvinnu um neysluvatnsöflun þar sem grundvallaratriði í umhverfisvernd og auðlindanýtingu eru virt.
Hafnarfjarðarbær kærði það til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál að Skipulagsstofnun teldi aukna vatnstöku ekki þurfa að sæta umhverfismati. Samkvæmt upplýsingum sem fréttastofa fékk hjá úrskurðarnefndinni er ekki að vænta niðurstöðu í bráð. Í upphafi næsta árs verði ljóst hvenær megi vænta niðurstöðu. Úrskurðirnir sem nýverið hafa verið kveðnir upp hafa verið kærðir til nefndarinnar fyrir hálfu öðru ári.
Um þessa töf á málinu segir Dagur: „Það er að okkar mati miklu mikilvægara að nefndin komist að vandaðri niðurstöðu frekar en að málið verði afgreitt út af borðinu vegna tímaskorts.“
Heimild: RÚV