Falskur söngur iðnaðar- og viðskiptaráðherra

visir

Snorri Baldursson

Snorri Baldursson

Á vorfundi Landsnets 5. apríl sl. sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að tillögur verkefnisstjórnar rammaáætlunar væru „ágætt dæmi um [þennan] skort á skilningi á samspili orkumála og loftslagsmála“!?
Ráðherra gagnrýndi tillögu verkefnisstjórnarinnar einkum á þeim forsendum að hún tæki ekki nægilegt tillit til samfélagslegra og efnahagslegra sjónarmiða (les. orkugeirans). Þetta tengdi hún loftslagsmálum og þeirri meintu skyldu okkar að virkja sem allra mest til að draga megi úr losun CO2 á heimsvísu. Rót gagnrýninnar virðist vera óánægja með þá tillögu að þrjú stór vatnasvið á miðhálendinu, Héraðsvötn, Skjálfandafljót og Skaftá, auk efstu draga Þjórsár fari í verndarflokk.

Í orkunýtingarflokki rammaáætlunar verða alls um 1.400 MW, gangi tillögur verkefnisstjórnar eftir. Það afl samsvarar rúmlega tveimur Kárahnjúkavirkjunum sem gætu fræðilega knúið tvö ný risaálver á stærð við álver ALCOA í Reyðarfirði (ekki að ég mæli með því). En eru ekki Norðlendingar afskiptir? Nei, síður en svo. Á Norðurlandi eru, að Þeistareykjavirkjun meðtalinni, um 570 MW til ráðstöfunar þótt vissulega sé mikil umhverfisáhætta fylgjandi t.d. Bjarnarflagsvirkjun. Ný kerfisáætlun Landsnets á auk þess að tryggja flutning raforku um allt land.

natturusamtokSamkvæmt tölum Ragnheiðar sparar (hennar orðalag) 100 MW virkjun árlega um 400.000 tonn af CO2 sem jafngildir bindingu 200 milljóna trjáa eða 950 ferkílómetra af skógi. Megavöttin 1.400 í orkunýtingarpottinum „spara” því sem nemur bindingu 2,8 milljarða trjáa eða 13.300 ferkílómetra af skógi. Verður ekki að segja að það sé býsna rausnarlegt framlag til loftslagsmála í heiminum?

Fyrir 500 MW af orku má líka rafvæða samgöngur, sjávarútveg og landbúnað og þar með draga úr árlegri losun frá þessum greinum sem nemur vel á aðra milljón tonna af CO2. Þá væru samt eftir allt að 900 MW fyrir Norðlendinga og aðra til iðnaðaruppbyggingar. Orkunýtingarflokkur inniheldur því yfrið nóg af virkjanahugmyndum fyrir orkugeirann að moða úr á næstu árum, jafnvel þótt þeim sem mest áhætta fylgir verði sleppt og miðhálendinu hlíft.

Söngurinn um skyldu okkar til að virkja sem mest er gamalkunnur. Við höfum líka skyldur til að vernda einstaka náttúru sem á sér fáa ef nokkra líka. Engar rannsóknir liggja fyrir um að það sé hagfelldara fyrir samfélag og efnahag þjóðarinnar og heimsins að virkja vatnasvið á miðhálendinu en að friða þau í þjóðgarði. Þess vegna er söngur ráðherranns falskur.

 

Heimild: Vísir

Fleira áhugavert: