Uppsöfnun náttúrulegra geislavirkra efna við Reykjanesvirkjun
Uppsöfnun náttúrulegra geislavirkra efna
Náttúruleg geislavirk efni eru í öllu umhverfi mannsins og allir jarðarbúar eru með geislavirk efni í líkömum sínum. Mjög lítið er af þessum efnum á Íslandi miðað við nágrannalöndin og er það vegna þess að ríkjandi berggrunnur hér er basalt en ekki granít eins og t.d. annarstaðar á Norðurlöndum. TENORM (Technically Enhanced Naturally Occurring Radioactive Material) er þekkt hugtak og á við uppsöfnun náttúrulegra, geislavirkra efna vegna umsvifa manna.
Vart hefur orðið slíkrar uppsöfnunar náttúrulegra geislavirkra efna á Íslandi í fyrsta skipti. Um er að ræða staðbundna uppsöfnun í útfellingum í borholutoppum við Reykjanesvirkjun. Mælingar á útfellingum hjá Geislavörnum ríkisins gáfu til kynna aukna geislavirkni miðað við það sem algengast er á Íslandi, sem fékkst staðfest í júní sl. við mælingar hjá vottaðri rannsóknastofu Geislavarnastofnunar Finnlands. Uppsöfnunin verður vegna þess að fjölmörg efni, þar á meðal ákveðin geislavirk efni úr náttúrunni, falla út við borholutoppana. Þessi efni eru blý (Pb-210) bismút (Bi-210) og pólon (Po-210), en þau eru öll dótturefni úrans (U-238) sem finnst alls staðar í umhverfi okkar. Við ákveðnar aðstæður geta þau safnast upp í útfellingum eins og þekkt er t.d. við olíu- og gasvinnslu annars staðar í heiminum, en einnig við hagnýtingu jarðhita.
Engin hætta á ferðum
Þessi efni gefa frá sér beta- eða alfa geislun sem er skammdræg. Geislunin er það skammdræg að fólk verður ekki fyrir geislun frá útfellingunum þó það standi mjög nálægt þeim (ytri geislun) en ef fólk innbyrðir þessi efni (við öndun eða með mat) valda þau innvortis geislun (innri geislun).
Í gildi eru alþjóðleg viðmið fyrir hve miklu geislaálagi almenningur má verða fyrir árlega vegna starfsemi sem getur valdið geislun. Fyrir starfsmenn við slíka starfsemi gilda önnur og margfalt hærri mörk en fyrir almenning, sem þó eru það lág að tryggt á að vera að hugsanlegur skaði sé ekki meiri en í öðrum störfum sem flokkuð eru sem örugg.
Sigurður M Magnússon, forstjóri Geislavarna segir að á grundvelli þeirra mælinga sem framkvæmdar hafa verið, mats á hugsanlegu geislaálagi (við innöndun) og eftir samráð og í samvinnu við sérfræðinga Geislavarnastofnunar Finnlands þá sé það mat Geislavarna ríkisins að geislun frá þessum útfellingum sé svo lítil að fólki stafi ekki hætta af. Umrædd geislavirk efni eru bundin í útfellingum á föstu formi sem verða á takmörkuðu svæði í lokuðu kerfi og er ekki um að ræða að þau losni til umhverfisins með affallsvatni frá virkjuninni, gufu eða á annan hátt. Til að ýtrustu öryggiskröfum sé fullnægt hafa Geislavarnir ríkisins beint því til HS Orku að þeir einstaklingar sem vinna við hreinsun á þessum útfellingum beri viðeigandi hlífðarbúnað.
Geislavarnir hafa veitt HS Orku heimild til hreinsunar og geymslu útfellinga með aukna náttúrulega geislavirkni frá Reykjanesvirkjun. Starfsmenn Geislavarna hafa verið viðstaddir hreinsun útfellinga að undanförnu og hafa gert ýmsar mælingar á vettvangi.
Það er mat Geislavarna að líklegt sé að þessar útfellingar með aukna náttúrulega geislavirkni sé eingöngu að finna í borholutoppum við Reykjanesvirkjun vegna þess hversu sérstakar jarðfræðilegar aðstæður eru þar. Stofnunin hefur þegar gert mælingar við virkjanirnar við Svartsengi og Nesjavelli og ekki fundið neinar vísbendingar um aukna náttúrlega geislavirkni. Gert er ráð fyrir að mælingar verði gerðar við aðrar jarðvarmavirkjanir á næsta ári.
Frekari upplýsingar veitir Sigurður M Magnússon.
Heimild: Geislavarnir Ríkisins