Drekka endurunnið og hreinsað piss til að komast af í geimnum

Rúv

Bandarískir geimfarar um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni drekka endurunnið og hreinsað piss til að komast af í geimnum. „Það smakkast eins og vatn af flösku,“ segir geimfari.
Pissið er látið gufa upp, en eftir það er það látið þéttast aftur og þannig er því safnað á flöskur. Bæði rússnesku- og bandarísku geimfararnir nota svipaða aðferð til að drekka sinn eigin svita, affallsvatn eftir sturtu og gufu úr andardrætti, en einungis þeir bandarísku ganga svo langt að drekka pissið líka.

„Ef manni tekst að leiða hjá sér að maður sé í raun að drekka piss og einbeita sér að því að vökvanum sé safnað eftir uppgufun, þá er þetta ekki svo slæmt,“ segir Layne Carter hefur umsjón með vatnsbirgðum bandarísku geimfaranna.

93% af öllu vatni sem er um borð í geimstöðinni er endurunnið með þess móti. „Við getum endurunnið um það bil 6.000 lítra af vatni á geimstöðinni á hverju ári,“ segir geimfarinn Chris Hadfield í myndbandi sem sjá má hér að ofan. Þar má einnig sjá hvernig geimfararnir fara að því að geyma vatn í þyngdarleysi og nota það sparlega svo vatnsbirgðirnar klárist ekki.

Chris tekur fram að það sé engin ástæða til að hneykslast á þessu, því í raun sé vatnið sem geimfararnir drekka hreinna en vatnið sem flestir jarðarbúar drekka dagsdaglega.

Á fréttaveitu Bloomberg kemur fram að rússnesku og bandarísku geimfararnir hafi aldrei getað komið sér saman um hvernig rétt sé að sía vatnið og hvaða vökva eigi að endurnýta. Því nota þeir sitthvort vatnskerfið. Og Bandaríkjamennirnir láta sér ekki nægja að sía sitt eigið piss, heldur sía þeir rússneska pissið í þokkabót. Af þeim sökum tekst bandaríksu geimförunum að endurvinna talsvert meira vatn en rússnesku kollegum þeirra, en þetta kemur fram á vef Guardian.

 

Heimild: RÚV

 

Fleira áhugavert:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *