Fjölgun starfa 9-22 þúsund til 2018
Að undanförnu hefur vinnumarkaðurinn sótt í sig veðrið eftir mikla niðursveiflu árin 2008 – 2010. Á árunum 2010 – 2014 fjölgaði starfandi fólki um rúmlega 10.000 og á öðrum ársfjórðungi í ár var atvinnuleysi 5%, samanborið við 5,9% á sama tíma í fyrra. Á næstu þremur árum má búast við að rúmlega 4.000 manns muni flytja til landsins til að fylla þau störf sem munu skapast á komandi árum. Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.
Segir þar að merki sjáist víða um að vinnumarkaðurinn sé að batna, en mikið hefur borið á því að veitingahús og verslanir séu að leita að starfsfólki og um síðastliðna helgi spönnuðu atvinnuauglýsingar í Fréttablaðinu 23 blaðsíður, samanborið við 17 hinn 23 ágúst í fyrra. Ef fram heldur sem horfir mun þessi þróun halda áfram, þó atvinnuleysið muni líklega ekki fara mikið neðar en það er nú, segir greiningardeildin.
Samkvæmt greiningunni þarf fólki á vinnualdri að fjölga til að þetta gangi upp, bæði að stórir árgangar komi inn á vinnumarkaðinn og að aðfluttir verði fleiri en brottfluttir, en samkvæmt spá Seðlabankans mun starfandi einstaklingum fjölga um samtals 13.000 fram til ársins 2018.
4.000 innflutt störf á næstu árum
Á sama tíma er spáð að mannaflinn aukist um 11.500 einstaklinga. Á tímabilinu gerir Hagstofan ráð fyrir að 63% af fólksfjölgun verði til komin vegna fæddra umfram dána og hin 37% vegna aðfluttra umfram brottflutta. Ef gert er ráð fyrir að mannaflinn skiptist eins, munu því rúmlega 4.000 manns flytja til landsins og koma inn í mannaflann fram til ársins 2018.
Í greiningu bankans er sett upp bjartsýn og svartsýn sviðsmynd af fjölgun ferðamanna á komandi árum. Í bjartsýna dæminu, þar sem ferðamönnum mun áfram fjölga hratt, en þó með minnkandi hraða, mun ferðaþjónustan skapa yfir 2.000 ný störf árlega á næstu tveimur árum. Í hinu dæminu þar sem störfum fjölgar ekki eins hratt með ferðamönnum og það dregur verulega úr fjölgun starfa í ferðaþjónustu, mun störfum samt fjölga um 400 árið 2018.
9 þúsund til 22 þúsund ný störf
Sé þessi fjölgun yfirfærð á vinnumarkaðinn í heild sinni og borin saman við spá Seðlabankans má sjá að samkvæmt svartsýnni sviðsmynd Greiningardeildar bankans mun störfum fjölga um rúmlega 9.000 til ársins 2018, 22.000 samkvæmt bjartsýnni sviðsmyndinni, en 13.000 samkvæmt spá Seðlabankans eins og áður segir.
Segir greiningardeildin að út frá þessu megi ráða að ef vöxtur ferðaþjónustunnar heldur áfram sem horfir muni þurfa að flytja inn erlent vinnuafl í stórum stíl, nema atvinnuþátttaka aukist mun meira en hefur áður þekkst.
Heimild: Mbl