Byggingareglugerðin – Vörn gegn svikum..

Heimild:  

 

Febrúar 2000

Er brunagildra í þinni íbúð? ..enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Kristján Ottóson

Við skulum ekki gleyma því að gömlu meistararnir sem byggðu húsin okkar hér áður fyrr, „hús sem héldu vatni og vindi“, voru meistarar sem stóðu undir nafni, öll byggingin var hönnuð og efni valið miðað við aðstæður. Gömlu meistarnir voru í „mörgum tilfellum“ sem arkitektar, verkfræðingar og iðnmeistarar.

Í Ottó Wathne-húsinu á Búðareyri við Seyðisfjörð eru enn sömu lagnirnar að hluta til er voru settar þar upp árið 1895, það eru liðin 105 ár síðan, góð ending þetta. Hvers vegna endast lagnirnar svona lengi? Þarna hafa verið fagmenn að verki fagmenn með þekkingu á efninu og tæknilegri útfærslu, fagmenn sem báru virðingu fyrir sjálfum sér og verkum sínum, fagmenn með ábyrgð og stóðu við hana.

Ef við kaupum okkur gamlan bíl viljum við fá að vita í hvaða ástandi vélin í bílnum er, gírkassinn og drifið o.s.frv.

Vélin, gírkassinn og drifið í bílnum eru álíka mikilvæg í bílnum og lagnakerfin eru húsinu.

Getum við búið í húsi sem er með hálfónýta hitalögn, neysluvatnslögn eða ónýtt frárensli frá húsinu? Ef sturtað er niður kemur vatn upp um ristar í kjallaragólfi. Og ekki má gleyma loftræstingunni, ef hún er úr brennanlegu efni flytur hún eld á milli íbúða, og þannig skapar hún mikla brunahættu í húsinu.

Færi ég til fasteignasala til að leita að íbúð handa mér og fjölskyldu minni til að búa í kemur upp í hugann hvar við viljum búa á stór-Reykjavíkursvæðinu, hvar húsið á að vera. Eigum við ekki að finna okkur íbúð með fallegu útsýni, og sem er fullfrágengin, máluð í flottum litum? Jú, gerum það. Er algengt að fólk hugsi svona? Já, er það ekki?

Gleymdum við ekki að spyrja fasteignasalann að einhverju? Jú, við gleymdum að spyrja fasteignasalann að því hvaða byggingarmeistari byggði húsið, hvaða blikksmíðameistari smíðaði loftræstinguna og hvaða pípulagningameistari lagði hita-, neysluvatns- og hreinlætislagnir í húsið.

Eigum við ekki þá kröfu?

Eigum við ekki þá kröfu að fasteignasalinn láti okkur fá staðfestingu frá viðkomandi byggingarfulltrúaembætti um það hver hannaði lagnir í húsið? Hverjir lögðu lagnirnar í húsið? Og eigum við ekki kröfu á að fá ljósrit af vottunarpappírum af lagnaefninu sem notað var í húsið. Ásamt ljósriti af vottorði um að verkið hafi verið tekið út af byggingarfulltrúa og samþykkt af viðkomandi byggingarfulltrúaembætti.

Hvers vegna ætli ég sé að skrifa þessar línur? Ég skrifa þær vegna þess að ég veit að ástandið er víða mjög alvarlegt.

Fólkið í landinu á að geta treyst því að starfsmenn byggingarfulltrúaembættanna verji hagsmuni þess fyrir byggingaraðilum sem eingöngu byggja til að selja. Og því samhliða fara þá leið sem er kostnaðarminnst fyrir þá sjálfa við húsbyggingar, sem svo aftur á móti stenst ekki byggingarreglugerð og byggingarlög.

Það keyrði um þverbak

Það keyrði um þverbak er ég las í dómi er var kveðinn upp föstudaginn 10. desember 1999, á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-3000/1998:

Þar segir að á árinu 1998 hafi íbúðareigendur í blokk í miðbæ Mosfellsbæjar höfðað mál gegn Mosfellsbæ o.fl. vegna þess að við byggingu íbúðarblokkarinnar hafði verið þverbrotin byggingarreglugerð með vitund byggingarfulltrúa.

Þar voru notuð rör úr plasti, sem er brennanlegt efni og alfarið bannað með lögum, í stað járnröra í loftræstilagnir hússins. Engar teikningar höfðu verið gerðar að loftræstilögnum og enginn blikksmíðameistari var skráður á verkið.

Í dómnum má lesa hvernig byggingarmeistarinn kemst upp með það að brjóta lög og byggingarreglugerð í skjóli byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ.

Sú framkvæmd hefur skapað brunahættu í húsinu, sem fólkið veit ekki um, fyrr en kviknar í einhverri íbúðinni.

Í byggingarreglugerð nr. 292/1979 grein 7.7.6.5. segir „að í loftrásum skuli vera óbrennanlegt efni, t.d. 0,7 mm galv. plötujárn, og skuli einangrun þeirra vera óbrennanleg“.

Í byggingarreglugerð nr. 269/1978 um brunavarnir og brunamál segir: „Loftræstistokkar skulu vera úr óbrennanlegu efni og einangrun þeirra einnig óbrennanleg.“

Í dómnum stendur:

„Þá mætti fyrir dóminn Ásbjörn Þorvarðarson, byggingarfulltrúi í Mosfellsbæ, og staðfesti að á þeim tíma sem húsið var byggt og allt fram undir 1990 hefði tíðkast að plaströr væru notuð í loftræstingar.

Hafi það verið samræmdar reglur byggingarfulltrúa á Reykjavíkursvæðinu að samþykkja slíkt, þar sem þetta þótti hentugt og ekki talið hættulegt, enda úr tregbrennanlegum efnum, ekki eldfimum.“

Hér liggja menn undir grun. Svari nú hver fyrir sig.

Hvað ætli séu margar íbúðir, margar íbúðarblokkir, þar sem öryggi fólksins er fórnað fyrir gróðasjónarmið örfárra og stutt af byggingaryfirvöldum með þögninni?

Er þetta rétt lýsing á byggingarfulltrúaembættum sem fólkið í landinu hefur haldið að það gæti treyst.

Flokkast ekki svona verklagsreglur, „gæðakerfi“ byggingarfulltrúans, undir gróft brot í opinberu starfi? Umhverfisráðuneytið fer með yfirstjórn byggingarmála, hvernig tekur það á svona málum? Óskað er svars.

Handbók hita- og loftræstikerfa

Ég hef starfað þó nokkuð með byggingarfulltrúaembættinu í Reykjavík og mér er ekki kunnugt um að þar hafi það verið stundað vísvitandi að brjóta byggingarlög og byggingarreglugerð.

Það er ánægulegt að geta þess að Lagnafélag Íslands er nýbúið að gefa út Lagnafréttir 28, „Handbók hita- og loftræstikerfa“. Upp á þessa handbók skrifaði byggingarfulltrúinn í Reykjavík, og auk hans skrifuðu upp á hana Háskóli Íslands, Tækniskóli Íslands, Rb og átta helstu verkfræðistofurnar á stór-Reykjavíkursvæðinu. Þetta sýnir að fullur vilji er fyrir hendi að auka gæðin og sjá um að verkum sé skilað fullbúnum.

Hvernig væri að við íbúðareigendur og fólkið í landinu settum fram þá kröfu að fá þá þjónustu sem felst í byggingarreglugerð sem á að vera okkar vörn gegn svikum? Er ekki tímabært að byggingarfulltrúar hætti að reka byggingarfulltrúaembættin eins og einkafyrirtæki með einkaleyfi? Eru þeir ekki í þjónustu hjá fólkinu í landinu?

Byggingarreglugerðin er til að koma í veg fyrir slys, og það verður að gera þá kröfu að starfsmenn byggingarfulltrúaembættanna séu starfi sínu vaxnir.

Fleira áhugavert: