Hvalárvirkjun – Úlfur í sauðagæru?

Heimild: 

 

Ágúst 2018

Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson

Nýlega ferðuðumst við undirritaðir fótgangandi með allt á bakinu um fyrirhugað virkjanasvæði Hvalár á Ströndum. Við skoðuðum virkjanasvæðið í heild sinni og gengum eftir þremur helstu vatnsföllunum endilöngum; Rjúkanda, Hvalá og Eyvindar­fjarðará. Í þessum ám eru hundruð fossa og mörg tilkomumikil gljúfur. Við gengum einnig eftir heiðum sem stendur til að leggja undir risastórt uppistöðulón og gistum þar í tjaldi, áður en aftur var haldið niður eftir dölum og gljúfrum þar sem árnar renna í sjó fram. Náttúrufegurðinni er erfitt að lýsa, en auk fossa í öllum stærðum og gerðum blöstu við okkur tjarnir með fuglum og flóru, afskekkt heiðavötn, og strendur þaktar rekaviði. Einstakt veður gerði upplifun okkar á fegurð svæðisins enn sterkari en ella.

Hvalárvirkjun – úlfur í sauðagæru?
Við teljum að mikið skorti á að almenningur hafi fengið nauðsynlegar upplýsingar um fyrirhugaða virkjun í Hvalá og Eyvindarfjarðará. Þetta á sérstaklega við um neikvæð áhrif virkjunarinnar á víðernin á Ströndum, svæði sem teljast meðal helstu náttúruperla Vestfjarða. Ósnortin víðerni eru ekki ótæmandi auðlind enda hafa þau verið skert um 70% á Íslandi á síðustu 70 árum. Staðsetning virkjunarinnar er sérlega viðkvæm, rétt við þröskuld friðlandsins á Hornströndum. Við viljum einnig minna á að í náttúruverndarlögum njóta fossar sérstakrar verndar.

Hvalárvirkjun hefur sífellt verið að stækka á teikniborðinu, og er nú 55 MW, sem er langt umfram orkuþörf Vestfjarða. Nafnið er úlfur í sauðagæru, enda ljóst að auk þeirra 35 MW sem fást með virkjun Hvalár og Rjúkanda bætast 20 MW við með virkjun Eyvindarfjarðarár. Réttara heiti væri því Hvalár-, Rjúkanda- og Eyvindarfjarðarárvirkjun, en í síðastnefndu ánni eru flestir af tilkomumestu fossunum – fossar sem heimamenn segja okkur að þeir myndu sjá mest eftir.

Nýtt umhverfismat
Það er ótrúlegt að svo breyttri „Hvalárvirkjun“ hafi verið laumað í gegnum þarsíðustu Rammaáætlun, án nauðsynlegrar kynningar og umræðu. Það ferli virðist götótt og kanna þarf hvort reglum hafi verið fylgt. Við teljum eðlilega kröfu að umhverfisáhrif virkjunarinnar verði metin að nýju, ekki síst fyrir þá staðreynd að nú er ljóst að tugir tilkomumikilla fossa í Eyvindarfjarðará munu að mestu þurrkast upp. Okkur hefur fundist umræðan um Hvalárvirkjun of einsleit og lítið rætt um aðra valkosti en virkjun til að styrkja byggð í Árneshreppi og efla atvinnulíf á Vestfjörðum. Við erum sannfærðir um að tækifæri framtíðar liggi fremur í aukinni ferðamennsku þar sem ósnortin víðerni eru í öndvegi.

Einn af tilkomumestu fossunum í Eyvindarfjarðará á Ströndum.

Fossadagatal í 30 daga og stuttmynd
Við mynduðum hátt í hundruð fossa í ferð okkar, suma úr lofti með dróna. Fossarnir hafa margir hverjir ekki sést áður á mynd en stærstu fossarnir, Drynjandi, Rjúkandi, Eyvindarfjarðarárfossar og Hvalárfossar, teljast að okkar mati í hópi tilkomumestu fossa landsins. Við höfum ákveðið að birta myndir okkar af 30 helstu fossunum á Facebook frá og með 1. september og kynna þannig einn foss á dag í 30 daga. Stuttur texti fylgir myndunum sem tala sínu máli og munu vonandi hjálpa fólki að taka upplýsta ákvörðun um fyrirhuguð virkjanaáform.
Fossamyndirnar ætlum við síðan að prenta út í lit og gefa út sem „Fossadagatal“ sem sent verður á alþingismenn, ráðherra, sveitarstjórnir á Vestfjörðum, landeigendur sem selt hafa vatnsréttindi sín í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði, stjórnarmenn í HS Orku og Vesturverki, forsvarsmenn Landsnets, Umhverfisstofnunar, Orkustofnunar og Landverndar. Loks vinnum við að gerð stutts myndbands þar sem raskið af virkjuninni er útskýrt með þrívíddarhönnun. Kostnað berum við sjálfir – enda teljum við málefnið afar brýnt og mikilvægt: að vernda náttúru landsins svo komandi kynslóðir fái að njóta hennar.

Höfundar eru læknar og áhugamenn um útivist og náttúruvernd.

 

Umræða eftir skifin:

Tomas Gudbjartsson · Professor hjá Háskóli Íslands

Það eru vonbrigði að sjá ómálefnaleg viðbrögð Kristins H. Gunnarssonar, við grein okkar Ólafs Más í Fréttablaðinu í dag. Viðbrögð hans koma þó ekki á óvart, enda ræðst hann gjarnan fram á ritvöllinn með sleggju að vopni – vopn sem getur verið erfitt að höndla. Hélt að fyrrverandi þingmaður og ritstjóri myndi reyna að vera málefnalegri. Ritstjórinn virðist orðinn einhvers konar hagsmunapípa virkjanafyrirtækja, sjókvíaeldis og kísiliðju. Að lesa athugasemdir hans minnir frekar á auglýsingabæklinga en umfjöllun um staðreyndir. Gagnrýn hugsun er látin víkja fyrir hagsmunapólitík. Steininn tók þó úr í gær þegar hann véfengdi athugasemd mína um að kísilverksmiðja United Silcicon hefði orðið til þess að sumir íbúar Reykjanessbæjar hefðu sumir misst heilsuna. Ég er ekki að ætlast til þess að þingmaðurinn fyrrverandi þurfi að vera mér sammála. En ég held að það væri honum gæfuríkara að vera gagnrýnni og málefnalegri – en sérstaklega þó forðast skítkast.
Líkar þettaSvara818wBreytt

Gaui M. Þorsteinsson · Musterisvörður hjá Sundlaug Bolungarvíkur/Musteri vatns og vellíðunar

Tómas af hverju svarar þú engu af því sem hann spyr? Sleggjan er erfitt verkfæri, en orðin eru stundum þó erfiðara verkfæri að brúka. Það er mjög fínt að þú ert ötull talsmaður náttúrunnar. Ég er líka unnandi náttúru, en er þó á því að ég velji blómlega byggðir með hér. Við sem hér búum erum ekki ofuseld neinum og höfum marg oft hafnað alls kyns spjöllum á okkar náttúru. helsta ógnin er ferðamannastraumurinn þar sem allir vilja skyndigróða. Váin er frekar hjá okkur þar…
Líkar þettaSvara418w

Kristinn H. Gunnarsson · Works at Sjálfstætt starfandi

Hvalárvirkjun var ekki laumað gegnum Rammaáætlun og enn síður án kynningar og umræðu. Öðru nær. Málið var vel kynnt og fékk umræðu.
það var góð samstaða um málið allan tímann.
Þótt greinarhöfundar vilji nú annað var ferill málsins frá upphafi skýrt, opinn og samstaða um niðurstöðuna.
Ekkert er minnst á fólk á Vestfjörðum í greininni né hagsmuni þess. Útblásið egó greinarhöfunda byrgir þeim sýn.
Líkar þettaSvara818w

Kristinn H. Gunnarsson · Works at Sjálfstætt starfandi

Læknirinn Tómas velur að fara í manninn og sneiða hjá málefninu. Ég andmælti fullyrðingu hans þess efnis að Hvalárvirkjun hefði verið „laumað svo breyttri“ í gegnum Rammaáætlun á sínum tíma og benti á kunnar staðreyndir því til stuðnings. Tómas víkur ekkert að því og færir heldur engin rök fyrir dylgjum sínum um málsmeðferð.
Staðreyndir eru þessar eftir því sem ég best veit:
Hvalárvirkjum er samþykkt í Rammaáætlun 2 ( árið 2011) og það ágreiningslítið og með góðri pólitískri samstöðu.
Tomas heldur því fram að virkjunaráformin hafi breyst og að við hafi bæst að nýta vatn úr EyvindarfjarðaráSjá meira
Líkar þettaSvara618w

Tomas Gudbjartsson · Professor hjá Háskóli Íslands

Ég hef hvorki tíma né áhuga á því að vera að munnhöggvast um það að mér finnist athugavert hvernig Hvalárvirkjun var meðhöndluð í þarsíðstu Rammaáætlun. Stend við það að mér finnst ýmislegt skrítið í þessu ferli – eins og ég sé það. Þar með er ég ekki að fullyrða að lög hafi endilega verið brotin. Eyvindarfjarðará var ekki með í uppaflegri Hvalárvirkjun, það veistu vel. Þar eru tilkomumestu fossarnir. Mjög fáir vita af mikilfengleika þessara fossa. Það hefur mjög skort á upplýsingar um þessar ár, bæði til almennings en einnig þeirra sem koma að verkefninu. Væri gaman að heyra hvort þú hafir koSjá meira
Líkar þettaSvara718w

Kristinn H. Gunnarsson · Works at Sjálfstætt starfandi

Tomas Gudbjartsson Jú, þú verður að svara því og rökstyðja dylgjur þinar um að undirmál hafi verið viðhöfð þegar Hvalárvikrjun var samþykkt í Rammanum 2. Það er kjarninn í greininni þinni. Það er engin leið framhjá því að leggja rökin á borðið.
Líkar þettaSvara218w

Tomas Gudbjartsson · Professor hjá Háskóli Íslands

Kristinn H. Gunnarsson Það er ekki kjarninn í greininni minni – heldur eitt af mörgum atriðum. Það sérðu ef þú lest greinina. Á föstudag birtist önnur grein eftir mig í stórum fjölmiðli. Þú getur því beðið spenntur. Annars læt ég þessari umræðu við þig á visir.is lokið. Sé ekki að hún skili neinu. Ef þú hefur tíma máttu gjarnan svara spurningum mínum um hvort þú hafir skoðað fossana sjálfur með því að ganga meðfram ánum þremur? Og hvort þú dragir enn í efa að fólk í Reykjanesbæ hafi veikst vegna mengunar frá verksmiðju United Silicon?
Líkar þettaSvara318w

Guðmundur Samúelsson · Tónskóli þjóðkirkjunnar

Guði sé lof að til eru menn með fullu viti, sem hafa dugnað í sér til að berjast gegn landeyðingaröflunum og sóðaskap græðgisaflanna. Bravó herrar mínir.
Líkar þettaSvara818w

Margrét Jónsdóttir · Eftirlaunaþegi hjá Ég er eftirlaunaþegi.

Við eigum að nýta auðlindir okkar. Í þessu tilviki að virkja fallvötnin. Þótt eitthvað hverfi kemur annað í staðinn, kannski ekkert verra. Nefni ég þar Skeiðsfossvirkjun. Allir dá fegurð Stílfunnar, þar sem fjöllin spegla sig í sléttum fleti uppistöðulónsins, á góðum dögum. Rafmagnið kom og kemur okkur öllum að gagni.
Líkar þettaSvara218w

Fleira áhugavert: