Heitt vatn, garðar og gróður

Heimild:  

 

Heita vatnið sem rennur í gegnum ofnana  sem hita húsin okkar er því miður afskaplega vannýtt. Þegar er búið að nota vatnið til að hita upp húsin er það enn 30-40°C heitt.  Þó fer það, í alltof mörgum tilfellum, ónotað út í buskann, engum til gagns.  Þegar ég hugsa um þetta heita vatn koma mér í hug mörg atriði sem gætu gagnast okkur vel til að nýta þessa ónýttu auðlegð okkar.  Það er að vísu ákveðinn stofnkostnaður við að nýta affallsvatnið af ofnunum en sá kostnaður væri fyllilega réttlætanlegur og mundi koma okkur til góða á ýmsan máta í framtíðinni.

Nokkrir garðeigendur eru farnir að nýta vatnið t.d. í lagnir undir hellur, til að hita upp gróðurhús og til að hita tjarnir sem í eru fiskar eða viðkvæmur gróður eins og t.d. Nykurrós (Vatnalilja) (Nymphaea alba). Hún er sérlega falleg planta en þolir ekki að frjósa. Hún þarf 15-17 °C heitt vatn en það er sami hiti og Gullfiskar og Koifiskar þurfa, svo að í volgri tjörn ættu þau öll samleið.  Eigendur einbýlishúsa gætu vel nýtt affallsvatnið undir allar hellulagnir í kringum húsið sitt og með því auðveldað sér lífið. Minnkað mokstur eða salt og sand áburð að vetrarlagi og jafnvel sloppið við allt slíkt. Við gætum lengt ræktunartímabilið hjá okkur með því að  hafa hita í gróðurhúsum og  í útibeðum. Þá eru grafnar niður leiðslur til að hita upp jarðveginn.  Bogar með plasti eru svo látnir yfir beðin á vorin og á haustin. Hitanum er svo stjórnað með hitastilli sem staðsettur er í íbúðarhúsinu. Það þarf að fylgjast vel með hitanum og gæta þess að jarðvegurinn sé mátulega heitur. Sé jarðvegurinn of heitur geta plönturnar farið að soðna og það viljum við alls ekki.
Við getum byrjað að sá fyrr á vorin ef við höfum þennan jarðhita og erum með lýsingu. Þá gætum plantað út grænmeti og kryddplöntum mun fyrr en áður.  Jafnvel væri hægt að ná tveimur til þremur uppskerum af sumum tegundum.  Við gætum t.d verið tvisvar með útisáningu á Gulrótum (Daucus carota sativus) og af  Hreðkum (Raphanus sativus) gætum við fengið þrjár uppskerur, jafnvel fjórar ef sólin er dugleg að skína.  Við þessa ræktun þarf að setja plast yfir á vorin og haustin. Hægt er að sá fyrir einærum kryddjurtum fljótlega eftir áramót, ef ljós er yfir sáningunni og
gróðurhúsið er upphitað.  Þetta gildir t.d fyrir plöntur eins og Dill (sólselja)(Anethum graveolens) og Kóríander (Coriandrum sativum).  Ef plast er haft yfir á haustin er hægt að nýta fjölærar kryddplöntur lengra fram á haustið. Þannig er t.d með Hrokkinmyntu  (Menta spicata)  og Síturónumelissu (Hjartafró) (Melissa officinalis) o.fl. Þær haldast lengur ferskar og fölna seinna.  Þó þeir sem eru með jarðhita geti sett grænmeti niður fyrr á vorin, þurfa þeir samt sem áður að forrækta sumar tegundir inni eins og t.d. Hvítkál (Brassica oleracea capitata alba) og Blómkál(Brassica oleracea var. botrytis).


Heitt gróðurhús býður uppá marga möguleika, því þar er hægt að sá fyrir sumarblómum, fjölærum blómum, grænmeti og kryddplöntum. Eða við getum fyllt heita gróðurhúsið okkar af Tómötum (Solanum lycopersicum), Papriku (Capsicum annuum grossum) og Agúrku (Cucumis sativus var. sativus).  Við getum tekið græðlinga, hvort sem er af fjölærum plöntum eða runnum (sumargræðlingar) og látið dafna í heita gróðurhúsinu.   Við gætum líka verið þar með viðkvæma gróðurinn okkar T.d. Rósir (Rose) og forræktað flottar Dalíur (Dahlia) eða Blóðdropa Krists(Fushsia).  Sumar plöntur eru svo viðkvæmar að þær þola ekki veturinn, en hægt er að halda lífi í þeim í upphituðu gróðurhúsi og þá eru þær algjört augnayndi úti yfir sumartímann. Þannig er líka með ýmsar tegundir af berja og ávaxta tegundum.  Þær er gaman að geta haft í gróðurhúsi að vetrinum. Já, heita vatnið getur veitt okkur ómælda ánægju og gleði ef við beinum því í réttan farveg.    Megi heita vatnið nýtast  vel og veita ykkur enn meiri garðræktaráhuga.

Með ræktunarheitri kveðju
Magnús Jónasson
Skrúðgarðyrkjufræðingur.

Fleira áhugavert: