Kanadískur Vatnsútflutningur – Hafnfirskar vatnslindir og Hótel

Heimild:  

 

Huldufélag áhugasamt um hótel og vatnslindir

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, fundaði í byrjun júní með Salah Saleh, forstjóra og stjórnarformanni Amel Group, vegna áhuga kanadíska fjárfestingarfyrirtækisins á að reisa hótel og vatnsverksmiðju í bænum. Forstjóranum var þá boðið í skoðunarferð um Hafnarfjörð og heimsótti hann meðal annars vatnslindir bæjarins í Kaldárbotnum. Bæjarstjórinn segir ekki liggja fyrir hverjir standa að baki fyrirtækinu enda séu viðræður ekki komnar á það stig að starfsmenn sveitarfélagsins hafi farið í að skoða það.

„Þetta er ekki komið á það stig að við séum farin að kanna nákvæmlega hverjir þetta eru enda er eins og stendur einungis um þreifingar af þeirra hálfu að ræða. En við höfum, bæði fyrir og eftir fundinn, sent þeim ýmis gögn enda kom fram á fundinum að fyrirtækið er spennt fyrir ýmsum fjárfestingartækifærum í bænum,“ segir Haraldur við DV.

Skráð í Ontario Kanada

Haraldur L. Haraldsson. Amel Group er skráð í Ontario-fylki í miðausturhluta Kanada. Samkvæmt vefsíðu fyrirtækisins hefur það komið að ýmsum fjárfestingarverkefnum, meðal annars á sviðum endurnýjanlegra orkugjafa, landbúnaðar og öryggis- og varnarmála, en þar er ekki gefið upp hverjir eigendur þess eru. Saleh og Mohamed El Hadidy, annar stjórnarmaður fyrirtækisins, eru einu starfsmenn þess samkvæmt vefsíðunni.

Haraldur svarar aðspurður að fundurinn með forstjóra Amel Group hafi verið skipulagður af Íslandsstofu. Þórður H. Hilmarsson, forstöðumaður fjárfestingasviðs Íslandsstofu, segir í samtali við DV að starfsmenn stofunnar séu bundnir þagnarskyldu varðandi fjárfestingarverkefni sem séu komin jafn skammt á veg og áform Amel Group. Hann geti því ekki gefið neinar frekari upplýsingar um verkefnin.

Þeir telja Hafnarfjörð vera svæði með ákveðna vaxtarmöguleika og við vorum svo sem ekki að gera lítið úr því.

DV greindi í mars síðastliðnum frá áhuga forsvarsmanna Amel Group á að reisa átöppunarverksmiðju í Hafnarfirði og kaupa vatn úr dreifikerfi bæjarbúa. Þá kom fram að Dagur Jónsson, vatnsveitustjóri Hafnarfjarðar, hefur átt í tölvupóstsamskiptum við fyrirtækið og meðal annars sent því upplýsingar um efnasamsetningu vatnsins úr Kaldárbotnum. Dagur sat fund Saleh og Haraldar í ráðhúsi Hafnarfjarðar þann 2. júní síðastliðinn og segir forstjóra Amel Group hafa fullyrt að fyrirtækið hafi aðgang að „heilmiklum sjóðum“.

„Þeim finnst það skipta miklu máli að hér eru tvær hafnir og stutt í alþjóðaflugvöll. Þeir telja Hafnarfjörð vera svæði með ákveðna vaxtarmöguleika og við vorum svo sem ekki að gera lítið úr því,“ segir Dagur og hlær.

„Það sem kom á óvart var að þeir hafa ekki einungis áhuga á fjárfestingum í tengslum við vatnið heldur einnig í ferðamannaiðnaðinum. Þeir hafa kynnt sér spár um fjölgun ferðamanna hér og kveikt á því að þar séu sóknarfæri. Ég veit svo sem lítið um þetta fyrirtæki en forstjórinn talaði um að það gæti tekið stórar ákvarðanir með tiltölulega stuttum fyrirvara. Mér fannst þó á fundinum eins og vatnsátöppunarverksmiðjan væri orðin að einhvers konar aukaatriði. Hann virtist aðallega vera að horfa á iðnaðarsvæðin hér og hafnirnar. Það þurfti til dæmis að margsegja forstjóranum hvað raforkan er ódýr hérna,“ segir Dagur.

Fleira áhugavert: