Nýtt netagerðagerðarhús á landfyllingu í Neskaupsstað

Heimild:  sidarvinnslan

 

neskaupstadur

Smella á myndir til að stækka

  Nú er lokið við að gera landfyllingu austan við fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Á þessari landfyllingu mun Fjarðanet hf. reisa nýja netagerð og er gert ráð fyrir að byggingarframkvæmdir geti hafist í vor og þeim verði lokið í árslok 2017. Næsta verkefni á svæðinu verður að reka niður stálþil og ganga frá viðlegukanti fyrir skip sem nýta munu þjónustuna sem netagerðin ætlar að bjóða upp á. Tekið skal fram að þessi landfylling er fyrsti áfangi landfyllingar á þessu svæði en ráðgert er að hún teygi sig lengra í átt til fiskimjölsverskmiðjunnar.

Húsið sem rísa mun á landfyllingunni sem gerð hefur verið verður 85 metra langt og 26 metra breitt eða um 2200 fermetrar. Það mun hýsa netaverkstæði, gúmmíbátaþjónustu og veiðarfærageymslu. Húsnæðinu verður skipt í tvennt eftir endilöngu; öðru megin í því verður netaverkstæðið og hinum megin veiðarfærageymsla fyrir nætur og troll. Í öðrum enda hússins verður síðan rými fyrir víraverkstæði, gúmmíbátaþjónustuna og skrifstofur auk starfsmannaaðstöðu.

neskaupstadur-aÖll starfsemi Fjarðanets í Neskaupstað mun flytjast úr gamla netagerðarhúsinu í þetta nýja hús. Gamla húsið var byggt árið 1965 og er orðið of lítið auk þess sem aðstaðan í því svarar ekki kröfum tímans. Skip og veiðarfæri hafa stækkað mikið á seinni tímum og með tilkomu nýja hússins verður í alla staði betra og þægilegra að vinna við stór veiðarfæri. Til dæmis hefur vinna við flottroll að mestu leyti farið fram utanhúss en með tilkomu nýja hússins færist sú vinna inn þar sem henni verður sinnt við kjöraðstæður. Öll aðstaða í nýja húsinu verður hin fullkomnasta og framleiðslugeta fyrirtækisins í Neskaupstað mun aukast töluvert. Í ljósi þessa er horft fram á verulega aukningu í starfsemi Fjarðanets í Neskaupstað á komandi árum.

Veiðarfærageymslan í húsinu veldur einnig byltingu en nætur hafa verið geymdar utan dyra til þessa með öllum þeim ókostum sem því fylgir.

Jón Einar Marteinsson, framkvæmdastjóri Fjarðanets, segir að gríðarleg þörf sé fyrir þetta nýja hús. „Aðstaðan hefur ekki verið nægilega góð hjá okkur en með tilkomu nýja hússins verður hún til fyrirmyndar. Við ætlum okkur að bjóða upp á góða þjónustu í framtíðinni og þessi nýja bygging er forsenda þess að það sé hægt,“ sagði Jón Einar.

Fleira áhugavert: