Kortlagning jarðhitalinda í 13 löndum í austanverðri Afríku

iceida

Október 2012

austur afrika

Austur Afríka

Stærsta verkefni íslenskrar þróunarsamvinnu í samfjármögnun með Norræna þróunarsjóðnum

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra kvaðst stoltur geta tilkynnt heiminum í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um síðustu helgi að Ísland hefði tryggt fjármagn til að ráðast ásamt Alþjóðabankanum í rannsóknir og kortlagningu á miklum jarðhitalindum í 13 löndum Austur-Afríku sem gætu aflað allt að 150 milljónum Afríkubúa aðgangs að hreinni, endurnýjanlegri orku. „Þetta er stærsta og sögulegasta verkefni sem Íslendingar hafa tekist á hendur í samstarfi við þróunarlöndin, og við erum stolt af því að geta kynnt þetta í dag,“ sagði utanríkisráðherra.

„Aðgengi að orku snertir flesta þætti samfélagins og daglegs lífs og aukinn aðgangur fólks að rafmagni er mikilvægur hluti þess að vinna að framgangi þúsaldarmarkmiðanna,“ segir Engilbert Guðmundsson framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. ÞSSÍ hefur í samfjármögnun með Norræna þróunarsjóðnum( NDF) sett af stað verkefni sem miðar að því að framkvæma jarðhitaleit og rannsóknir, ásamt mannauðsuppbyggingu, mögulega í öllum 13 löndunum sem liggja í sigdalnum. Markmiðið er að við lok verkefnisins hafi löndin skýra mynd af þeim möguleikum sem til staðar eru á sviði jarðhita, skilgreind svæði fyrir mögulegar tilraunaboranir, og getu og mannauð til að fylgja málum eftir á næstu stigum til framleiðslu raforku. Engilbert segir að Norræni þróunarsjóðurinn leggi fram fimm milljónir evra til verkefnisins og ÞSSÍ sömu fjárhæð á fimm ára tímabili.

Mikil áhersla er eðlilega lögð á að orkuþörf þróunarríkja verði mætt með endurnýjanlegum og hreinum orkugjöfum fremur er brennslu jarðefna. Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna leiðir til dæmis átak á heimsvísu um Sjálfbæra orku fyrir alla (Sustainable Energy for All). Eitt af meginmarkmiðunum átaksins er að árið 2030 verði búið að tvölfalda hlut endurnýjanlegrar orku í heiminum og íslenska verkefnið miðar að því að leggja lóð á þær vogarskálar.

 

austur afrika a

Innan við fjórðungur íbúa í sunnanverðri Afríku hefur aðgang að rafmagni. Mynd frá Kampala í Úganda. Ljósm. gunnisal

Innan við fjórðungur með rafmagn

Að sögn Davíðs Bjarnasonar sviðsstjóra hjá ÞSSÍ er áætlað að í Afríku sunnan Sahara hafi einungis um 24% íbúa hafi aðgang að rafmagni og í þeim heimshluta sé rafmagnsskortur tíður. „Almennt hamlar orkuskortur í ríkjum Afríku hagþróun,“ segir Davíð, „einungis næst að framleiða hluta af því rafmagni sem þörf er fyrir og slíkt torveldar vöxt fyrirtækja og iðnframleiðslu. Rafmagnsskortur kemur einnig niður á lífsgæðum íbúa, skólabörn geta ekki lært eftir að skyggja tekur, sjúkrahús og heilsugæslustöðvar eru án rafmagns og kæligeymslu lyfja er ábótavant, svo dæmi séu nefnd. Fólk brennir við til eldunar sem veldur mengun innandyra og öndunarfærasjúkdómum, sem kemur sérstaklega illa við konur og börn. Stór hluti rafmagns í sunnanverðri Afríku er framleiddur með vatnsaflsvirkjunum, en óstöðugur vatnsbúskapur hefur á síðust árum stuðlað að stopulli orkuframleiðslu. Þá er stór hluti rafmagns framleiddur með brennslu jarðefna sem stuðlar að mengun og gróðurhúsaáhrifum.“

Davíð nefnir að í löndunum á svæði sigdalsins í Austur Afríku felist mikil tækifæri til að virkja jarðhita. „Það hefur verið áætlað að möguleiki sé á allt að 14,000 MW raforkuframleiðslu frá jarðhita á þessu svæði. Sigdalurinn teygir sig frá Erítreu í norðri til Mósambík í suðri og alls búa um 340 milljónir manns í þessum löndum. Einungis hafa verið virkjuð um 200 MW af jarðhita á svæðinu, í Kenýa annars vegar og í Eþíópíu hins vegar. Virkjun jarðhita veitir raunhæfa möguleika fyrir lönd á svæðinu til framleiðslu hreinnar og endurnýjanlegrar orku til hagsbóta fyrir íbúa. Hingað til hafa hins vegar verið umtalsverðar hindranir í veginum, og má þar nefna kostnað við jarðhitarannsóknir, mikla óvissu um niðurstöður, og háan kostnað við boranir.“

 

Alþjóðabankinn kemur að borðinu síðar

Að sögn Davíðs er miðað við að íslensk sérþekking á sviði jarðhita muni spila stórt hlutverk í framkvæmd verkefnisins. Hann segir að engu að síður sé mikil óvissa samhliða jarðhitaleit en þess vænst að jákvæðar niðurstöður fáist í 6-7 löndum sem gæfu tilefni til frekari þróunar jarðhita.

Verkefnið er unnið sem hluti af samstarfi Íslands og Alþjóðabankans, sem hrundið var af stað fyrr á árinu. Það samstarf miðar að því að hraða nýtingu jarðhita til raforkuframleiðslu í löndum Austur Afríku. Þegar verkþáttum sem lúta að fjármögnun ÞSSÍ og NDF lýkur, er ætlunin að Alþjóðabankinn komi að borðinu og aðstoði lönd við fjármögnun á næstu skrefum í þróun jarðhitans.

Ef vel tekst til og jarðhitamöguleikar þessara landa verða staðfestir, er búist við að þetta samstarf gæti leitt til framleiðslu á yfir 200 MW af rafmagni úr jarðhita.

 

Heimild: Þróunarsamvinnustofnun Íslands

Fleira áhugavert: