Staða vatnsmála á Íslandi

visir

Ágúst 2011

Guðmundur Páll Ólafsson

Guðmundur Páll Ólafsson

Árið 1923 voru samþykkt vatnalög á Alþingi sem tóku mið af bændasamfélagi þess tíma. Lögin fólu í sér málamiðlun andstæðra sjónarmiða, þ.e. eignarréttar og almannaréttar. Með lögunum var vatn undanþegið eignarrétti á meðan nýtingarréttur var styrktur. Gömlu vatnalögin tryggðu almenningi aðgang að vatni og stóðu vörð um vatnafar – til dæmis með því að banna flutning á straumvatni úr farvegi sínum en megingalli við þau var möguleikinn á framsali vatnsréttinda.

Þessi lög eru ennþá í gildi þótt tilraun hafi verið gerð að endurskoða þau með lögum frá Alþingi árið 2006 en þau þóttu svo broguð að þau tóku aldrei gildi. Nýju lögin voru uppskrift að einkavæðingu vatns á Íslandi og heimiluðu áfram framsal vatnsréttinda og þar er farið með vatn eins og hverja aðra einkaeign algjörlega án tillits til samfélagslegrar þýðingar þess enda samþykkt í tíð blindrar einkavæðingar á almannaeigum og alþjóðavæðingar. Enginn fyrirvari var um verndun vatnafars eða votlendis, eða um náttúruvernd yfirleitt þótt vatn sé miðill lífsins. Lögin drógu taum framkvæmda og virkjana á kostnað vistkerfa, líffræðilegrar fjölbreytni og almannahagsmuna. Framsal vatnsréttinda var hins vegar takmarkað með lögum nr. 58/2008 þegar einkavæðing Hitaveitu Suðurnesja var komin á hættulegt stig.

reglurAlmennt er álitið að gömlu vatnalögin frá 1923 hafi verið vönduð og staðist furðu vel umbyltingu íslensks samfélags þótt margt í þeim lögum megi betur falla að íslensku samfélagi á 21. öld. Tvennt hefur gjörbreyst: Annars vegar hefur nýting vatns til orkuframleiðslu umturnað vatnafari á stórum svæðum og í því ásamt stórfelldri framræslu votlendis felst gríðarlegt inngrip í vistkerfi Íslands. Á hinn bóginn hefur þekking á náttúrufari landsins tekið miklum framförum og í framhaldi af því hefur krafan um varkárni gagnvart náttúruauðlindum fengið æ meiri hljómgrunn. Þessi þekking hefur endurspeglast í alþjóðlegum samningum sem Íslendingar hafa undirritað þótt stjórnsýslan og orkufyrirtæki landsmanna hafi hvorki sýnt þeim virðingu né farið eftir þeim.

Ísland er ákaflega auðugt af vatni og vatnsmagn á hvern íbúa er með því hæsta í heiminum. Samkvæmt skýrslu Auðlindastofnunar jarðar, WRI (World Resource Institute) fyrir árið 2000 er Ísland vatnsríkasta land í heimi með 605.000 tonn á hvern íbúa á ári á Íslandi. Vegna þessa ríkidæmis er það álit margra að vatnið á Íslandi sé óendanleg auðlind og meðferðin er samkvæmt því. Svo er þó ekki. Vatn er takmörkuð auðlind hvar á jörðu sem er.

vatnEftir hrun íslensks efnahags (2008), gríðarleg innanlandsátök vegna risavirkjana og orkufrekrar stóriðju, mislukkaða einkavæðingu á almenningseignum (einkum bönkum) og háværar kröfur um almenningseign á náttúruauðlindum skýtur mjög skökku við að iðnaðarráðherra skuli nú hafa látið semja frumvarp til vatnalaga sem treystir enn eignarrétt á vatni, meira að segja á úrkomu (loftkenndu vatni). Engin tilraun er gerð til að vernda vatnsauðlindina á einn eða annan hátt og almannahagur er fyrir borð borinn. Engin markmiðslýsing fylgir frumvarpinu og hvergi að sjá þá miklu vinnu sem vatnalaganefnd I og II lagði í að endurskoða lagafrumvarpið frá 2006 og samdi nýtt frumvarp sem treysti almannaréttindi og náttúruvernd en iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, kaus að stinga ofan í djúpa skúffu.

Enginn vafi er á því að nýjasta frumvarpið er missmíð en í því og hruninu sjálfu felst gullið tækifæri til að endurskoða stjórnarskrá, vatnalög, vatnsréttindi og meðferð vatna og votlendis í nýju ljósi sem heimsbyggðin öll hefur lært grimma lexíu af. Til þess að vel fari þurfa fleiri en lögfræðingar – þótt þrír séu – að koma að undirbúningi frumvarpsins. Hér er afar metnaðarfullt viðfangsefni fyrir náttúrufræðinga, félagsfræðinga, skipulagsfræðinga, náttúruverndar- og mannréttindasamtök, sveitarstjórnarmenn og fjölda annarra sem hafa djúpstæða þekkingu á vatni og nýtingu þess fyrir lífið og samfélagið. Leiðarljós laganna ætti að vera að treysta almannaréttindi og náttúruvernd og að gera vatn að almenningseign í stað einkaeignar.

Ef til vill verða ný vatnalög fyrir Ísland vitnisburður um þjóð sem ákvað að nýta samtakamátt sinn og þekkingu til að stýra vatnsmálum í landinu af visku og umburðarlyndi í stað þess að falla í ljónagryfju sérhagsmuna, einkavæðingar, markaðar og samkeppni í anda alþjóðavæðingar. Svo alvarlegt slys gæti auðveldlega orðið uppskrift að endanlegri einkavæðingu á auðlindum Íslands og allsherjarhruni íslensks samfélags.

 

 

Heimild: Vísir

Fleira áhugavert: