Nýting og arðsemi náttúruauðlinda Íslands

mbl

Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson

Nýting og arðsemi náttúruauðlinda Íslands

Ísland er auðugt að náttúruauðlindum, sérstaklega ef horft er til mannfjölda. Segja má að þrír stærstu atvinnuvegir okkar byggist á náttúruauðlindum landsins, þ.e. sjávarútvegur, orkusækinn iðnaður og ferðaiðnaður. Það skiptir því höfuðmáli fyrir þjóðarbúið að þessar auðlindir séu nýttar á arðbæran og sjálfbæran hátt, auk þess að vel sé gengið um auðlindina.

Sjávarútvegur
Íslendingar hafa löngum byggt afkomu sína á fiskveiðum. Byggð við Faxaflóa var mjög tengd veiðum, þéttbýlismyndun á höfuðborgarsæðinu á 19. öld átti rætur sínar að rekja til sjávarútvegs og sjávarútvegurinn var frumafl í útflutningi okkar. Um aldamótin 1900 kynntust íslenskir sjómenn og útgerðarmenn nýrri og byltingarkenndri tækni til fiskveiða. Umfangsmiklar veiðar á þorski og síld hófust með vélskipum og veiðarfærin voru miklu afkastameiri en áður hafði þekkst. Aldalangri stöðnun, hokri og bágindum var létt af þjóðinni sem gat loks litið framtíðina bjartari augum eftir óáran og landflótta undangengin ár.

Stefna Íslendinga um málefni hafsins byggist á því að viðhalda heilbrigði, hreinleika, líffræðilegri fjölbreytni og sjálfbærni sjávar umhverfis Ísland til framtíðar. Markmiðið er að þessi auðlind haldi áfram að stuðla að velferð þjóðarinnar. Stefnan felur því í sér varðveislu og umsjón auðlinda á grundvelli vísindalegrar þekkingar í ljósi virðingar fyrir vistkerfi hafsins í heild sinni.

Íslendingum hefur tekist vel upp hvað þetta varðar. Við lærðum af reynslunni þegar síldin hvarf árið 1969 vegna ofveiði. Hvarf síldarinnar varð þjóðinni allri mikið áfall í atvinnu- og efnahagslegu tilliti enda hafði hún staðið undir allt að helmingi af útflutningsverðmætum þjóðarinnar. Fiskistofnarnir í kringum Ísland eru almennt séð vel á sig komnir, sjálfbærni hefur loks verið tryggð og arðsemi í sjávarútvegi er eins og best gerist í heiminum. Margir hafa þakkað kvótakerfinu þennan góða árangur en um það eru reyndar deildar meiningar. Harðar hefur svo verið deilt um sjálfa auðlindarentuna, hvað hún eigi að vera há og hvernig skuli útfæra hana. Sú umræða hefur verið í gangi um langt skeið og sitt sýnist hverjum.

natturuaudlindirOrkusækinn iðnaður
Orkusækinn iðnaður byggist á orkuauðlindum landsins. Fyrir tíma álveranna stóð sjávarútvegurinn fyrir svo til öllum útflutningstekjum landsmanna. Sjávarútvegur er í eðli sínu sveiflukenndur og því má segja að áliðnaðurinn hafi með tilkomu sinni hér á landi átt sinn þátt í að jafna þær hagsveiflur til góða fyrir þjóðarhag, enda var það meginmarkmiðið með stofnun fyrsta álversins.

Íslenska álfélagið (ÍSAL) reisti fyrsta álverið árið 1969 í Straumsvík. Tilkoma þess átti stóran þátt í því að slá á þá kreppu sem blasti við eftir hrun norsk-íslenska síldarstofnsins á sama tíma og að rétta þjóðarhaginn við. Sama má segja um þýðingu álveranna í kreppunni eftir bankahrunið 2008. Þá reyndust gjaldeyristekjur af útflutningi á áli og sjávarafurðum vera sá máttarstólpi efnhagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar sem stóð af sér alla áraun þegar flest annað brást.

Álverin áttu einnig stærstan þátt í að það raforkukerfi sem við búum við var yfirleitt byggt. Aldrei hefði verið lagt í þær stóru virkjanaframkæmdir, sem raforkukerfið grundvallast á hér á landi, nema Landsvirkjun hefði haft traustan orkukaupanda eins og álverin til lengri tíma litið. Álverin tryggðu sjóðsstreymi til niðurgreiðslu þeirra lána til Landsvirkjunar sem fjármögnuðu virkjanirnar. Almenningur nýtur m.a. góðs af þessu með einu lægsta orkuverði í Evrópu sem ella væri ekki.

Nýleg skýrsla Hagfræðistofnunar staðfestir að heildarframlag áliðnarins til þjóðarbúsins er mikið en nánast öll innlend álframleiðsla fer til útflutnings. Meðalvirði álútflutnings tímabilið 2010 til 2012 nam 237 milljörðum króna á ári. Það þýðir að álið stóð fyrir 40% af heildar vöruútflutningi landsins á þessu tímabili. Það má því segja að áliðnaðurinn standi svo til jafnfætis sjávarútvegnum hvað þetta varðar. Í þessu ljósi er undarlegt að sjá ítrekaðar tilvitnanir í Indriða H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóra, sem af einhverjum orsökum reynir að gera sem minnst úr framlagi áliðnaðar til þjóðarbúsins. Rétt eins og með sjávarútveginn er eðlilegt að menn takist á um auðlindarentuna af áliðnaði en gera verður þær lágmarkskröfur að ekki sé farið með algert fleipur. Sama á gildir varðandi umræðuna um umhverfisáhrif áls. Þar er vænlegast að halda sig við staðreyndir

Ferðaiðnaður
Ferðaiðnaðurinn byggist á hreinleika landsins og þeirri mikilfenglegri náttúru sem landið býður upp á. Þetta er jafnframt sá atvinnuvegur sem vaxið hefur með hreinum ólíkindum undanfarin ár. Reiknað er með að fjöldi ferðamanna á þessu ári verði 1,3 milljónir og nemur árleg aukning tugum prósenta. Á tíunda áratugnum komu að meðaltali 380 þúsund erlendir ferðamenn til landsins á ári hverju og þá bjuggu Íslendingar við neikvæðan ferðajöfnuð.

Samkvæmt nýrri spá Samtaka ferðaþjónustunnar má reikna með að heildargjaldeyristekjur í ferðaþjónustunni á þessu ári muni nema tæplega 370 milljörðum króna. Ef þessi spá gengur eftir hafa útflutningstekjur ferðageirans aukist um 100 milljarða króna á tveggja ára tímabili og munar um minna. Af þessari upphæð eru 316 milljarðar króna vegna útgjalda erlendra ferðamanna innanlands ásamt fargjaldatekjum í erlendri mynt. Það er því engin furða að stærsta flugfélag landsins, Icelandair, sýni mikinn hagnað um þessar mundir. Þjónustujöfnuður við útlönd var jákvæður um 90,4 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi og munar þar mestu um tekjur í ferðaþjónustu.

Ef fram heldur sem horfir, er því ljóst að ferðaiðnaðurinn er á góðri leið með að verða stærsti atvinnuvegur landsins. Hins vegar hefur borið á miklum vaxtaverkjum í þessari grein. Innviðir samfélagsins hafa ekki fylgt eftir þessari miklu fjölgun ferðamanna og víða er pottur brotinn í þeim efnum.

Fjármagn virðist víða vanta til að byggja upp nauðsynlega innviði og deilt er um fjármögnum þeirra. Hugmyndir um ferðapassa hafa fallið í mjög grýttan farveg og ekki er ljóst hvernig stjórnvöld munu haga þessum málum til framtíðar. Laun starfsfólks í ferðaiðnaði eru enn lág þrátt fyrir mjög blómlega starfsemi, miklu lægri en í sjávarútvegi og áliðnaði. Sveitarfélögin hafa t.d. gagnrýnt hve lítið af heildartekjum ferðaiðnaðarins skilar sér til þeirra í formi skatttekna, en þau hafi samt sem áður þurft að leggja út mikið fé til að byggja upp innviðina í héraði undir ferðaiðnaðinn.

Klasasamstarf eykur arðsemi
Mikilvægt er að vel sé hlúð að sköpun og aukningu verðmæta í öllum þessum grunnatvinnuvegum þjóðarinnar. Þar gegna svonefndir klasar lykilhlutverki en hér á landi hefur klasasamstarf haslað sér völl á sviði sjávarútvegs, álframleiðslu og ferðaiðnaðar með góðum árangri. Klasi er svæðisbundinn hópur fyrirtækja, framleiðenda, birgja, þjónustuaðila, kaupenda, opinberra stofnana og fleiri aðila sem eiga það sameiginlegt að hagnast af samkeppni og framþróun innan sama iðnaðar. Lykilatriði er að viðkomandi aðilar geti í senn snúið bökum saman og átt í samkeppni. Markmiðið er að efla samkeppnishæfni með virðisauka fyrir viðkomandi fyrirtæki og þjóðarbú og auka sýnileika, rannsóknir og nýsköpun á þessu sviði. Sú skörun þekkingarsviða, sem klasasamstarf felur í sér, er í eðli sínu ein helsta uppspretta frjórra hugmynda og nýsköpunar í landinu.

 

Heimild: Mbl

Fleira áhugavert: