Rottur í Vesturbænum: „Þetta er úti um allt“

visir

Rottur

Þetta er ekki íslensk rottuhrúga. VÍSIR/GETTY

„Þetta er út um allt“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, um rottugang í Vesturbænum í Reykjavík en hún vakti athygli á rottugangi í Vesturbænum í umræðuhópnum Vesturbær á Facebook.

Ásthildur hefur lengi verið með annan fótinn í Vesturbænum og á íbúð í Hagamel og þekkir því vel til hverfisins. Hún segir að lengst hafi hún aldrei orð var við rottugang en það hafi breyst á undanförnum árum.

„Í gamla daga, þegar ég var lítil, þótti rottugangur vera það hræðilegasta sem hægt var að vita um. Ég hef orðið vör við þetta síðastliðin þrjú ár en áður sá maður þetta varla.“

Sjá einnig: Rottur sýnilegri í borginni en fyrri ár

 

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar og íbúi í Vesturbæ Reykjavíkur

Ásthildur Sturludóttir VÍSIR/ANTON

Ásthildur vekur máls á þessu í umræðuhópnum Vesturbær á Facebook og í ummælum má sjá að íbúar í hverfinu hafa sumir hverjir orðið varir við rottur. Ekki er langt síðan Vísir greindi frá því að heimilisfræðikennari við Melaskóla hefði hætt störfum vegna rottugangs.

Skemmst er að minnast þess að rottur virtust leika lausum af hala af miklum móð í sumar og síðastliðið sumar og skelltu sér í sund í Vesturbæjarlaug eins og sannir Vesturbæingar.

 

Nýr rottufaraldur í Vesturbænum?
Því má vel spyrja sig að því hvort að hægt sé að tala um rottufaraldur í Vesturbænum? Vísir ræddi við tvo meindýraeyði sem hafa upplifað eitt og annað í þessum efnum en eru þó ekki alveg á sama máli.

Steinar Smári Guðbergsson, betur þekktur sem meindýraeyðir Íslands, segist sinna rottuútköllum nokkrum sinnum í hverri viku.

„Það er meira af rottum í Reykjavík og það virðist vera meira um þetta síðastliðin tvo ár. Það hefur verið mikið af framkvæmdum víðsvegar í borginni, opin skólprör og annað sem fylgir því. Það ýtir undir það að fólk verði vart við þetta.“

Sjá einnig: „Höfum fundið rottur á þriðju hæð í fjölbýlishúsi“

Vísir talaði einnig við meindýraeyðinn Smára Sveinsson sem segist reglulega sinna útköllum vegna rottugangs en tæplega sé hægt að tala um rottufarald í þessum efnum.

„Ég hef verið í þessum bransa í tuttugu ár og þetta er alltaf bara mjög svipað, það er lítið um sveiflur. Þetta er kannski meira áberandi í 101 þar sem hafa verið mikið af framkvæmdum en þetta er ekkert endilega bundið við Vesturbæinn.“

 

Steinar Smári Guðbergsson meindýraeyðir

Steinar Smári Guðbergsson meindýraeyðir VÍSIR/ANDRI MARINÓ

Til skammar fyrir Vesturbæinn

Ásthildur, sem er ekki bara bæjarstjóri Vesturbyggðar heldur einnig stjórnsýslufræðingur, segir að sameinað átak borgarbúa og borgaryfirvalda þurfi til þess að stemma stigu við rottugangi í borginni.

„Íbúar eiga að sjá til þess að fráveita og skólplagnir í húsum og við hús sé í lagi og borginni ber skylda til þess að sjá til þess að það sem tekur við því sé í lagi. Mér finnst þetta hreinlega til skammar fyrir Vesturbæinn, eitthvað dýrasta hverfi landsins.“

Sjá einnig: Sá rottu bíta barn

En hvað er hægt að gera?
Meindýraeyðarnir Smári og Steinar eru sammála um að lítið sé hægt að eiga við þær úti en fólk geti gert ýmislegt til þess að koma í veg fyrir að þær leiti inn á við. Mikilvægt sé að tryggja að skólplagnir séu í lagi auk þess sem að gott geti verið að setja net í glugga sem eru við jörðu.

„Svo er gott að huga vel að niðurföllum sem eru inn í íbúðum. Það kemur fyrir að rottur séu búinn að ýta eða naga niðurfallsgrindur í burtu og þannig geta þær komist inn,“ segir Steinar.

 

Heimild: Vísir

Fleira áhugavert: