Harmleikur almenninganna

visir

Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson

Björk Guðmundsdóttir og Andri Snær Magnason blésu nýlega til blaðamannafundar þar sem þau lýstu áhyggjum sínum af hugmyndum að lagningu raforkusæstrengs til Bretlands. Benti Andri Snær m.a. á að ef Íslendingar virkjuðu allar ár og alla fossa á Íslandi, gæti landið einungis framleitt tíu prósent af orkuþörf Breta. Jafnframt lýstu Björk og Andri sig andvíg Sprengisandslínu, sem reyndar er nátengd sæstrengshugmyndinni enda væri meginhlutverk hennar að flytja orku að sæstrengnum.

Umræðan um raforkusæstrenginn náði ákveðnu hámarki við komu Camerons til landsins fyrir skömmu. Landsvirkjun hefur beitt miklu afli og fjármunum við að koma þessari umræðu á kortið. Kostum sæstrengsins hefur t.d. verið haldið á lofti á öllum aðalfundum Landsvirkjunar frá því að Hörður Arnarson tók við sem forstjóri fyrirtækisins árið 2009.

Í vor gerði Gallup viðhorfskönnun meðal almennings þar sem könnuð var afstaða landsmanna til lagningar raforkusæstrengs. Niðurstaðan var sú að meirihluti landsmanna var andvígur þessum áformum. Andstaðan jókst svo verulega ef sæstrengurinn kallar á nýjar virkjanaframkvæmdir, en 67% landsmanna voru andvígir í því tilviki. Þessi niðurstaða bendir ótvírætt til þess að í framhaldinu verði hart tekist á um þetta verkefni.

Sporin hræða
Aðkoma Breta að málinu er áhugaverð, sérstaklega í sögulegu samhengi. Menn muna vel eftir Þorskastríðunum þar sem Bretar sóttu stíft í sjávarauðlind okkar og viðurkenndu ekki rétt Íslands til fiskveiðilögsögu. Skemmt er svo að minnast hryðjuverkalaganna sem Bretar settu á okkur í bankahruninu. Nú sækjast Bretarnir hins vegar eftir því að fá aðgang að orkuauðlindinni okkar.

Hvaða pólitíska áhætta er fólgin í því í ljósi sögunnar? Fyrst háðum við fiskveiðistríð við Breta, svo kom fjármálastríð með hryðjuverkalögun. Spurningin er hvort sæstrengurinn gæti leitt til orkustríðs við Breta. Hvernig stæðum við þar að vígi ef Bretarnir ættu sjálfir strenginn eins og langlíklegast er? Þorskveiðistríðin gengu aðallega út á að verja fiskauðlindina gagnvart óhóflegri ágengni Breta. Allir landsmenn eru sammála um að ganga vel um landsins gæði, sbr. sjálfbærni fiskstofna. Hvað með orkuauðlindina? Á að ofnýta hana með því að virkja hverja sprænu í landinu í þágu Breta? Hvað með ferðaiðnaðinn í því samhengi og ímynd landsins sem hreins og óspillts? Þar verður ekki bæði haldið og sleppt.

Hruntaktur
Harmleikur almenninganna (e. Tragedy of the commons) er áberandi hugtak í umræðunni um sjálfbæra þróun. Hugtakið er notað til þess að skýra hvers vegna sameiginlegar auðlindir eru oft nýttar óhóflega af einstökum aðilum, ef miðað er við heildarhagsmuni samfélagsins. Ein birtingarmynd þessa vandamáls er sú að sameiginlegar auðlindir eru ofnýttar af fyrirtækjum sem hafa óskert aðgengi að þeim. Er Landsvirkjun að setja sig í slíkar stellingar með hugmyndum sínum um sæstreng?

Áhugavert er að sjá hvernig umræðan um sæstrenginn hefur þróast. Fjárfestar hafa komið fram á sjónarsviðið og haldið því fram að sæstrengurinn sé arðbær kostur. Sama gildir um greiningardeildir bankanna. Þessi stemning minnir á margt um tímann fyrir hrunið. Þingmenn hafa jafnvel stigið fram og tekið undir söng fjármálaaflanna. Einn þingmaður hélt því meira að segja fram fyrir skömmu að það væri skylda okkar að virkja meira og miðla þeirri orku til annarra landa! Sæstrengshugmyndin er í hnotskurn kapphlaup hagsmunaðila, breskra og íslenskra, þar sem hver og einn hugsar fyrst og fremst um sjálfan sig. Fjármálafyrirtækin spila með þar sem þau vilja komast að kjötkötlunum. Það er hruntaktur í þessu kapphlaupi.

 

Heimild: Vísir

Fleira áhugavert: