Bullið um orkusölu til Bretlands

mbl

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Nýverið var haldin ráðstefna um mögulegan raforkusæstreng milli Íslands og Bretlands. Þegar litið er til þeirra sem stóðu að fundinum og höfðu þar framsögu, kemur ekki á óvart að um var að ræða hallelújasamkomu hagsmunaðila.

Landsvirkjun hefur stundað kostnaðarsamt trúboð fyrir sæstrengnum undanfarin ár. Eins og vænta mátti ritaði helsti trúboði sæstrengsins og talsmaður Landsvirkjunar enn eina áróðursgreinina um „ótvíræða kosti sæstrengsins“. Að vanda klykkti hann út með niðrandi orðum um íslenska stóriðju sem er fastur liður í skrifum hans. Það er umhugsunarefni að Landsvirkjun skuli verja almannafé til ítrekaðs óhróðurs um viðskiptavini sína með þessum hætti.

Raforkuverð og þróun í Bretlandi
Talsmaður þessi ímyndar sér í grein sinn að að raforkuverðið, sem vænta mætti vegna raforkusölu til Bretlands, yrði sennilega á bilinu 80-140 Bandaríkjadollara á megawattsstund ($/MWst) að frádregnu flutningsgjaldi yfir strenginn sem sýnt hefur verið fram á að verður um 125 $/MWst. Samanlagt væri verðið því um 265 USD/MWst Bretlandsmegin ef villtustu draumar talsmannsins eiga að ganga eftir.  Staðreyndin er hins vegar sú að líkt og annars staðar í Evrópu hefur orkuverð í Bretlandi farið lækkandi upp á síðkastið, þó að það hafi ekki lækkað jafnmikið og á meginlandinu og á Norðurlöndum. Þannig er meðalverð ársins 2015 á markaði í Bretlandi u.þ.b. 68 $/MWst en var þegar hæst lét árið 2011 u.þ.b. 90 $/MWst. Í Bretlandi hefur því orðið lækkunin á tímabilinu 2011 til 2015 um 30%. Ekkert bendir til þess að nokkurn tíma í framtíðinni verði möguleiki á því að koma verði fyrir raforkuna í gegnum fyrirhugaðan sæstreng neitt nálægt þessu.

En er líklegt að orkuverð í Bretlandi hækki yfirleitt? Ekki eru færð ein einustu rök fyrir því í grein talsmannsins að líklegt sé að verðið stígi aftur. Þvert á móti benda nýjustu vísbendingar til þess að orkuverð í Bretlandi, muni halda áfram að lækka til lengri tíma litið eins og annarstaðar í Evrópu. Nægir þar að nefna gríðarlegar gaslindir sem Bretar hafa nýlega fundið. Það er ekkert smáræði sem álitið er að sé í jörðu á Englandi af gasi og olíu.  Þannig bendir allt til að Bretar geta verið sér nógir um gas í áratugi, jafnvel í heila öld, en  bresk yfirvöld hafa þegar veitt 27 ný leyfi til olíu- og gasleitar.

Þróun á köldum samruna er komin á flug og svo virðist að sú tækni sé innan seilingar. Þessu til viðbótar má nefna að breska fyrirtækið Moltex Energy hefur í tvö ár þróað umhverfisvæna kjarnorku með MSR aðferðinni svokölluðu. Moltex Energy hefur nú þegar verið valið til að byggja fyrsta MSR tilraunaverið í Bretlandi og líklegt er að það verði orðið að veruleika innan tveggja ára. Um er ræða hagnýtingu umhverfisvænnar kjarnorku með þóríum sem hugsanlega getur umbylt orkubúskap heimsins til lengri tíma litið og stórlækkað orkuverð.

Tenging milli markaðssvæða innan Evrópu leiðir svo til þess að rafmagn flyst frá lágverðsmarkaði til háverðsmarkaðar. Samkvæmt lögmálum framboðs og eftirspurnar mun það þýða hækkun á verði á lágverðsmarkaðnum og lækkun á verði á háverðsmarkaðnum. Þannig hafa stórar tengingar, eins og t.d. frá Noregi þrýst verði þar upp en haft lækkandi verðáhrif á Bretlandsmarkaði. Hið sama mun gerast hér verði sæstrengurinn að veruleika. Verð hérlendis til heimila og fyrirtækja mun hækka verulega.

Flest lönd heimsins hafa sett sér þá stefnu að efla hlutdeild endurnýjanlegra orkukosta. Ný sólarorku og vind-raforkuver skjóta upp kollinum víða, í þeirri viðleitni landa að auka hlutfall grænnar orku. Á sama tíma eru gerðar auknar kröfur til orkunýtni rafbúnaðar. Orkunýting er því stöðugt að batna. Þessi þróun, sem ekki sér fyrir endann á, þrýstir enn frekar á verðlækkanir til langframa.

Draumórar
Þannig benda öll rök til þess að orkuverð á Bretlandsmarkaði haldi áfram að lækka. Engar vísbendingar eru um að nokkurntíma í framtíðinni verði möguleiki á því að koma verði fyrir raforkuna í gegnum fyrirhugaðan sæstreng neitt nálægt því verði sem talsmaðurinn nefnir í grein sinni.

P.S. Í upplýsingum sem koma fram neðanmáls í Fésbókar athugasemdum við grein talsmannsins getur aðili þess sem viðstaddur var fundinn, að verðin sem talsmaðurinn setur fram í umræddri grein sinni hafi aldrei komið fram á fundinum

 

Heimild: Mbl

Fleira áhugavert: