Hafa orðið framfarir í lagnakerfum íbúðarhúsa ?

LAFI1

Janúar 2015

Gunnar Torfason

Gunnar Torfason

Að lifa með lögnum

Síðustu 50 árin eða svo hef ég lifað og búið annars vegar í raðhúsi, sem ég byggði sjálfur, og hins vegar í 8 hæða, 30 íbúða fjölbýlishúsi, þar sem ég keypti íbúð, tilbúna undir tréverk. Lét ég ljúka við hana samkvæmt mínum hugmyndum. Réði þó engu um lagnakerfi utan minnar íbúðar.

Hver er reynsla mín af lagnakerfum þessara íbúða og hvernig met ég ástandið í dag? Ég ætla að gera lauslegan samanburð og miða þá við ártölin 1970, 1990 og 2010. Ég tek fram að þótt ég sé áhugamaður um lagnakerfi, tel ég mig ekki sérfróðan í hönnun og uppbyggingu þeirra. Ég ætla einungis að reyna að lýsa lauslega þeim áhrifum, er ég sem íbúi, hef orðið fyrir í tímans rás.

 

1970 Metin atriði og Umsögn

Hönnuðir – Hönnun var unnin af 1. flokks verkfræðistofu og voru engir hnökrar á þeirri vinnu.

Lagnakerfi – Íbúð var einnar hæðar í 5 húsa lengju, en þó að hálfu leyti með kjallara og innigarði (atrium). Frárennslislagnir undir miðri húsalengjunni voru pottlagnir. Hitakerfi var lofthitun.

Iðnaðarmenn – Handvaldir blikksmiðir smíðuðu stokka og önnuðust uppsetningu hitakerfis. 1. flokks pípulagnameistari annaðist aðrar lagnir með sóma. Meistarar og hönnuðir sáu í sameiningu um stillingar kerfis og lokaúttekt.

Upplifun íbúa – Öll kerfi, stýringar og stillingar reyndust vel. Kerfi hljóðlaus og auðveld í rekstri. Vellíðan. (Því miður hefur líklega ekki tekist svona vel til hjá húsbyggjendum almennt á þessum tíma. Hér var valinn maður í hverju rúmi.)

Um 1970 bjuggum við enn við ófullkomna hönnun, bæði hvað varðar teikningar og verklýsingar. Voru það mikil viðbrigði fyrir undirritaðan, eftir að hafa unnið í 3 ár við verkfræðistörf í Þýskalandi. Við vorum að ljúka „selvbyggeri“-tímabilinu í Smáíbúðahverfinu og víðar. Steypustöðvar lokuðu enn í 2-3 mánuði um áramót Gunnar Torfason. Fréttabréf Lagnafélags Íslands 21 Fréttabréf Lagnafélags Íslands Verklýsingar voru frumstæðar Á markaðnum voru góðir og mjög góðir hönnuðir, en þeir bestu fengust flestir við aðrar gerðir bygginga og kerfa en í íbúðabyggingum. Við höfum, að ég held, alltaf átt góða iðnaðarmenn, en á árunum 1970-1980 var enn búið við „sparsemi“ í notkun þeirra. Enn gilt orðatiltækið; „með löggum skal land byggja“. Bygginga-reglugerð var enn ófullkomin og aðhald hins opinbera í lágmarki. Byggingarefni og búnaður var í sókn, en efnisþekking fylgdi ekki að fullu eftir. Á 7. áratugnum varð eins konar smá-bylting Í íbúðabyggingum með tilkomu Framkvæmdanefndar byggingaráætlunar og byggingu 1250 íbúða í Breiðholti I og III á árunum 1966-1981. Þar var beitt nýjustu aðferðum í hönnun, skipulagningu og áætlanagerð, fullkomnum tækjakosti og fé var tryggt til framkvæmdanna. Þetta leiddi til lægra verðs, aukinna gæða og styttri byggingartíma. Þessi nýja hönnun, tækni og skipulag var nokkurn tíma að síast inn í verktakamarkaðinn almennt.

 

1990 Metin atriði og Umsögn

Hönnuðir – Ódýrustu arkitektar og verkfræðingar. Metnaður neðan við meðallag og kom það m.a. fram í litlu sem engu eftirliti. Plasteinangrun innan á útveggjum, vöntun á hljóðeinangrun neyðarstiga og 2. flokks efnisval kerfa setti niður hljóðvist hússins.

Lagnakerfi – Fjölbýlishús með 30 íbúðum á 8 hæðum. Allar frárennslislagnir í illa einangruðum plaströrum. Ofnahitun með retúr hitastillum. Útloftun lóðréttra stofna ófullkomin. Erfiðleikar með jöfnun þrýstings á neysluvatni á efri og neðri hæðum hússins. Hita-, vatns- og frárennslislagnir í 50 bíla geymslu verulega gallaðar.

Iðnaðarmenn – Metnaðarlaus pípulagnameistari annaðist hita- og vatnslagnir. Kröfur og eftirlit verktaka að líkindum ekki 1.flokks.

Upplifun íbúa – Öll kerfi, stýringar og stillingar reynast varla í meðallagi. Kerfi eru hávær og þurfa verulegt og kostnaðarsamt viðhald. Íbúar verða fyrir óþægindum af hávaða og þrýstingsmismun í vatnslögnum á baðherbergjum.

 

Um 1990 vorum við að vakna til meðvitundar um nauðsyn bættra gæða í byggingariðnaðinum. Skortur á hæfum byggingaverkamönnum og iðnaðarmönnum ýtti af stað innflutningi erlendra starfsmanna, sem margir hverjir voru dugandi starfsmenn, en fluttu kannski ekki með sér nein ný gæði í vinnubrögðum. 22 Fréttabréf Lagnafélags Íslands Á árunum 2004-2009 var vísitala íbúðaverðs yfir eðlilegum mörkum Grimm samkeppni um byggingalóðir, sem voru þá á uppsprengdu verði, var á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu Bankahrunið í kjölfar efnahagskreppunnar 2008-2011 gjörbreytti landslaginu í byggingariðnaði á Íslandi. Allt fór í baklás. Mikil grisjun varð í byggingakranaskóginum.

 

2010 Metin atriði og Umsögn

Hönnuðir – Val hönnuða og gæði þeirra vinnu virðist vera miklum mun betri í dag, en var fyrir 20 árum eða svo. Líklegt er að aukið eftirlit og kröfur byggingarfulltrúa og Mannvirkjastofnunar hafi haft hér áhrif til góðs. Einnig má vafalaust rekja bætt gæði til fræðslustarfs Lagnafélags Íslands.

Lagnakerfi – Lagnakerfi í skoðuðum fjölbýlishúsum eru yfirleitt ofnakerfi, en þó bregður fyrir gólfhitakerfum. Sérstaklega er áberandi hvað hljóðvist hefur batnað með árunum, bæði í kerfunum sjálfum og á milli íbúða og almennt á milli hæða. Lagnakerfi eru yfirleitt mjög hljóðlaus og lítið kvartað um truflanir.

Iðnaðarmenn – Iðnaðarmenn skila almennt af sér góðu verki.

Upplifun íbúa – Öll kerfi, stýringar og stillingar reynast vel. Kerfi hljóðlaus og auðveld í rekstri. Almenn ánægja og vellíðan. Matið, sem merkt er 2010, er sett fram eftir upplifun í heimsóknum í nýrri íbúðir fjölbýlishúsa, 4 til 7 hæða og viðræður við íbúa þar.

 

Um 2010 hefur orðið mikil breyting til batnaðar hvað varðar aukið gæðaeftirlit í byggingariðnaðinum. Byggingarreglugerð hefur verið í gagngerðri endurskoðun (ný útgáfa kom í janúar 2011) og Mannvirkjastofnun var formlega stofnuð á sama tíma.

Auknar kröfur til hönnuða og verktaka leiddu til byltingarkenndra endurbóta í hönnun og frágangi íbúða og þá ekki hvað síst lagnakerfa. Kröfur neytenda jukust og ytra gæðaeftirlit batnaði mikið. Innra eftirlit verktaka stefndi einnig á rétta leið.

Nú eru greinileg merki um aukin gæði í öllum þáttum lagnamála. Mælingar kerfa eru markvissar í dag þótt ekki sé farið fram á mælitækni Kristjáns Ottóssonar sem viðhöfð var í Þingeyrarkirkju í Dýrafirði. (sjá Fréttabréf LAFÍ nr. 122 bls. 15-16). Framangreint mat er að sjálfsögðu ekki vísindaleg greining og ekki byggð á skipulögðum rannsóknum. Ég er fullviss um að við erum á réttri leið. Miklar framfarir hafa orðið á síðustu 40 árum.

 

Heimild: LAFÍ

Fleira áhugavert: