Fóru á árabáti inn í Vaðlaheiðargöng

Rúv

Hér má sjá sjónvarpsfrétt

Fóru á árabáti inn í Vaðlaheiðargöng

Staðarstjóri Ósafls í Vaðlaheiðargöngum og framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf. fóru í dag á árabáti inn í Vaðlaheiðargöng, til að meta aðstæður. Fnjóskadalsmegin hafa göngin verið full af vatni síðan í vor en stefnt er að því dæla vatninu út sem allra fyrst.

 „Þetta er mjög sérstakt, þetta er ekki eitthvað sem maður á von á að geta róið inn göngin,“ segir Einar Hrafn Hjálmarsson, staðarstjóri Ósafls. Hann segir tilganginn vera þann að meta hvaða áhrif vatnið hefur haft á bergstyrkingar.

„Svo förum við að hefja dælingar núna, meiningin er að dæla öllu vatninu út og skoða hrunsvæðið sem er innst. Þann kafla lögum við svo og getum þá haldið áfram að bora,“ segir Einar Hrafn. Hann á von á því að dælingin sjálf taki um tvær vikur, en stefnt er að því að hefja dælingar sem allra fyrst. Líklegt þykir að það verði í næstu viku.

Ekki kemur til greina að loka
Göngin hafa ekki lengst nema um níu metra síðan í júlí. Valgeir Bergmann Magnússon, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf., segir að pressan á að halda áfram með verkið sé ekki orðin sérstaklega mikil.

„Pressa og ekki pressa, þetta gengur eins hratt og hægt er og því miður, eins og flestallir vita, þá hefur fjallið og vatnið ekki leikið við okkur. Einhvern tímann, þá tekst þetta,“ segir Valgeir, sem segir að það komi ekki til greina að göngunum verði hreinlega lokað.

„Nei, við erum komnir af stað og þetta tekst. Það þarf bara smá þolinmæði, þetta er ekki í fyrsta skipti í göngum sem það verða tafir vegna vatns,“ segir Valgeir.

Nánar verður fjallað um bátsferðina í sjónvarpsfréttum klukkan tíu í kvöld.

 

Heimild: RÚV

Fleira áhugavert: