Oliuverð – Spár, olíuguð, sagan

Grein/Linkur:  Alí: Spámaður Olíuguðsins

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Alí: Spámaður Olíuguðsins

Stundum þarf að taka ákvörðun. Eins í dag þegar búið var að velta vöngum í heila viku um hvað hvolpurinn, sem kominn er á heimilið, eigi að heita. Frosta, Hekla, Katla, Úa, Saga, Lotta, Askja… Hvað passar best við fallega tík af íslensku eðalkyni? Og í dag var tekin ákvörðun. Askja heitir hún.

En ég er ekki tilbúinn að taka ákvörðun um það hvort ég telji að peak-oil sé náð. Enda er það lítilfjörlegt mál miðað við mikilvægi þess að nefna hund! Það er reyndar ósköp auðvelt að setja sig í gáfulegar stellingar og segja eins og margir aðrir gera nú um stundir: „Allt bendir til þess að við höfum séð endann á easy oil – héðan í frá liggur leiðin að 200 dollara olíu!“ A.m.k. er fátt sem bendir til þess að olían taki upp á því að renna sér niður í góðu gömlu 50 dollarana. En gætum okkar samt – það getur verið vafasamt að fylgja fjöldanum. Stundum er farsælast að skera sig úr hópnum.

Muniði eftir Arjun Murti? Örugglega sumir. Murti var (og er) starfsmaður Goldman Sachs og lét það út úr sér árið 2005 að olían myndi innan ekki mjög langs tíma fara yfir 100 USD og jafnvel Í allt að 105 USD. Það varð hreinlega allt vitlaust. Verðið á fatinu var þá um 50 USD og menn töldu Murti einfaldlega galinn og hlógu að fíflinu. Þeir hinir sömu hlæja víst minna þessa dagana. En Murti sjálfur er ekki að hreykja sér, heldur bendir á að hann hafi líklega átt að láta menn hlæja ennþá hærra – spá hans hafi jú reynst full varfærin.

Ali al-Naimi

Ali al-Naimi

En Murti viðurkennir líka fúslega að kannski hafi hann eftir allt rangt fyrir sér. Kannski sé þetta verð bara fyrst og fremst vegna spákaupmennsku. Og ef svo sé, fari olíuverðið líklega niður í 35 USD á árabilinu 2010-2014. En hann bætir því við að sjálfur telji hann líklegast að við sjáum senn olíuverðið í 150-200 USD. Og miðað við reynsluna af spádómum Murti's er kannski ekki skrýtið að nú vilji menn taka mark á honum og kaupa, kaupa, kaupa…

Já – það er gaman að þessu. En í reynd snýst þetta allt um óvissuna í Arabíu. Enginn veit hversu miklar olíubirgðirnar þar eru – en á því veltur nánast öll framtíð og þróun orkugjafa. Ekki furða þó menn sperri eyrun þegar Ali al-Naimi talar (olíumálaráðherra Saudanna, sbr. myndin hér til hliðar). Þetta er svo sannarlega efni í góða Tinnabók.Rétt að bæta því við að Alí, þessi helsti spámaður olíuguðsins, var nýlega valinn einn af 100 áhrifamestu einstaklingum heims af Time Magazine. Enda í reynd maðurinn sem stjórnar krananum. Vona að hann hvísli að mér í draumi hvort hann hyggist skrúfa meira frá.

Fleira áhugavert: