HS Veitur, Reykjanes – Treysta gömlum lögnum
Grein/Linkur: Treysta gömlum lögnum á Reykjanesi
Höfundur: Kristinn Haukur Guðnason, Fréttablaðið
.
.
September 2022
Treysta gömlum lögnum á Reykjanesi
Þó að hluti lagnakerfisins á Reykjanesi sé kominn til ára sinna og jarðhræringar gangi yfir hafa HS Veitur eða sveitarfélög ekki áhyggjur af lögnunum. Vel sé fylgst með kerfinu
HS Veitur og sveitarfélög á Suðurnesjum hafa ekki áhyggjur af því að lagnir bresti líkt og gerðist í Hvassaleiti í Reykjavík laugardaginn 3. september. Hluti lagnakerfisins er gamall og íbúar hafa sums staðar tekið eftir breytingum á vatnsþrýstingi.
„Við erum ekki með neinar lagnir sömu tegundar og gaf sig í Hvassaleiti,“ segir Svanur G. Árnason, sviðsstjóri vatnasviðs HS Veitna. „Við treystum vel okkar lögnum á okkar veitusvæði, en auðvitað koma upp bilanir af ýmsum toga, til dæmis rofna lagnir eða einhver grefur í þær.“
Lögnin sem fór í sundur í Hvassaleiti með gríðarlegu flóði var 60 ára gömul. Stendur nú yfir vinna við að meta tjónið fyrir íbúa þar í nágrenninu. Tjónið fólst aðallega í eigum íbúa í nálægri blokk. Hluti af lögnum á Suðurnesjum er eldri en það, um 70 ára, og íbúar spyrja sig hvort þær þoli allar þær jarðhræringar sem orðið hafa á Reykjanesskaganum á undanförnum árum.
„Við erum með reglulegt eftirlit á öllum okkar búnaði,“ segir Svanur. „Starfsmenn okkar ástandsskoða búnaðinn og fylla út gátlista í spjaldtölvu.“ Hægt sé að rekja allar skoðanir vel.
Segist Svanur ekki sífelldar truflanir á vatnsrennsli á veitusvæðinu. Síðast hafi orðið alvarleg bilun í stofnæð í marsmánuði árið 2021. Þá var það ljósleiðarafyrirtæki sem boraði í gegnum stofnlögn í Keflavík.
Einar Friðrik Brynjarsson, deildarstjóri umhverfismála hjá Suðurnesjabæ, segir að sveitarfélagið hafi ekki áhyggjur af lagnakerfinu þó að hluti þess geti verið kominn til ára sinna. „Eftir minni bestu vitund hefur viðhaldsmálum verið sinnt mjög vel af HS veitum um langt skeið,“ segir hann. „Ég tengi alls ekki saman að vatnsþrýstingur falli og gamlar lagnir. Ein helsta ástæða þess að þrýstingur hefur fallið er að lokað hefur verið fyrir vatnið nokkrum sinnum á síðustu árum einmitt vegna viðhalds lagnanna.“
Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar, segir að ábendingar um bilanir komi ekki til bæjarins heldur HS Veitna. Vatn í Reykjanesbæ sé alfarið á höndum HS Veitna sem fari með allt eftirlit, viðhald og nýframkvæmdir. „Við höfum verið í nokkrum samstarfsverkefnum þegar unnið er í nýjum götum eða við (Reykjanesbær) erum að framkvæma eitthvað í kringum fráveitulagnir,“ segir hann.