Vatnafar Reykjavík – Kortlagning

Grein/Linkur:  Kortlagning á vatnafari innan Reykjavíkurborgar

Höfundur:  Veitur

Heimild:

.

Mynd – Goolge map 16.02.2020

.

Október 2020

Kortlagning á vatnafari innan Reykjavíkurborgar

Í tengslum við áætlanir um innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna í Reykjavík fengu Veitur Íslenskar Orkurannsóknir (ÍSOR) til þess að uppfæra vatnafarskort af Reykjavíkurborg. Vatnafarskort eru ákveðin gerð jarðfræðikorta sem lýsa samspili vatns og jarðlaga. Þau sýna t.d. flokkun jarðmyndana í mismunandi lektarflokka eftir því hve vatnsleiðandi svæðin eru, grunnvatnshæðarlínur, legu vatnaskila og staðsetningu borholna.

Markmiðið með uppfærðu vatnafarskorti var að fá betri skilning á grunnvatnshæð innan borgarmarkanna og hæfi berggrunnsins undir borginni til að taka við vatni í miklum rigningum, þegar hætta kann að vera á flóðum. Safnað var saman öllum tiltækum gögnum um grunnvatnshæð innan borgarinnar en fljótt kom í ljós að til þess að fá viðunandi mynd af grunnvatnshæð væri nauðsynlegt að bora nokkrar vöktunarholur. Níu holur voru boraðar í september 2019 vítt og breitt um borgina, frá Breiðholti vestur að Landakoti.

Borinn Hrímnir frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða var fenginn í borverkefnið og vakti hann töluverða athygli þar sem það er ekki á hverjum degi sem borað er innan borgarmarkanna.  Hér má hlusta á viðtal við Fjólu Jóhannesdóttur og Sigrúnu Tómasdóttur í Samfélaginu á Rás1 um verkefnið. Að borun lokinni voru framkvæmdar lektarmælingar í holunum til þess að athuga hve miklu ofanvatni jarðlögin á hverju svæði gætu tekið við. Í kjölfarið var þrýstingsssíritum sem vakta grunnvatnshæð komið fyrir í öllum holunum og munu þeir fylgjast með breytingum á grunnvatnshæð til framtíðar. Þau gögn er hægt að nálgast hjá Veitum.

.

Mynd – Veitur.is 16.02.2021

.

Skýrsla ÍSOR um verkefnið er aðgengileg á vef Veitna. Einnig eru kortagögn sem búin voru til í verkefninu komin á kortavefsjá Veitna, Luksjá, og eru þau spegluð þaðan yfir á Borgarvefsjá Reykjavíkurborgar og má finna þau undir flipanum „Náttúrufar – Vatnafarsrannsóknir“.  Um er að ræða grunnvatnshæðarlínur með 2 m millibili, grunnvatnsvatnaskil, lektarflokka, dýpi á grunnvatn og grófa flokkun á hæfi til írennslis í grunnvatn.

Vonir standa til þess að þessi gögn og lektarkortið geti verið partur af grundvallargögnum við innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna og til að meta fýsileika þeirra á mismunandi stöðum í borginni. Einnig munu gögnin gera skipulags- og framkvæmdaaðilum betur kleift að taka tillit til áhrifa grunnvatns á mismunandi framkvæmdir, til dæmis drengerð eða hönnun á djúpum kjöllurum.

Fleira áhugavert: