Brunavörnum ábótavant – Vatnsúðakerfi, öruggasta vörnin
Grein/Linkur: Er landlægt kæruleysi að víkja?
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Janúar 1995
Er landlægt kæruleysi að víkja?
Brunavörnum er víða ábótavant, bæði á heimilum og á vinnustöðum. Vatnsúðakerfin eru ein öruggasta vörnin.
Svartasta skammdeginu fylgir mikil ljósadýrð. Hver krókur og kimi er upplýstur, hvort sem er utan dyra eða innan. Raforkan úr fallvötnunum gerir okkur þetta kleift.
En þó nóg sé af raflýsingu finnst okkur það ekki fullnægjandi; hvað væru jól ef ekki væru lifandi kertaljós. Þau eru ómissandi hluti hátíðanna.
En þessu fylgir hætta og tæpast höldum við svo jól að ekki verði óhöpp vegna ógætilegrar meðferðar kertaljósa, að ekki sé talað um brennur og flugelda áramóta.
En þetta leiðir hugann að öðru. Hvernig erum við í stakk búin til að mæta eldsvoðum á heimilum og í fyrirtækjum?
Mikill áróður hefur verið rekinn undanfarin ár fyrir bættum eldvörnum. Margir hafa komið sér upp brunaboðum og slökkvitækjum. Í fjölmiðlum hefur verið sýnt hvernig bregðast skal við ef eldur kemur upp; fyrstu viðbrögð geta skipt sköpum.
Ótrúlegt kæruleysi
En þó ástand brunavarna á heimilum sé ekki alls staðar upp á það besta er það í fyrirtækjum og vinnustöðum sem andvaraleysið er víða yfirþyrmandi. Það þarf ekki annað en að rifja upp nokkra hrikalega bruna á undanförnum árum til að það sé ljóst. Það er tæpast ofsagt að heilu byggingarnar hafi fuðrað upp þrátt fyrir ötula baráttu slökkviliðs.
Það virðist víða ríkja sú skoðun að það kemur ekkert fyrir mig. Sama hugarfar og sést greinilega í umferðinni dags daglega.
Árlega sjáum við á eftir gífurlegum fjármunum í gin eldsins. Víðtækt tryggingakerfi sér um að bæta tjónið að talsverðu leyti. En einhver hlýtur að borga. Auðvitað tryggingafélögin, er svarið. En það er alls ekki rétt. Það eru ekki tryggingafélögin. Það er þjóðfélagið í heild; það er almenningur sem borgar brúsann. Allir þurfa á tryggingum að halda, því færri tjón því lægri iðgjöld.
Vatnsúðakerfin ein öruggasta vörnin
Hvað er vatnsúðakerfi? Það er lagnakerfi sem lagt er neðan í loft viðkomandi byggingar. Með ákveðnu millibili eru sérsmíðaðir stútar sem opnast við hækkandi hita og gefa þá frá sér vatnsúða. Eldur og hiti opna þetta öryggiskerfi þó enginn sé á staðnum. Það hefur slökkvistarfið fljótt og örugglega.
En ef satt skal segja hefur það gengið alltof hægt að slík kerfi nái almennri útbreiðslu hérlendis og fái þá viðurkenningu sem þau eiga skilda. Það er nú fyrst, á allra síðustu árum, sem augu manna eru að opnast.
En þessi lagnakerfi hafa mikla sérstöðu miðað við önnur lagnakerfi. Hitakerfi í húsi er ætlað að vera sífellt í gangi til að færa okkur yl. Hérlendis, á okkar norðlægu breiddargráðu, notum við hitakerfið allt árið þegar þau fá hvíld yfir sumarið víðast hvar í nágrannalöndum.
Vatnsúðakerfið hins vegar þarf vonandi aldrei að nota. Það er til staðar eins og öryggisnet fyrir loftfimleikamanninn. Vonandi dettur hann aldrei en ef það gerist heldur hann lífi og limum ef netið er til staðar og í lagi.
Þarna komum við að mikilvægum punkti; kerfi sem aldrei er notað þarf í raun meira eftirlit en kerfi sem er í stöðugri notkun. Vatnsúðakerfið er ekki þægindakerfi eins og hitakerfið. Það er öryggiskerfi sem getur ekki aðeins bjargað miklum verðmætum heldur jafnvel mannslífum.
Þess vegna er ekki nóg að láta leggja þetta öryggiskerfi. Það verður að fylgjast með því með jöfnu millibili af sérfróðum pípulagningameisturum. Kerfið verður að vera tilbúið til orrustu hvenær sem er. Enginn veit hvenær kallið kemur.
Vonandi kemur það aldrei en svo virðist sem sinnuleysi húseigenda og eigenda fyrirtækja sé á undanhaldi og augu þeirra að opnast fyrir nauðsyn eldvarna.
Það er ekki vafi að þar er vatnsúðakerfið það öryggisnet sem treyst verður á í framtíðinni.
Landlægt kæruleysi í eldvarnarmálum verður að víkja.
Eldurinn gerir ekki boð á undan sér.
Hvað skyldu þeir vera margir vinnustaðirnir, þar sem unnið er með eldfim efni, en engar brunavarnir eru.