Nýr Landpítali – Jarðvegsframkvæmdir 2018, myndir
Maí 2018
Á ársfundi Landspítalans á miðvikudaginn var farið yfir stöðu framkvæmda við nýjan Landspítala við Hringbraut. Þá voru sýndar nýjar grafíkmyndir af svæðinu eins og það kemur til með að líta út. Sjúkrahótelið er þegar risið og verður tekið í notkun innan skamms. Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, segir að framkvæmdir gangi vel.
„Við erum á áætlun. Sjúkrahótelið verður opnað á þessu ári, við erum að hefja jarðvegsframkvæmdir vegna meðferðarkjarna, og einnig lokahönnun vegna rannsóknarkjarna. Þannig að það verkefni gengur vel. Og mun verða gríðarlega mikilvægur hlekkur í því að bæta heilbrigðisþjónustu á landinu, bæði að því er varðar öryggi og þjónustu.“
Hvenær munu notendur finna fyrir þessu?
„Strax á þessu ári með sjúkrahóteli sem mun þýða skilvirkari rekstur á legudeildum innanhúss hjá okkur, en mun líka bæta þjónustu, sérstaklega við fólk utan af landi sem er að koma til okkar og þarf að dvelja til þess að sækja heilbrigðisþjónustu. Ekki bara á Landspítalanum heldur víðar. Fólk mun strax finna mun þar á á þessu ári og síðan er það verkefni næstu ára að ljúka þessum stóru og flóknu verkefnum sem Hringbrautarverkefnið í heild er. Og það er frábært að skynja velvilja og stuðning stjórnvalda, sem hefur reyndar alltaf verið til staðar, í þessum verkefnum,“ segir Páll.