Stykkishólmur „Kalt svæði“ – Basísk 87°C hitaveita
Nóvember 1998
Hitinn streymir til Stykkishólms
Fræðslufundurinn og lagnasýningin í Stykkishólmi voru vel sótt. Heimamenn tekið til óspilltra málanna og aðveituæðin er komin til bæjarins.
ÞRÁTT fyrir að jarðhiti finnist víðast hvar á landinu eru samt til kortlögð „köld“ svæði, þar er ekki búist við því að finnist nýtanlegur jarðvarmi. Það sýnir best hvað við eigum orðið framúrskarandi jarðvísindamenn að þeir eru nú að þefa uppi sjóðheitar vatnsæðar á „köldum“ svæðum og nú eru það Hólmarar sem duttu í lukkupottinn.
Þar var borað og leitað, nú streymir 87 heitt vatn upp úr borholu og heimamenn hafa tekið til óspilltra málanna, aðveituæðin er komin til bæjarins. Að vísu er það galli á gjöf Njarðar að vatnið er nokkuð saltmengað, en það er svo víðar hérlendis t.d. á Suðurnesjum.
Þannig verða Hólmarar að fara sömu leiðina og þeir á Svartsengi; hita upp annað og kræsilegra vatn í öflugum varmaskipti og síðan verður því vatni veitt um bæinn og helst inn í hvert hús.
Sýning og ráðstefna
Laugardaginn 7. nóvember sl. var efnt til málþings í Hótel Stykkishólmi, þangað komu lagnamenn að sunnan og kynntu í máli og myndum hvað gera þyrfti til að bæjarbúar gætu nýtt sér sem best gæði heita vatnsins. Það fór ekki á milli mála að fyrir þessu var mikill áhugi, málþingið sóttu um áttatíu manns og er það ótrúlega vel sóttur tæknifundur í ekki stærra samfélagi. Það liggur fyrir að margvíslegar endurbætur þarf að gera á lagnakerfinu í mörgum húsum í Stykkishólmi.
Hitaveitan verður þannig upp byggð að veitukerfið verður hringrásarkefi, lagt verður tvöfalt kerfi í allar götur, því vatni sem dælt verður til húsanna er dælt aftur í varmaskiptinn, sem hitar það upp að nýju og dælir því út á kerfið á nýjan leik, stöðug hringrás.
Þetta hefur í för með sér að ekki má taka neitt vatn úr veitunni, öllu vatni sem fer inn í húsin verður að skila aftur eftir að búið er að kreista úr því varmann svo sem framast er unnt.
Heitt neysluvatn verður því að hita upp í varmaskiptum í hverju húsi. Allt kallar þetta á framkvæmdir og fjárútlát húseigenda, en vonandi verður heita vatnið það hagstætt í verði að sá kostnaður skili sér aftur á ekki allt of löngum tíma.
Þá eru á annað hundrað hús hituð upp með beinni rafhitun í Stykkishólmi og ef eigendur þeirra ætla að nýta sér hitaveituna verður að leggja miðstöðvarkerfi í þau hús.
Hólmarar eru því í svipaðri aðstöðu og Hvolsvellingar fyrir rúmum einum og hálfum áratug, þeir tóku myndarlega á því, lögðu miðstöðvarkefi í öll hús sem voru með beinni rafhitun og hafa ekki séð eftir því. En það voru fleiri en tæknimenn og áhugasamir Hólmarar á hótelinu þennan laugardag.
Allir helstu innflytjendur og framleiðendur lagnaefna og tækja voru mættir til leiks og kynntu heimamönnum hvað þeir hefðu að bjóða og það nýttu þeir síðarnefndu sér ósvikið.
Þarna voru kynnt öll helstu lagnaefnin úr plasti, stáli, ryðfríu stáli og álplasti ásamt allri þeirri tengitækni sem nú loksins fær að ryðja sér til rúms hérlendis, ofnar og ofnaventlar ásamt margskonar stýringum hitakerfa að ógleymdum öllum helstu millihiturum sem fluttir eru til landsins.
Það er ekki vafi á því að þetta hefur verið heimamönnum til mikils fróðleiks og vonandi að öll framkvæmd hitaveitulagna og breytingar lagnakerfa í húsum verði framkvæmd af fagmennsku og eftir ströngustu gæðakröfum.
Sýning og ráðstefna var haldin að frumkvæði heimamanna með bæjarstjórann í broddi fylkingar, en Lagnafélag Íslands sá um skipulagningu og framkvæmd.
Stillitæki og millihitarar verða nauðsynjar í flestum húsum í Stykkishólmi.