Raforkuöflun, sagan – Næstu 7ár, 2018-2025
Grein/Linkur: Nýjar virkjanir fram til 2025
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Apríl 2018
Nýjar virkjanir fram til 2025
Í þessari grein er lýst möguleikum í aukinni raforkuöflun á næstu sjö árum. Og settar fram þrjár mögulegar sviðsmyndir. Hafa ber í huga að sjö ár eru ekki langur tími í samhengi við þróun raforkumarkaða og vikmörkin í svona áætlanagerð eru því veruleg. Mögulega verður það Landsvirkjun sem mun skaffa alla þá nýju raforku sem þarf á viðmiðunartímabilinu. Samsetningin gæti þó orðið öðruvísi og t.a.m. sú að allar nýjar virkjanir næsta áratuginn, umfram hina nýju Búrfellsvirkjun og Þeistareykjavirkjun, yrðu hjá öðrum orkufyrirtækjum en Landsvirkjun. T.a.m. mætti sennilega uppfylla þá raforkuþörf með einni nýrri jarðvarmavirkjun ON eða HS Orku og tveimur nettum vindmyllugörðum. Auk einhverrar eða einhverra smárra vatnsaflsvirkjana.
Raforkuþörfin talin aukast um rúmlega 1,7 TWst
Árið 2017 var raforkuþörfin á Íslandi rúmlega 19 TWst. Árið 2025 er talið að þörfin verði um 9% meiri eða tæplega 21 TWst. Orkuspárnefnd álítur vöxtinn á þessu umrædda tímabili nema um 1,7 TWst (spáin hljóðar nákvæmlega upp á 1.733 GWst). En hvaðan mun þessi 9% aukning raforkuframboðs á Íslandi á næstu sjö árum koma?
Við vitum ekki fyrir víst hvaðan öll þessi orka á að koma. Til að setja hana í eitthvert samhengi, þá jafngilda 1.733 GWst allri þeirri raforku sem unnt væri að framleiða með u.þ.b. tveimur og hálfri Hvammsvirkjun. Sem er virkjunarkostur sem Landsvirkjun hefur lengi haft í undirbúningi í neðri hluta Þjórsar.
Hluti orkunnar mun koma frá Búrfellsvirkjun og Þeistareykjavirkjun
Mjög stór hluti þessarar raforku, sem aukin eftirspurn næstu ára kallar á, mun koma frá tveimur nýjum virkjunum Landsvirkjunar. Þær eru hin nýja Búrfellsvirkjun (100 MW) og Þeistareykjavirkjun (90 MW áfangi). Þær eiga báðar að vera komnar í rekstur á þessu ári (2018). Hvaðan afgangurinn af orkunni mun koma er ekki unnt að fullyrða. Einn möguleiki er að það verði að mestu frá Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár.
Verður Hvammsvirkjun næst?
Í sérblaði Viðskiptablaðsins haustið 2016 var haft eftir forstjóra Landsvirkjunar að sá kostur sem næstur sé „á teikniborðinu sé Hvammsvirkjun í Þjórsá“. Landsvirkjun hefur sem sagt kynnt Hvammsvirkjun sem sinn næsta kost. Ekki er að sjá að Orka náttúrunnar (ON) reisi nýja virkjun í bráð. HS Orka hyggst senn byrja framkvæmdir við 9,9 MW Brúarvirkjun í Tungufljóti í Biskupstungum og er líka að rannsaka allt að 50 MW virkjunarkost í Eldvörpum á Reykjanesi. Þó er óvíst hversu hratt þessar framkvæmdir HS Orku munu ganga. Það lítur því út fyrir að næsta umtalsverða virkjun hér gæti orðið hin nokkuð stóra Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár.
Raforkuþörfin fram til 2025, umfram þær virkjanir sem nú er senn verið að ljúka við, gæti verið nálægt 800 GWst. Hvammsvirkjun á að framleiða 720 GWst og virðist því smellpassa þarna inn í sviðsmyndina. En svo stór virkjun hentar samt ekki sérstaklega vel til að mæta þeirri rólegu aukningu sem vöxturinn í almennri raforkunotkun á Íslandi skapar. Heppilegra gæti verið að virkja hér í smærri skrefum.
Minni virkjun kann að vera fýsilegri
Ef Landsvirkjun vill fara varlega í að auka raforkuframboðið og einbeita sér að minni virkjunarkostum, þá á fyrirtækið ýmsa kosti í jarðvarma. Landsvirkjun gæti horft til þess að virkja í Bjarnarflagi, byrjað á nýrri virkjun við Kröflu eða stækkað Þeistareykjavirkjun ennþá meira. Hver og einn slíkra kosta gæti skilað um 375 GWst í aukið raforkuframboð á ársgrundvelli. Ekki er ljóst hver af þessum virkjanakostum er lengst komin í áætlunum Landsvirkjunar, en þeir eru vel að merkja allir staðsettir á jarðvarmasvæðunum á Norðausturlandi.
Skrokkalda er sennilega óskakostur Landsvirkjunar
Sennilega myndi Landsvirkjun helst vilja hafa Skrokkölduvirkjun sem sinn næsta kost. Sú virkjun á útfalli Hágöngulóns á hálendinu miðju væri fjárhagslega hagkvæm og myndi tengjast inn á risavaxið flutningskerfið á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Og framleiðsla virkjunarinnar, sem áætluð er um 345 GWst, yrði svipuð eða lítið minni en hjá nýrri jarðvarmavirkjun. Sem sagt hófleg og fremur hagkvæm viðbót inn á raforkumarkaðinn.
En Skrokkölduvirkjun er ekki í nýtingarflokki Rammáaætlunar. A.m.k. ekki ennþá. Og það sem meira er; kannski kemst Skrokkölduvirkjun aldrei í nýtingarflokkinn. Nú er nefnilega mikið horft til Miðhálendisþjóðgarðs og nýjar virkjanir á miðhálendinu fara varla vel með þjóðgarði þar. Þarna á a.m.k. veruleg umræða eftir að eiga sér stað á hinum pólítíska vettvangi. Það er því kannski ólíklegt að unnt verði að ljúka við Skrokkölduvirkjun t.a.m. fyrir 2025. Og kannski verður þessi hálendisvirkjun aldrei reist.
Annar óskakostur er sennilega Blönduveituvirkjun
Annar hóflega stór virkjunarmöguleiki Landsvirkjunar er Blönduveituvirkjun. Þessi kostur er í reynd þrjár virkjanir, sem myndu að öllum líkindum framleiða tæplega 200 GWst. Þessi virkjunarkostur er nú þegar í nýtingarflokki Rammaáætlunar.
Gallinn er bara sá að meðan Landsnet hefur ekki styrkt flutningskerfið frá Blöndusvæðinu er ósennilegt að raforka frá Blönduveituvirkjun komist til notenda. Þess vegna þarf Landsvirkjun líklega, sem næsta verkefni, annað hvort að ráðast í nýja jarðvarmavirkjun eða að taka stóra skrefið og reisa Hvammsvirkjun. Á töflunni hér til hliðar má sjá hvernig þessar sviðsmyndir gætu litið út. Þar sem annars vegar er gert ráð fyrir Hvammsvirkjun en hins vegar gert ráð fyrir þremur öðrum virkjunum. Í reynd verður hin raunverulega sviðsmynd sennilega ólík þessum báðum.
Lendingin gæti orðið um 50 MW ný jarðvarmavirkjun
Að svo stöddu virðast, eins og áður sagði, sem hvorki Blönduveituvirkjun né Skrokkölduvirkjun séu innan seilingar. Og vegna þess hversu Hvammsvirkjun er stór, er eðlilegt að Landsvirkjun vilji bíða eitthvað með þá virkjun. Og t.a.m. fyrst sjá hvernig ganga mun að endursemja við Norðurál um raforkuviðskiptin þar (þar sem stór samningur losnar 2023). Þess vegna virðist sennilegt að næsta virkjun Landsvirkjunar verði minni virkjun en Hvammsvirkjun. Og þá væri kannski nærtækast að það yrði u.þ.b. 50 MW jarðvarmavirkjun.
Flöskuhálsar í flutningskerfi Landsnets valda vanda
Það kann að vísu að tefja fyrir slíkum áformum um nýja jarðhitavirkjun, að töluvert meiri rannsóknir þurfa sennilega að fara fram áður en framkvæmdir gætu hafist á jarðvarmasvæðum Landsvirkjunar. Að auki eru allar svona áætlanir mjög háðar uppbyggingu Landsnets á nýjum háspennulínum. Í dag eru takmarkaðir möguleikar á að flytja raforku frá nýjum virkjunum milli sumra landshluta vegna flöskuhálsa í flutningskerfinu.
Það virðist reyndar vera í forgangi hjá Landsneti að styrkja flutningsgetu milli NA-lands og Eyjafjarðarsvæðisins. Og þess vegna er töluvert meiri nýting jarðvarma á NA-landi e.t.v. möguleg innan ekki alltof langs tíma. Sú hugmynd að næsta virkjun Landsvirkjunar verði um 50 MW ný jarðvarmavirkjun ætti því að geta gengið eftir innan ekki of langs tíma. Svo sem ný virkjun í Kröflu.
Hvar verður mest þörf fyrir orkuna?
Mögulega yrði það samt fremur HS Orka sem myndi fyrst reisa slíka virkjun. Þ.e. að næsta jarðvarmavirkjun verði á Reykjanesi og þá kannski helst í Eldvörpum. Orka náttúrunnar (Orkuveita Reykjavíkur) virðist aftur á móti engin áform hafa um nýja virkjun á næstu árum.
Í allri þessari umræðu er lykilspurning eftirfarandi: Hvar verður mest þörf fyrir þá raforku sem talið er að aukin eftirspurn hér kalli á á þessu umrædda tímabili fram til 2025? Og hvaðan verður unnt að flytja þá orku? Þessi álitamál eru efni í sérstaka umfjöllun og verður ekki nánar gerð skil hér.
Ýmsar sviðsmyndir mögulegar
Hér fyrir neðan gefur að líta sviðsmynd um nýtt raforkuframboð fram til 2025 sem greinarhöfundur álítur skynsamlega og hvað raunhæfasta. Augljóslega verður umtalsverðum hluta af aukinni raforkuþörf næstu misserin og árin mætt með nýju Búrfellsvirkjuninni og jarðhitavirkjuninni á Þeistareykjum. Hvoru tveggja er virkjanir í eigu Landsvirkjunar.
Samkvæmt spá Orkuspárnefndar þarf að virkja töluvert meira (að því gefnu að hér loki ekki stóriðja). Þeirri orkuþörf mætti mæta með einni jarðvarmavirkjun, sem mögulega yrði á Reykjanesskaga (og þá er virkjun í Eldvörpum kannski líklegust). Að auki mætti með hagkvæmum hætti uppfylla raforkuþörfina með u.þ.b. 25 vindmyllum. Og svo er líka líklegt að hér rísi einhver eða jafnvel tvær til þrjár litlar vatnsaflsvirkjanir (undir 10 MW) á komandi árum. Þessari sviðsmynd er lýst á töflunni hér til hliðar.
Sæstrengur myndi kalla á ennþá fleiri virkjanir
Eins og komið hefur fram, þá er hér stuðst við viðmiðunarárið 2025 og spá Orkuspárnefndar um raforkuþörfina þá. En svo er líka áhugavert að nú kynnir breskt fyrirtæki að einmitt árið 2025 verði 1.200 MW sæstrengur kominn í gagnið milli Bretlands og Íslands. Og þá þyrfti væntanlega ennþá meira af nýjum virkjunum hér, til að uppfylla bæði vaxandi raforkunotkun innanlands og raforkuþörf sæstrengsins. Um það hvaða virkjanir myndi þurfa fyrir slíkan sæstreng milli Íslands og Bretlands verður fjallað síðar.