Sumarhús – Nýtum orkuna betur !
Hagnýtar upplýsingar til eigenda sumarhúsa
Okkur hjá Orkuveitu Reykjavíkur er umhugað um að viðskiptavinir okkar nýti vörur okkar sem best og er heita vatnið ein af þeim auðlindum. Meðfylgjandi eru nokkur hollráð sem geta komið sér vel þegar kemur að því að nýta heita vatnið í bústaðnum sem best.
Hvað fæ ég í raun og veru mikið magn af heitu vatni í bústaðinn?
Grunnmagn heits vatns í bústaðinn er þrír mínútulítrar. Hemill er þó ávallt stilltur einn mínútulítra umfram keypt magn. Það þýðir að þú ert að fá um 5.760 lítra á sólarhring. Gert er ráð fyrir að 60 m2 hús sé 200 m3 og noti um 1,2 mínútulítra í upphitun á sólarhring sem þýðir að við eigum eftir um 4,500 tonn af vatni í neyslu á sólarhring. Þetta magn er á við um 35 meðal baðkör (130 lítra).
Affallsvatn
Eftir að búið er að nýta heita vatnið í upphitun á bústaðnum og í almenna neyslu rennur það út um affallið venjulega um 30°C heitt. Þetta er töluvert magn af vatni sem rennur ofan í jörðu sem hægt væri að nýta betur.
Algengast er að nýta þetta affall í heita pottinn, ef hann er til staðar. Ef það er gert þá erum við komin með um 30°C heitt vatn í pottinn og þurfum því ekki mikið meira til viðbótar til að skerpa á hitanum þannig að við náum honum upp í 38-40°C heitum. Með þessari aðferð bæði nýtum við vatnið betur og höfum því meira til skiptana í daglega neyslu vatnsins eins og t.d. í sturtuna eða í eldhúsvaskinn.
Slaufuloki
Slaufuloki er settur á heitavatnsgrindina í bústaðnum. Hlutverk hans er að viðhalda þrýstingnum á innanhúskerfinu þannig að þú ættir að fá kröftugara rennsli en ella miðað við það vatnsmagn sem þú ert að kaupa. Slaufuloki er einnig nauðsynlegur til að viðhalda þrýstingnum á kerfinu svo heita vatnið renni ekki ónotað í gegnum kerfið og út.
Hvernig get ég mælt það magn sem ég er að fá af heitu vatni í húsið?
Ef rétt stilltur slaufuloki er á kerfinu og kranavatnið er notað beint eins og er algengast þ.e. ekki sé forhitari á því þá er hægt að mæla rennslið á eftirfarandi máta.
Mæla má rennslið t.d. í eldhúskrananum, láta renna í ílát í eina mínútu og mæla hvort það magn passar við það magn sem keypt er fyrir húsið. Gæta þarf að því að sía í viðkomandi krana sé hrein þegar þetta er gert og hvergi renni annars staðar vatn á meðan mæling fer fram eins og t.d. inná miðstöð eða í heita pottinn.
Orkan mín
Öllum viðskiptavinum Orkuveitu Reykjavíkur býðst að skrá sig á viðskiptamannasíðu okkar sem nefnist Orkan mín. Þar getur þú skoðað notkun þína og borið saman við sambærileg heimili á Íslandi. Einnig er þar að finna ýmis hollráð varðandi bætta orkunýtingu og eins er hægt að nálgast eyðublöð vegna samskipti við Orkuveituna. Við hvetjum þig til að skrá þig og fylgjast með á síðunni.