Rotþrær – Hreinsistöðvar
Grein/Linkur: Rotþró eða hreinsistöð?
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Júní 2006
Rotþró eða hreinsistöð?
Eftir því sem sumarhúsabyggð eykst fjölgar þeim íveruhúsum sem ekki hafa möguleika á tengingu við fráveitukerfi sveitarfélaga. Jafnframt aukast kröfur frá samfélaginu um að engin mengun verði frá skólplögnum frá þessum dreifðu byggðum. Mikið hefur áunnist en þó er ástandið aldrei þannig að hægt sé að segja að allt sé í himnalagi.
En hvað kemur í staðinn fyrir fráveitukerfi sveitarfélaga? Lausnin hefur nær alfarið verið rotþrær og siturlagnir. Þá er öllu skólpi frá viðkomandi húsi hleypt út í tank sem er með minnst tveimur hólfum. Í fyrri tanknum falla fastir hlutir til botns og brotna niður að miklu leyti lífrænt, en eigi að síður verður að hreinsa svokallaða seyru úr fyrra hólfinu með vissu millibili. Í seinna hólfinu, eða síðasta, þau geta verið fleiri en tvö, rennur vökvi sem enn á eftir að umbreytast til að ekki verði frá honum mengun, sú umbreyting gerist í svokallaðri siturlögn. Mikilvægi siturlagnarinnar er ekki minni en rotþróarinnar, en því miður virðist sú vitneskja ekki alltaf skila sér, sé siturlögnin í ólagi kemur rotþróin ekki nema að hálfu gagni.
Í heimsókn til þýska fyrirtækisins Kessel bar fyrir augu nýja gerð af rotþró sem sannarlega vakti athygli. Spurning er hvort þessa gerð á að nefna rotþró eða hreinsistöð. Mikilvægasti munur á þessari stöð Kessel og hefðbundinni rotþró er að niðurbrotið er nær algjört í þrónni, sem er í tveimur hólfum. Vökvinn sem frá stöðinni kemur er svo hreinn að siturlögn er óþörf. Aðeins þarf að sjá fyrir að vökvinn, sem er nær hreint vatn, geti fengið óhindraða framrás. Frá því er engin mengunarhætta, þó tæpast geti það talist drykkjarhæft.
Víða um lönd þar sem er vatnsskortur, er hægt að nota það til að vökva gróður og garða svo dæmi sé tekið.
En hvað er sérstakt við hreinsistöð eða rotþró Kessel sem gerir hana svo miklu fremri hefðbundnum rotþróm? Við Kessel hreinsistöðina er tengd loftdæla sem hefur tvennan tilgang. Í fyrsta lagi þrýstir hún lofti inn í það sem í tankinum er og örvar þannig eðlilegar bakteríugróður, sem tekur til óspilltra málanna við lífrænt niðurbrot. Rétt að benda á að ekkert annað er sett í tankana, engin efni til örvunar niðurbroti, meðfylgjandi bakteríur sjá um það. Í öðru lagi sér loftþrýstingur um að færa skólpið milli þróa eftir því sem niðurbroti fleygir fram. Þetta gerist alfarið sjálfvirkt og þegar vökvinn í seinna hólfinu er orðinn hreinn er honum þrýst út um frárennslisrör og er þá skaðlaus með öllu.
Þetta sést betur á meðfylgjandi myndum. Á efri myndinni má sjá að ekkert rennur inn í tankana (frá vinstri). Hinsvegar færist vökvi frá öðru hólfi aftur inn í það fyrra til frekara niðurbrots. En um leið rennur hreini og blái vökvinn í seinna hólfi sína leið út úr hreinsistöðinni. Þetta er allt gert með loftþrýstingi, í tönkunum er enginn vélrænn búnaður, aðeins ein loftþrýstidæla innanhúss.
Á neðri myndinni má sjá stöðina í heild, dælubúnað innanhúss, tankana tvo í hreinsistöðinni og flæðibúnað í þeim og til hægri er lokatankur sem tekur við afrennslisvatninu. Sá tankur er ekki alltaf nauðsynlegur, þetta vatn er algjörlega mengunarlaust og því má beina á margar gagnlegar brautir.