Minjar – Mega ekki glatast
Grein/Linkur: Minjar mega ekki glatast
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Júní 2007
Minjar mega ekki glatast
Það var því ekki lítið stórvirki þegar ráðist var í að byggja fyrstu verkamannabústaðina í Reykjavík fyrir meira en sjö áratugum, hvorki meira né minna en 70 íbúðir. Þessar byggingar standa enn við Hringbraut, vestan Elliheimilisins Grundar og við nærliggjandi götur. Sá sem þar var fremstur meðal jafningja og átti mestan þátt í að þessi hús risu var Héðinn Valdimarsson formaður Verkamannfélagsins Dagsbrúnar og bæjarfulltrúi, við Hringbraut stendur stytta hans.
Þessar íbúðir voru reistar af stórhug og framsýni. Ákveðið var að fyrir þessar byggingar skyldu vera tvær kyndistöðvar sem sæju öllum íbúum fyrir upphitun og heitu vatni til baða og þvotta. Önnur kyndistöðin var sett í jarðhús við Hofsvallagötu, enn stendur myndarlegur reykháfur hennar eins og minnismerki um glæsilega framkvæmd.
En það eru færri sem vita að enn er hægt að fara niður í gamla ketilhúsið þar sem eldar loguðu í kötlum og hituðu vatnið, þá var enn nokkur tími þar til hitaveita var lögð í Reykjavík innan Hringbrautar. Þarna niðri eru þeir ennþá katlarnir, kynditækin, dælurnar, ventlarnir og lagnirnar, að mestu óskemmd og vitna um handbragð pípulagningamanna fyrir meira en sjö áratugum, handbragðið þegar sú stétt hafði bæði logsuðu og rafsuðu á valdi sínu.
Nýlátinn er sá maður sem hafði mikinn áhuga á að þessar minjar mundu ekki verða eyðingaröflunum að bráð en það var útvarpsþulurinn vinsæli, fræðimaðurinn Pétur Pétursson. En honum auðnaðist ekki að sjá þessa hugsjón sína verða að veruleika. Eftir nokkur ár eða áratug í mesta lagi verður ekkert eftir nema samanfallnir katlar, ryðhrúgur sem hafa ekkert minninga- eða menningargildi.
En það er ekki of seint að bjarga þessum menningarverðmætum. Þær verða ekki hreyfðar úr stað enda fullur vilji hjá Húsfélagi alþýðu, sem er húsfélag þeirra sem búa
í þessum íbúðum í dag, að þær séu varðveittar í sínu rétta umhverfi. Það þarf að hefja hreinsun sem fyrst, koma upp hæfilegri loftræsinu til að raki og saggi geti ekki unnið áfram sitt skemmdaverk. Aðkomu þarf að endurbyggja, allt kostar þetta peninga en þó umfram allt; frumkvæði.
Þarna er verk að vinna. Árbæjarsafn hefur tekið að sér að varðveita lagnaminjar. Þetta er verkefni fyrir hið fornfræga og öfluga félag, Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík og að sjálfsögðu eiga lagnamenn að koma að þessu, fjölmargir þeirra eru félagar í Samtökum iðnaðarins og ekki er vafi á að þar er kraftur sem rétt er að leysa úr læðingi. Fleiri félög lagnamanna eru til sem hljóta að vilja stuðla að því að handverki fyrirrennaranna verði bjargað frá glötun.
Vilji er allt sem þarf.