Tansanía Afríku – Þróunarsamvinnustofnunar Íslands skrifað undir samning um jarðhitaverkefni
Desember2015
Engilbert Guðmundsson framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands skrifaði í síðustu viku undir samstarfssamning við ríkisstjórn Tansaníu, ráðuneyti orkumála, vegna jarðhitaverkefnis ÞSSÍ og Norræna þróunarsjóðsins.
Að sögn Davíðs Bjarnasonar verkefnastjóra ÞSSÍ í jarðhitamálum verður verkefnið unnið í samvinnu við Tanzania Geothermal Development Company (TGDC) sem er alfarið í eigu ríkisins undir ráðuneyti orkumála. „Verkefnið felur í sér aðstoð við Tansaníu um öflun frekari þekkingar á jarðhitasvæðum, með það að markmiði að skilgreina nýtingarmöguleika og mögulegar tilraunaboranir,“ segir Davíð.
Í verkefninu verður stutt við aðstoð við jarðhitaleit á þremur svæðum, Luhoi, Ngozi og Kiejo-Mbaka. Að sögn Davíðs felst stór hluti verkefnisins í því að byggja upp þekkingu og getu innlendra sérfræðinga við jarðhitarannsóknir og miðað við að sérfræðingar þeirra verði í framhaldinu færir um að leiða áfram jarðhitaþróun í landinu. Þá er einnig gert ráð fyrir annarri þjálfun svo sem við verkefnastjórnun í jarðhitaverkefnum og jarðhitaboranir.
Nokkrar alþjóðastofnanir eru nú í samstarfi við Tansaníu í tengslum við jarðhitaþróun og má þar nefna Afríska þróunarbankann, Alþjóðabankann og Umhverfisstofnun SÞ. Davíð segir að haft hafi verið samráð og samstarf við þessar stofnanir við undirbúning verkefnisins.
Fulltrúar ÞSSÍ tóku meðal annars þátt í fundi Alþjóðabankans um jarðhitamál sem haldinn var í Dar es Salam í síðustu viku og kynntu þar samstarfsverkefnið. Myndin er tekin við undirritun samningsins.