Geitdalsárvirkjunar 10MW – Hætt við miðlunarlón

Grein/Linkur:  Hætta við 3 ferkílómetra miðlunarlón Geitdalsárvirkjunar

Höfundur: Rúnar Snær Reynisson RUV

Heimild: 

.

Kort af upphaflegri hönnun Geitdalsárvirkjunar. Miðlunarlónið sem hætt hefur verið við sést neðst í hægra horni. Geitdalsárvirkjun – RÚV

.

Nóvember 2024

Hætta við 3 ferkílómetra miðlunarlón Geitdalsárvirkjunar

Geitdalsárvirkjun á Héraði gæti farið að framleiða tæp 10MW af raforku árið 2029. Umhverfismat hefur leitt til þess að framkvæmdin yrði umfangsminni en til stóð. Arctic Hydro hefur hætt við bæði miðlunarlónið og viðbótarveitu úr hliðará.

Arctic Hydro hefur breytt áformum sínum um Geitdalsárvirkjun inn af Skriðdal á Héraði. Fyrirtækið er hætt við að safna í miðlunarlón austan við Hornbrynju, meðal annars til að minnka umhverfisáhrif. Fyrir vikið minnkar rafmagnsframleiðsla um næstum fjórðung.

Umhverfismat vegna Geitdalsárvirkjunar er á lokametrunum. Öllum rannsóknum er lokið en í ferlinu eru umhverfisáhrif metin og fyrirhuguð framkvæmd sniðin til út frá áhrifum á umhverfi, hagkvæmni og fleiru.

Upphaflega stóð til að stífla yrði reist við Leirudalsá, kílómetra löng og mest 18 metra há. Við hana hefði safnast miðlunarlón, 3 ferkílómetrar og vatnsforðinn allt að 30 gígalítrar.

„Of mikil umhverfisáhrif fyrir lítinn ávinning“

„Við byrjuðum upphaflega að skoða miðlun inn á Leirudal. Hún var klippt af. Við vorum að skoða hliðaveitu frá einni þverá til að ná í meira vatn. Hún var klippt af. Við höldum sama afli 9,9 MW en framleiðslugetan fer úr 72 gígavattstundum í 56. Þessi miðlun og þessi hliðarveita, þetta svaraði ekki kostnaði. Var ekki hagkvæmt og verkfræðilega erfitt. Of mikil umhverfisáhrif fyrir lítinn ávinning. Þannig að þetta er niðurstaðan úr mati á umhverfisáhrifum hjá okkur,“ segir Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro.

Inntakslónið yrði látið duga. Við það yrði 300 metra löng stífla, allt að 32 metra há og vatnsforðinn 3 gígalítrar.

Búið að semja við alla landeigendur

Múlaþing og ríkið eiga landið og var samið um að í upphafi fengju þau samanlagt 3% af orkusölu sem greiðslu fyrir landnot og vatnsréttindi. Á 30 árum myndi sú greiðsla hækka í 10% af öllum orkusölutekjum. Samið hefur verið við alla landeigendur um aðkomuveg, jarðstrengi fyrir orkuna niður í tengivirki Landsnets á Hryggstekk í Skriðdal. Framkvæmdakostnaður við Geitdalsárvirkjun er nú áætlaður 5-6 milljarðar.

Þegar umhverfismatið er klárt býðst að gera athugasemdir og að því ferli loknu gefur Skipulagsstofnun álit sitt á áformunum. Múlaþing ákveður svo hvort framkvæmdaleyfi verði gefið út.

„Við erum að vonast til að vera komin með öll leyfi 2026. En þegar kemur að íslenskri stjórnsýslu þá veit maður aldrei. Þannig að kannski hugsanlega 2027 gætum við byrjað. Framkvæmdir tækju þá þrjú sumur og hún gæti verið að fara í gang lok árs 2029,“ segir Skírnir.

Fleira áhugavert: