Forgangsorka vestfjörðum – Samið, Olíabruna hætt

Grein/Linkur: Tókst að semja um forgangsorku og olíubruna hætt

Höfundur: Sunna Ósk Logadóttir, Heimildinni

Heimild: 

.

Loksins árangur Fögnuður braust út í sumar er heitt vatn í vinnanlegu magni fannst í Tungudal. Fundurinn gæti gjörbreytt aðstæðum til húshitunar á svæðinu. Mynd: Orkubú Vestfjarða

.

September 2024

Tókst að semja um forgangsorku og olíubruna hætt

Samn­ing­ar um for­gangs­orku sem náðst hafa milli Orku­bús Vest­fjarða og Lands­virkj­un­ar þýða að engri olíu eða sára­lít­illi þarf leng­ur að brenna til að kynda hita­veit­ur á Vest­fjörð­um. Fyr­ir ári síð­an voru slík­ir samn­ing­ar sagð­ir ómögu­leg­ir. For­gangs­orka væri of dýr og auk þess ekki fá­an­leg. En stór­bruni olíu í ár og fund­ur á heitu vatni hef­ur breytt mynd­inni

Það sem af er ári hefur þurft að brenna 3,6 milljónum lítra af olíu til kyndingar á fjarvarmaveitum Orkubús Vestfjarða. Það er ekki aðeins dýrt (kostaði 550 milljónir króna) heldur mengandi. Og verður á næstu árum óþarfi eftir að Orkubúið samdi nýverið við Landsvirkjun um kaup á forgangsorku til reksturs veitnanna í stað skerðanlegrar orku áður.

Fyrir ári síðan sögðu forsvarsmenn þessara tveggja ríkisfyrirtækja slíka samninga ómögulega. Orkubússtjórinn sagði forgangsorkuna svo dýra að rekstri fjarvarmaveitnanna yrði sjálfhætt ef hana þyrfti að kaupa. Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar sagði að sjálfsagt hefði Orkubúið getað samið um forgangsorku áður fyrr en orkuskortur var sagður gera það að verkum að forgangsorkan var uppseld.

„Samningurinn skapar þannig þrýsting á að fundin verði varanleg lausn“ – Elías Jónatansson, Orkubússtjóri

Allt virðist nú breytt því í vikunni barst tilkynning þess efnis að „tímamótasamningur“ hefði verið undirritaður milli ríkisfyrirtækjanna tveggja um raforku til næstu fjögurra ára. „Með þessum nýja samningi verður unnt að hætta að brenna olíu til kyndingar þegar skerðingar eru“, stóð í tilkynningunni.

Olíubruninn mikli á Vestfjörðum árið 2022, er brenna þurfti yfir tveimur milljónum lítra af olíu vegna þess að Landsvirkjun skerti afhendingu á rafmagni til Orkubúsins, vakti mikla athygli enda úr takti við áform stjórnvalda um að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis. Í fyrra kom ekki til skerðinga til Orkubúsins og brúnin tók að lyftast á forsvarsmönnum fyrirtækisins. En, svo brast á með umfangsmiklum skerðingum í ár og við það var ekki hægt að una.

„Orkubúið átti frumkvæði að þessum samningaviðræðum,“ segir Þóra Arnórsdóttir, forstöðumaður samskipta hjá Landsvirkjun. Hún segir möguleika á hitaveitu eftir jarðhitafund í Tungudal í sumar vera „leikbreyti“ og að á þeim forsendum hafi verið hægt að setja upp fjögurra ára umbreytingaáætlun. Forgangsorka sé vissulega töluvert dýrari en skerðanlega orkan en Orkubúið meti það sem svo að kaup á henni borgi sig til lengri tíma.

Orka skert í 104 sólarhringa

„Það sem er nýtt í þessum samningi er að um er að ræða heimild til handa Landsvirkjun til að skerða afl til fjarvarmaveitna að hámarki fjóra sólarhringa á ári, en til samanburðar þá stóð orkuskerðingin í 104 sólarhringa í vetur,“ segir Elías Jónatansson Orkubússtjóri.

Þegar skerða þurfti afhendingu árið 2022 þýddi það olíubrennslu sem nam 2,1 milljón lítra, rifjar hann upp. Á árinu 2023 var ekki um að ræða skerðingu frá Landsvirkjun. Í ár stóð skerðingin hins vegar í 104 sólarhringa sem þýddi að brenna þurfti 3,6 milljónum lítra af olíu. Við það magn hafa síðan bæst 250 þúsund  lítrar, en það er ekki vegna skerðinga hjá Landsvirkjun heldur vegna þess að Vesturlína, eina flutningslína rafmagns inn á Vestfirði, hefur verið tekin út vegna fyrirbyggjandi viðhalds.

„Þegar sú skerðing raungerðist varð öllum ljóst að ekki yrði búið við óbreytta samninga um skerðanlega orku annað hvert ár eða jafnvel oftar, en jafnframt var ljóst að rekstur veitnanna þyldi ekki fullt verð á forgangsorku nema til kæmu miklar viðbótarniðurgreiðslur frá ríkinu,“ segir Elías.

Finna varð einhverja lausn og niðurstaðan af samningaviðræðunum liggi nú yfir. Skerðingar séu samkvæmt samningnum aðeins heimilar í þeim tilfellum að upp komi aflskortur hjá Landsvirkjun. Samningurinn sé með þeim hætti óháður því magni raforku sem Landsvirkjun er með „á lager“ í lónum sínum en er háður því að hún eigi nægilegt afl til að sinna viðskiptavinum á forgangsorku.

„Við getum orðað það þannig að við séum á forgangsorku en þurfum í jaðartilfellum að sætta okkur við aflskerðingu, væntanlega í mjög skamman tíma í senn og heildarskerðingu mest í fjóra sólarhringa,“ bætir Elías við til frekari útskýringa.

Veiturnar verði sjálfbærar í rekstri

Rétt sé að Orkubúið greiði hærra verð fyrir orku samkvæmt hinum nýja samningi en áður en það sé þó talsvert lægra en fyrir forgangsorku sem væri án heimildar til aflskerðinga.

Verðið nægir ekki til að rafkyntu hitaveiturnar verði sjálfbærar í rekstri, en hins vegar þýðir hann að það hefur dregið mjög úr mögulegu tapi að sögn Elíasar. „Samningurinn skapar þannig þrýsting á að fundin verði varanleg lausn.“

Hann segir að áfram verði unnið að því að gera rafkyntu hitaveiturnar sjálfbærar í rekstri. „Sú framkvæmd sem er mikilvægust í því efni er virkjun þess jarðhita í Tungudal á Ísafirði sem fannst í sumar.“

Orkusamningnum við Landsvirkjun sé ætlað að brúa bilið þar til því verkefni lýkur. Þá mun rafafls- og raforkuþörf veitnanna vonandi hafa dregist saman um 2/3 og veiturnar verða orðnar sjálfbærar í rekstri.

Fleira áhugavert: