Baðlón – Verða 26 lón

Grein/Linkur: Tvöfalt fleiri baðlón í bígerð

Höfundur: Steindór Grétar Jónsson, Heimildinni

Heimild: 

.

.

Júlí 2024

Tvöfalt fleiri baðlón í bígerð

Sex­tán baðlón eru á teikni­borð­inu um land allt en ell­efu eru fyr­ir í rekstri. Heim­ild­in kort­legg­ur hvaða at­hafna­menn standa að nýj­asta æð­inu í ferða­manna­brans­an­um.

Um síðustu mánaðamót opnuðu Hálendisböðin í Kerlingarfjöllum. Bláa lónið rekur þetta nýjasta baðlón Íslands en með opnun þess eru baðlón landsins orðin ellefu talsins. Eru þar fyrir utan ótaldar almenningssundlaugar, einkasundlaugar, náttúrulaugar og minni svæði með baðaðstöðu.

Þrátt fyrir allan þennan fjölda eru nú hátt á annan tug baðlóna ýmist á teikniborðinu eða á framkvæmdastigi víðs vegar um landið.

Bláa lónið hf. er umsvifamest á markaðnum. Ekki aðeins rekur fyrirtækið samnefnda lónið við Svartsengi, sem hefur reglulega þurft að loka undanfarið ár vegna jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesskaga, heldur kemur það að rekstri margra annarra baðlóna um land allt. Fyrirtækið er hluteigandi að GeoSea á Húsavík, Mývatn Earth Lagoon, Vök Baths við Egilsstaði og Fontana Laugarvatni.

Þá rekur fyrirtækið Hálendisböðin nýopnuðu í Kerlingarfjöllun og stefnir bæði að opnun Fjallabaðanna í Þjórsárdal, eða „The Mountain Retreat“, árið 2027, með 42 herbergja hóteli, og nýs baðlóns við Hoffellslón með allt að 100 herbergja gistingu á svæðinu öllu. Önnur baðlón sem þegar eru í rekstri eru Sky Lagoon á Kársnesi, Secret Lagoon við Flúðir, Forest Lagoon við Akureyri, Krauma við Deildartunguhver og Hvammsvík Hot Springs sem eru í eigu fyrrum flugmógúlsins Skúla Mogensen.

„Eitt af því einstaka sem við höfum er heita vatnið,“ segir Halldór Kolbeins, formaður Félags leiðsögumanna. „Upplifun gesta sem fara í þessi lón hefur verið jákvæð í þeim ferðum sem ég hef verið í. Ég held að þetta sé kannski eins og norðurljósin, einstök vara sem við höfum og kemur frá náttúrunni.“

„Eitt af því einstaka sem við höfum er heita vatnið“

Halldór segir að það muni taka ákveðinn tíma að markaðssetja lónin svo að ferðamenn komi gagngert þeirra vegna. „Bláa lónið var eitt af því sem við gátum auglýst þar til um aldamótin þegar við fórum að auglýsa norðurljósin og byggja upp ferðaþjónustuna og taka hana á næsta stig sem tókst rétt fyrir 2020 eða svo. Fólk sem fer í Bláa lónið prufar svo að fara í Sky Lagoon sem er öðruvísi eða Hvammsvík sem er mjög lítið lón og ekki í þessum massatúrisma.“

Heitapottsmenningin ekki náð til ferðamanna

Hann segir ferðamenn upplifa að gæðin séu í samræmi við verð í þessum lónum. „Við getum aldrei orðið ódýrasta land í Evrópu, það er bara svoleiðis, en við getum veitt bestu þjónustuna því við höfum hugarfar og metnað til að gera hlutina vel og bjóða gestum okkar heim með reisn. Þó að við verðleggjum okkur hátt er fólk ánægt. Það fólk sem kemur til Íslands þarf kannski að safna lengur fyrir því en ég held að það komi hamingjusamt heim.“

„Þó að við verðleggjum okkur hátt er fólk ánægt“

Halldór segir að vel staðsett baðlón geti styrkt ferðaþjónustuna á stöðum sem ekki eru jafn fjölfarnir. „Við eigum einstaka náttúru sem býr til störf á landinu og fyrir fólkið á landsbyggðinni. Þetta er jákvæð byggðaþróun ef hún er gerð rétt og virkar á ársgrundvelli.“

Aðspurður um almenningssundlaugarnar segir Halldór að ferðamenn virðist hafa minni áhuga á þeim. „Það er eins og sú menning, heitapottsmenningin, hafi ekki náð til ferðamanna,“ segir hann.

Halldór segist skilja að fyrir íslenskan almenning geti það virst einhæft að allir þessir athafnamenn hafi fengið sömu hugmyndina, að byggja baðlón. „En fyrir ferðamennina þá vilja þeir oft fara aftur daginn eftir.“

Líkamsræktarfrömuður, ráðherra og leiðtogi S-hópsins

Á bak við önnur fyrirhuguð baðlón víða um land standa margir þekktir aðilar. World Class með Björn Leifsson í fararbroddi stefnir á að opna 120 herbergja hótel, baðlón með sjóböðum og líkamsrækt á Fitjum í Njarðvík árið 2026. Áætlaður kostnaður við verkefnið er 10–12 milljarðar króna, um 100 manns munu starfa við verkefnið eftir opnun og hófust framkvæmdir í fyrra með niðurrifi á lóðinni.

Annað fyrirhugað baðlón á Reykjanesi hefur fengið úthlutaðri lóð við Garðskaga og kallast það Mermaid Geot­hermal Seaweed Spa. Að því standa Bogi Jónsson og fyrrverandi félagsmálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, Árni Magnússon. Stefnt er að 1,5 milljarða króna fjárfestingu til að byggja upp 45 starfsmanna heilsulind með þaraböðum, öðrum laugum og veitingastað með asísku ívafi.

Ólafur Ólafsson, gjarnan kenndur við Samskip, stefnir á meiri háttar uppbyggingu á Brákarey í Borgarnesi þar sem byggja á miðbæjartorg með atvinnu- og íbúðahúsnæði, hóteli og baðlóni. Ólafur fór fyrir S-hópnum svokallaða sem keypti Búnaðarbankann í einkavæðingu hans við upphaf aldarinnar. Var hann meirihlutaeigandi í Kaupþingi fyrir bankahrun, var sakfelldur í Al-Thani-málinu og dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi.

Gullni hringurinn fyllist af baðlónum

Í Bláskógabyggð eru tvö baðlón á teikniborðinu. Framkvæmdir eru hafnar við Árböðin, tveggja milljarða króna baðlón í Laugarási skammt frá dýragarðinum Slakka. Þá hefur verið veitt heimild í deiluskipulagi vegna baðlóns og 200 herbergja hótels á landi Efri-Reykja við Brúará en framkvæmdir eru ekki hafnar.

Ásta Stefánsdóttir

Ásta StefánsdóttirSveitarstjóri í Bláskógabyggð segir Gullna hringinn laða að ferðamenn en að öll sveitarfélög sækist eftir að halda ferðamönnum lengur.

Ferðamenn hefur ekki vantað á svæðið í ferðamennskubylgju undanfarinna ára. „Bláskógabyggð er náttúrlega með Gullfoss, Geysi og Þingvelli,“ segir Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar. „Langflestir ferðamenn koma í sveitarfélagið. En óneitanlega skapar þetta meiri möguleika á meiri afþreyingu fyrir þá og að þeir dvelji lengur.“

Sveitarstjórnarmönnum hvaðanæva af landinu er einmitt tíðrætt um mikilvægi þess að ferðamenn dvelji lengur í þeirra umdæmi, enda skapist meiri tekjur af því en þegar ferðamenn eiga aðeins leið í gegn með stuttu stoppi. Baðlón eru dæmi um það sem gjarnan er kallað „segull“ þegar uppbygging er kynnt, áfangastaður sem er byggður til að gefa svæði meira aðdráttarafl. „Það vilja allir gera það, svo að ferðamenn skilji meira eftir,“ segir Ásta.

„Það vilja allir gera það, svo að ferðamenn skilji meira eftir“

Ferðamenn munu hins vegar geta stoppað víðar á Gullna hringnum vilji þeir dýfa sér í lón. Hveragerðisbær og Reykjadalsfélagið náðu í vor samningum um uppbyggingu náttúrubaða sem munu heita Reykjaböðin á Árhólmasvæðinu í Hveragerði. Verkefnið er fullfjármagnað og framkvæmdir farnar af stað en þarna mun einnig rísa hótel til viðbótar við þjónustu sem fyrir er á svæðinu.

Í nágrenninu hefur einnig farið fram umhverfismat vegna Mountain Lagoon sem rísa á við Skíðaskálann í Hveradölum. Baðlónið mun nota vatn frá Hellisheiðarvirkjun og vera á stærð við Bláa lónið, segja aðstandendur.

Tvö ný baðlón á borði Akraness

Á Akranesi er fyrirhugað að baðlón rísi við Langasand á grundvelli viljayfirlýsingar sem bærinn undirritaði með Ísold fasteignafélagi, Íþróttabandalagi Akraness (ÍA) og Knattspyrnufélagi Akraness. Að sögn Haraldar Benediktssonar bæjarstjóra mun baðlónið tengjast hóteli sem rísa mun á svæðinu og vera byggt upp í samhengi við Guðlaugu, heita laug sem nú þegar er staðsett í fjörunni. Kostar miðinn í Guðlaugu 2.500 kr. fyrir fullorðna og er vinsælt að fara í hana eftir sjósund á Langasandi.

Haraldur Benediktsson – Mynd: xd.is

Haraldur Benediktsson Bæjarstjóri Akraness segir baðlón munu höfða jafnt til ferðamanna sem og heimamanna.

Árið 2022 var sömuleiðis kynnt sigurtillaga hugmyndasamkeppni um Breiðina á Akranes, neðst á Skipaskaga en þar vill Breið þróunarfélag, sem sjávarútvegsfyrirtækið Brim starfar með, byggja blandaða byggð íbúða- og atvinnuhúsnæðis með hóteli með útsýni yfir Snæfellsjökul og mögulegt baðlón því tengt.

Haraldur segir fyrra verkefnið vera í skipulagsferli en að engir framkvæmdaaðilar séu komnir að því síðara, enn sem komið er. „Við erum með Guðlaugu, sem flokkast nú eiginlega sem baðlón,“ segir Haraldur. „Við sjáum að hún laðar að marga gesti svo við lítum á það þannig að ný verkefni styðji jöfnum höndum við atvinnugreinina ferðamennsku og bæti búsetuskilyrði á Akranesi.“

Seljendur og kaupandi Þorpsins

Önnur fyrirhuguð baðlón eru á víð og dreif um landið. Við Krossavík við Hellissand á Snæfellsnesi hyggst leikarinn og athafnamaðurinn Kári Viðarsson reisa baðstað. Í Önundarfirði stefnir félag, sem Runólfur Ágústsson, fyrrum rektor, fer fyrir, á að byggja baðlón í landi Þórustaða við Hvítasand. Yrði það fyrsta sinnar tegundar á Vestfjörðum. Eigandi félagsins er sambýliskona Runólfs, Áslaug Guðrúnardóttir, en saman voru þau forsvarsmenn Þorpsins, félags sem hagnaðist ævintýralega á lóðasölu á Ártúnshöfða fyrr á árinu.

Þá var í lok árs 2020 undirrituð viljayfirlýsing á milli Vestmannaeyjabæjar og Lava Spring Vestmannaeyjar ehf. um gerð baðlóns á ofanverðum Skansinum. Í forsvari er Kristján Gunnar Ríkarðsson sem kom að uppbyggingu Skuggahverfis og RÚV-reitsins í Reykjavík. Hann var einmitt kaupandinn að lóðunum á Ártúnshöfða sem forsvarsmenn Þorpsins seldu. Áætlanir gera ráð fyrir 50 herbergja hóteli á Skansinum, veitingastað og innbyggðum hraunhelli.

Hinum megin á landinu hefur RARIK gert samning um jarðhitavatn fyrir baðlón á Skagaströnd. Böðin verða við sjávarmálið á Hólanesi með útsýni yfir Húnaflóann og Strandafjöllin.  Loks hefur Orra Árnason hjá Zeppelin arkitektum lengi dreymt um opnun baðlóns í Perlunni í Reykjavík. Auglýsti hann nýlega í Morgunblaðinu eftir samstarfsaðila til að kaupa Perluna og gera kennileitið sem áður var nýtt undir vatnstanka að nýjasta baðlóni landsins.

Fleira áhugavert: