Þessi meindýr má sem sagt hiklaust flokka sem heilbrigðisvandamál sem kostnaðarsamt er að losna við.
Nú klæjar um allan heim
Á sjötta áratug 20. aldar hafði veggjalúsum nánast verið útrýmt í auðugri ríkjum. Á næstu áratugum mátti heita að þessi skordýr féllu í gleymsku en upp úr 1990 tók aftur að bera á þeim og nú eru þær aftur orðnar vandamál í 135 löndum.
Í Ástralíu fjölgaði veggjalúsatilvikum um heil 4.500% milli 1999 og 2006 og baráttan gegn þeim á þessu tímabili er talin hafa kostað sem svarar um 70 milljónum evra.
Veggjalýsnar skríða nú líka fram úr felustöðum sínum bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.
Margoft hefur komið upp faraldur veggjalúsa í stórborgum á borð við París og New York og yfir mörg hótel hefur skyndilega tekið að rigna klögumálum frá gestum sem hafa vaknað upp rauðflekkóttir og með sáran kláða.

Veggjalýs leynast t.d. í rifum í rúmdýnum. Þaðan skríða þær svo að sofandi fórnarlambi á nóttunni. Stungurnar skilja eftir sig rauða bletti sem fólk klæjar í.
Á þremur fyrstu fjórðungum ársins 2023 komu upp 2.667 veggjalúsaárásir í New York en það var 17% fjölgun frá sama tímabili árið áður.
Meginástæða þessarar miklu útbreiðslu veggjalúsa er gríðarleg aukning ferðalaga ásamt því að lýsnar eru nú víða orðnar ónæmar fyrir því skordýraeitri sem áður var notað til að eyða þeim.
Settu fötin þín í frystinn þegar þú kemur heim úr ferðalagi. Kuldinn drepur veggjalýsnar á einni viku.

Fólk getur reyndar sjálft haft viss áhrif á útbreiðsluna. Heilbrigðisyfirvöld ráðleggja öllum sem hafa grun um að veggjalýs gætu leynst í farangrinum, að setja öll fötin í plastpoka og stinga þeim í frystinn. Jafnt lirfur sem fullorðnar veggjalýs eru dauðar eftir vikudvöl í 12 stiga frosti.
Koltvísýringur platar
En hafi ógæfan þegar riðið yfir og veggjalýs hafa náð fótfestu, þarf að grípa til annarra ráða. Auk skordýraeiturs eru vísindamenn nú að þróa tvær aðferðir.
Önnur felst í gildrum þar sem koltvísýringur er notaður til að laða lýsnar að. Þessi aðferð sannaði gildi sitt strax árið 2009 þegar vísindamenn hjá Landbúnaðartilraunastöð Connecticut í BNA notuðu hana í tilraun.
Í íbúð þar sem veggjalýs höfðust við reyndu vísindamennirnir annars vegar gildrur sem aðeins sendu frá sér hita og hins vegar gildrur sem bæði nýttu hita og koltvísýring. Í koltvísýringsgildrunni reyndust 5.898 veggjalýs eftir aðeins níu daga en eftir 29 daga hafði hitagildran aðeins náð 656 stykkjum.

Á rannsóknarstofunni vinna vísindamenn að því að þróa gildrur sem nota mannslykt og dæmigerðan líkamshita til að lokka veggjalýsnar.
Aðrir vísindamenn reyna nú að vinna á lúsunum innan frá. Í tilraunastofum hefur tekist að koma fyrir í veggjalúsum RNA-sameindum sem geta lokað fyrir nauðsynleg gen og komið þannig í veg fyrir framleiðslu prótína.
Þetta kemur í veg fyrir að veggjalýsnar geti fjölgað sér og tilraunir hafa sýnt að aðferðin fækkar í stofni veggjalúsa um 90%.
Þrjár nýjar aðferðir gegn veggjalúsum
Þegar veggjalýs finnast í hótelherbergi – eða kannski á heimili – er afar erfitt að losna við þær. Víða um heim eru þessi skordýr líka orðin ónæm fyrir skordýraeitri og við þurfum því að finna ný vopn í baráttunni.

1. Eitur og hiti hreinsa rýmið
Nú eru eitur og heit gufa öflugustu aðferðirnar til að vinna bug á veggjalúsum. Skordýraeitur hefur æ minni virkni en gufan virkar enn. Þessi skordýr drepast á 20 mínútum í 48 gráðu hita.

2. Veirur drepa lýs innan frá
Vísindamenn eru að genabreyta veirum til að sýkja veggjalýs og setja í þær RNA-sameindir sem stöðva framleiðslu prótína þannig að lýsnar geti ekki fjölgað sér.

3. Mannaþefur lokkar í gildru
Tilraunir sýna að veggjalýs laðast að gildrum sem líkja eftir mannaþef og líkamshita. Best virka gildrurnar ef frá þeim berst koltvísýringur á við útöndunarloft manna.
Vísindamennirnir rannsaka nú hvernig auðveldast sé að koma þessum RNA-sameindum í veggjalýsnar.
Einn möguleikinn er sá að græða sameindirnar í veirur sem síðan gætu sýkt veggjalýsnar. Takist það er hugsanlegt að maðurinn nái loks alvöru forskoti í hinni ævafornu baráttu við þessi meindýr.
Líffræðingar telja að upphaflega hafi mannfólkið fengið veggjalýsnar í arf frá leðurblökum, þegar menn og leðurblökur höfðu aðsetur í sömu hellum fyrir kannski 200.000 árum.
Þegar menn fluttu sig úr hellunum og komu sér upp öðrum bústöðum fylgdu veggjalýsnar með – og alla tíð síðan hafa þær verið laumufarþegar í farteskinu og lagt undir sig heiminn samtímis mannkyninu.
