Vatnsaflsvirkjanir – Áhrif á fiska

Grein/Linkur:  Fiskar og vatnsaflsvirkjanir

Höfundur:  Hilmar Malmquist

Heimild: 

.

fiskar og vatnsaflvirkjanir

.

Janúar 2016

Fiskar og vatnsaflsvirkjanir

Hilmar malmquist1

Hilmar Malmquist

Landsvirkjun og Veiðimálastofnun stóðu fyrir opnum fundi sem bar yfirskriftina Fiskar og vatnsaflsvirkjanir. Þar greindu sérfræðingar Veiðimálastofnunar frá niður­stöðum rannsókna sinna á áhrifum vatnsaflsvirkjana á laxfiska, einkum lax en einnig bleikju og urriða. Þetta var mikilvægur fundur í ljósi þess að Landsvirkjun er mjög umsvifamikill gerandi og áhrifavaldur í straumvötnum landsins og um að tefla afar dýrmæta og mikilvæga náttúruauðlind. Fundurinn stóð í 1,5 klst. og flutt voru fimm erindi auk umræðna.
Eins og gefur að skilja gafst ekki tóm á svo stuttum tíma til að fjalla á heildstæðan eða ítarlegan hátt um málefnið. Aftur á móti er mjög brýnt að gera sér grein fyrir því að viðfangsefnið er mun víðtækara en svo að áhrif virkjana taki einvörðungu til laxfiska og vatnavistkerfa, eða að verðmæti fiska séu bundin við þætti sem telja má til króna og aura, t.d. að hver lax sé verðmetinn á um 1,5 milljónir kr. í samhengi stangveiðinnar eins og einn fundargesta tók fram. Slíkt verðmat er mikilvægt en það er bara einn þáttur af mörgum sem líta ber til þegar spáð er í verðmæti laxfiska og vistkerfa. Ef ekki er reiknað með öllum helstu verðmætaþáttunum í dæminu verður útkoman röng.

Í umræðum var tæpt á þætti sem ekki telst til beinna efnahagslegra gæða en það eru verðmæti sem felast í mismunandi stofngerð laxfiska m.t.t. lífsögu og útlits (t.d. stærð, vaxtarhraði og kynþroskaaldur) og endurspegla aðlögun fiskanna að ólíkum lífsskilyrðum í vötnunum sem þeir hafa alist upp í. Bent var á að íslenskir laxfiskastofnar hafa mikla sérstöðu og vísað til aðlögunar að lífi í jökul- og lindaám, en slíkar vatnagerðir búa yfir sérstökum eiginleikum og eru fágætar á hnattræna vísu. Verðmæti af þessu tagi hafa þegar farið forgörðum við virkjun íslenskra vatnsfalla og hætt við að fleiri laxfiskastofnar muni glatast ef heldur fram sem horfir með virkjunaráform.

Það er vissulega rétt að stofnar laxfiska hafa vaxið í sumum jökulám eftir að þær hafa verið virkjaðar, en að kalla slík áhrif „jákvæð“ er tvíbent í hinu stóra samhengi. Það verður að skiljast að eftir því sem virkjuðum vatnsföllum fjölgar, eykst einsleitni í straumvötnum okkar vegna vatnsmiðlunar og -stýringar og þeim fækkar vatnsföllunum sem lúta gangi náttúrunnar. Hvað jökulárnar varðar þá hverfur aurinn og þær blána, vatnsrennsli jafnast út á ársgrunni og flestir umhverfisþættir, m.a. vatnshiti og efnabúskapur, verða stöðugri. Með þessum og álíka umhverfisbreytingum er vegið að rótum þess sem alið hefur af sér fjölbreytileika í íslenskum laxfiskastofnum, sem er fjölbreytileiki í lífsskilyrðum. Sumar aðlaganir fiskanna eru arfbundnar og með því að steypa fiskana í sama mót rýrum við ekki einasta líffræðilegan fjölbreytileika heldur kippum við grundvellinum einnig undan möguleikum á þróun lífs.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar spáð er í áhrif vatnsaflsvirkjana á fiska sem lifa í ferskvatni. Það er svo annað mál, en e.t.v. ekki minna mikilvægt, hvaða áhrif vatnsaflsvirkjanir hafa á fiska sem lifa allan sinn aldur í söltum sjó, en um þá fiska eða aðra þætti í sjávarlífríkinu var ekki fjallað á fundinum.

Fleira áhugavert: