Djúpnýting jarðvarma – Bylting, þróunarstarf

Grein/Linkur:  Orkuveitan þróar næstu byltingu í jarðhita

Höfundur:  Orkuveitan

Heimild:  

.

.

Október 2024

Orkuveitan þróar næstu byltingu í jarðhita

Orkuveitan, Transition Labs og Clean Air Task Force (CATF) hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um þróun á tækni til djúpnýtingar á jarðvarma og prófunum hér á landi. Miklar vonir eru bundnar við að slík nýting geti leitt til aukins orkuöryggis og orkusjálfstæðis víða um heim.

„Þróun á djúpnýtingu er mikilvægt framfaraskref fyrir nýtingu jarðvarma á heimsvísu sérstaklega á svæðum þar sem jarðvarmi hefur ekki verið nýtanlegur til þessa. Það eru mörg hagstæð skilyrði hér á landi fyrir þróun þessarar tækni sem mun stuðla að hreinni, stöðugri og hagkvæmri endurnýjanlegri orku. Markmiðið með samstarfinu er að flýta fyrir þróun, stuðla að hnattrænu kolefnishlutleysi og verja hugverk sem gætu orðið til,“ segir Hera Grímsdóttir framkvæmdastýra Rannsókn og nýsköpunar hjá Orkuveitunni.

Sérfræðiþekking Orkuveitunnar

Hera segir aðkomu Orkuveitunnar fyrst og fremst felast í því að leggja til þá miklu sérfræðiþekkingu sem fyrirtækið búi yfir til að þróa nýja tækni í hitaupptöku og leiða þróunarverkefni hér á landi. Verkefnið styðji við stefnumarkmið Orkuveitunnar um bætta auðlindanýtingu þar sem möguleiki sé á að nýta tæknina í holur og á auðlindasvæðum Orkuveitunnar sem hingað til hafa ekki verið nýtanleg.

Þær háhitaauðlindir á Íslandi sem eru á hentugum stað hafa flestar verið nýttar nú þegar. Næsta bylting í jarðhita mun koma með nýtingu auðlinda sem liggja dýpra og má finna nánast hvar sem er á Íslandi. Þessi nýting verður framkvæmd t.d. með EGS (engineered geothermal systems) sem mætti kalla þurra djúpnýtingu og hefur ekki verið beitt á Íslandi áður.

„Djúpnýting er eitthvað sem við höfum verið að skoða og viljum skoða enn frekar enda möguleikarnir miklir. Það er því afar ánægjulegt að geta tekið næstu skref í þessu spennandi verkefni og leiða verkefnið hér á landi með svo öflugum aðilum,“ segir Hera.

Mikilvægt að tryggja alþjóðlega þekkingaryfirfærslu

„Flestir jarðarbúar hafa gríðarlegt magn hreinnar orku undir fótum sér, bókstaflega. Við viljum stuðla að því að hægt sé að nýta þá orku í meira mæli en nú er og mæta þannig aukinni orkueftirspurn heimsins á grænan og sjálfbæran hátt“ segir Davíð Helgason, stjórnarformaður Transition Labs.

„Það sem við vonumst til með þessu þróunarverkefni á Íslandi er að geta skapað vegvísi til að koma á fót alþjóðlegum prófunarstöðvum fyrir djúpnýtingu, þar sem unnið væri markvisst að því að takast á við erfiðari aðstæður til að efla tæknina á mismunandi svæðum og sýna þannig fram á að djúpnýting er mögulegur og hagkvæmur orkukostur við flestar stórborgir heims. Orkuveitan og Transition Labs eru frábærir samstarfsaðilar við bæð að þróa verkefni og tryggja alþjóðlega þekkingaryfirfærslu þannig að hægt sé að hafa jákvæð áhrif sem allra fyrst á sviði loftslagsmála. Við erum full tilhlökkunar varðandi næstu skref” segir Terra Rogers forstöðukona djúpnýtingar hjá CATF.

Samtök sem berjast gegn loftslagsbreytingum

Transition Labs er íslenskt fyrirtæki sem starfar með alþjóðlegum loftslagsverkefnum, aðstoðar við að koma þeim á legg og skapa þannig fyrirmynd að framtíðarvexti víðar um heim. Clean Air Task Force eru bandarísk samtök sem starfa á alþjóðavettvangi og voru stofnuð árið 1996. Markmið þeirra er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinna að lausnum til að berjast gegn loftslagsbreytingum.

Fleira áhugavert: