Fyrsta vatnsveitan – Öxará, Drekkingarhylur
Grein/Linkur: Fyrsta vatnsveitan á Íslandi og Drekkingarhylur
Höfundur: Morgunblaðið
.
.
Júlí 2007
Fyrsta vatnsveitan á Íslandi og Drekkingarhylur
Ekkert þykir sjálfsagðara nú til dags en að allir landsmenn eigi óheftan aðgang að gnægð af góðu drykkjarvatni. Hvert einasta þorp, hver einasti kaupstaður og talsvert af strjálbýli landsins hefur sína eigin vatnsveitu.
En vatnsveitulagnir eru ekki nýjar af nálinni hérlendis. Sú fyrsta var lögð fyrir nær ellefu hundruð árum. Það var þegar landnámsmenn stofnuðu Alþingi á Þingvöllum og vildu tryggja öllum, jafnt höfðingjum sem almúgamönnum, gott drykkjarvatn og vatn til þvotta á flíkum, búsáhöldum og jafnvel eigin kroppi. Þeir réðust í það stórvirki að breyta farvegi Öxarár, steypa henni í hinum fallega fossi fram af brún Almannagjár og beina rennsli hennar niður um vellina þar sem allir höfðu aðgang að silfurtæru vatni hennar. Ekki virðast menn í þá tíð hafa litið á hana sem mikinn farartálma, það kom ekki til þess fyrr en nær þúsund árum síðar.
En vatnið úr Öxará var til fleiri hluta nytsamlegt en til drykkjar, matargerðar og þvotta. Það var þó ekki fyrr en öldum eftir stofnun Alþingis, eða eftir að hin alræmdu lög um Stóradóm voru sett á sextándu öld sem lands- og kirkjufeðrum hugkvæmdist að vatn væri kjörið til að halda uppi lögum og reglu, svo sem eins og að taka af lífi konur sem ekki höfðu farið hinn þrönga siðferðisstíg sem karlaveldið og klerkarnir höfðu ákveðið að væri hinn eini rétti.
Skammt frá þar sem Öxarárfoss steypist í Almannagjá var djúpur hylur með miklu iðukasti. Þarna, á þessum undurfagra stað, fannst valdsmönnum þessa heims og annars sem auðvitað voru allir karlar, upplagt að láta konur gjalda synda sinna og þarna var réttlæti veraldlega valdsins og kristinnar kirkju fullnægt. Dauðarefsingar voru óþekktar í heiðni, slíkar refsingar voru ekki uppteknar fyrr en eftir kristnitöku og þó einkum eftir siðabót Lúthers.
Þessi djúpi hylur fékk þar með nafnið Drekkingarhylur. Þarna voru konur sem fundnar voru sekar um ódæði, svo sem að eignast börn sem ekki höfðu verið getin eftir forskrift kirkjunnar, settar í hærusekk og kastað í hylinn. Þar áttu þær engrar undankomu auðið og drukknuðu.
En færum okkur nær í tíma eða til ársins 1911. Þá hafði um nokkurt skeið eða frá 1897 verið yfir ána brúarskrifli úr tré sem þó hafði engu spillt, við það að fjarlægja hana var allt eins og áður nema nú voru drekkingar kvenna aflagðar sem betur fór. En þá var hafist handa um að byggja nýja brú og í ákafa landmanna við upphaf 20. aldar varð auðvitað að gera hana af eins óforgengilegu efni og mögulegt var. Steinsteypan var komin til sögunnar, annað efni kom ekki til greina. En til að koma slíku mannvirki fyrir var öllu spillt og Drekkingarhylur eyðilagður. Dínamít var óspart notað og eftir byggingu brúarinnar var Drekkingarhylur aðeins lítill pollur sem vart var hægt að drekkja í kattargarmi hversu syndugur sem hann var, ekki ber að sýta það. Allt þetta brambolt kom til af því að einhverjir heldur brokkgengir prinsar úr dönsku konungshöllinni voru á ferðinni en þó var það ekki síst krafan um að gera akveg niður Almanngjá sem var forsenda þess að steypta brúin var byggð.
En nú fer enginn bíll lengur um Almannagjá sem betur fer og því engin ástæða til að halda upp á þetta ljóta ferlíki sem brúin er. Eftir síðustu kosningar var fjölgað í Þingvallanefnd, en hún vinnur í umboði Alþingis og hefur vald til að skipa málum á Þingvöllum. Með þessari fjölgun er vonandi að fleiri gagnlegar og skynsamlegar ákvarðanir verði teknar, við skulum ekki einu sinni voga okkur að minnast hins fornkveðna „að því ver gefast heimskra manna ráð sem fleiri koma saman“.
Það ætti að vera forgangsverkefni Þingvallanefndar að láta rífa og fjarlægja steinklumpinn, brúna við Drekkingarhyl og endurgera þær hindranir sem burtu var svipt með sprengingum svo hylurinn verði aftur hylur. Ekki til voðaverka heldur til að minnast þeirra skelfilegu verka sem þar voru framin og þeirra kvenna sem urðu fórnarlömb harðsvíraðrar veraldlegrar réttvísi og þess kristna rétttrúnaðar og þeirrar refsigleði sem ríkti hérlendis á miðöldum og allt fram á 19. öldina.