Raforkuverð, sagan – Alltaf undir meðalverði
Grein/Linkur: Alltaf undir meðalverði
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Mars 2016
Alltaf undir meðalverði
Raforkuverð til álvera á Íslandi er bundið í langtímasamningum og er það verð ekki gert opinbert. Út frá ársreikningum Landsvirkjunar má þó ætla að það hafi hin síðustu ár verið á bilinu 25-28 US mill á kWst [25-28 USD/MWst]. Til samanburðar má nefna að samkvæmt World Bureau of Metal Statistics var meðalverð í heiminum árið 2007 27 US mill á kWst [27 USD/MWst]. Verð hér virðist því vera á sama bili og annars staðar að jafnaði.
Þannig segir í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá árinu 2009 (leturbreyting og skýringar í hornklofum eru Orkubloggsins). Skýrslan sú ber titilinn Áhrif stóriðjuframkvæmda á íslenskt efnahagslíf og hana má sjá í heild Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Umrædd niðurstaða Hagfræðistofnunar ver vel að merkja nokkuð fjarri raunveruleikanum. Almennt hefur meðalverð til álvera á Íslandi verið töluvert langt undir heimsmeðalverðinu. Munurinn þarna hefur oft verið á bilinu 20-30% (íslensku orkufyrirtækjunum í óhag). Hér að ofan má sjá graf frá CRU Group sem sýnir meðalverðið til álvera í heiminum. Inn á grafið er búið að bæta við meðalverði Landsvirkjunar (bláu punktarnir). Minnt skal á að skýrsla Hagfræðistofnunar var birt 2009 og því er 2008 síðasta árið sem tilgreint er á grafinu. En þess má geta að umræddur verðmunur er ennþá fyrir hendi og er oftast hlutfallslega engu minni en var (sbr. einnig þetta graf hér).
Einungis árið 2006 var meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju og álvera svipað og meðalverð til álvera í heiminum. Eins og glögglega má sjá á grafinu hér að ofan. Það ár (2006) var mjög óvenjulegt. Því þá var verð á áli alveg einstaklega hátt (sbr. grafið hér til hliðar). Vegna verðtengingar í raforkusamningunum hér milli álveranna og Landsvirkjunar við álverð, naut Landsvirkjun góðs af þessu óvenju háa álverði. Þarna var um mjög óvenjulegt ástand að ræða. Árið 2006 var því undantekning frá því sem verið hefur að jafnaði.
Svo bíður maður bara spenntur eftir því að útsendarar Norðuráls spretti fram og segi að þarna sé verið að bera saman epli og appelsínur. Vegna þess að raforkuverð til járnblendiverksmiðjunnar (sem er jú ekki álver) skekki samanburðinn. En svo er alls ekki. Óvissumörkin vegna þessa rúmast innan bláu punktana.
Niðurstaðan er sú að allt tímabilið 2002-2008 var meðalverð á raforku Landsvirkjunar til álvera lægra en meðalverð á raforku til álvera í heiminum. Og oftast töluvert miklu lægra. Og hér er vel að merkja verið að tala ummeðalverð. Fjölmörg álver í heiminum greiða miklu hærra orkuverð en meðalverð til álvera heimsins. Og einungis örfá af öllum rúmlega tvö hundruð álverum heimsins greiða jafn lágt raforkuverð eins og Norðurál og Fjarðaál.