Vatnsaflsvirkjanir – 6 í nýtingarflokk
Grein/Linkur: Sex vatnsaflsvirkjanir á leið í nýtingarflokk
Höfundur: Kristján Már Unnarsson Vísi
.
Júní 2024
Sex vatnsaflsvirkjanir á leið í nýtingarflokk
Sex nýjar vatnsaflsvirkjanir eru á grænu ljósi og á leiðinni í nýtingarflokk, samkvæmt tillögum verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Hún leggur hins vegar til að þrjár virkjanir verði ekki leyfðar og fari í verndarflokk.
Í fréttum Stöðvar 2 var brugðið upp kortum sem sýna hvar þessar virkjanir eru fyrirhugaðar. Alþingi er þegar búið að samþykkja fjórar vatnsaflvirkjanir inn í nýtingarflokk í rammaáætlun. Ekki hefur orðið vart deilna um tvær þeirra; Austurgilsvirkjun í Skjaldfannardal í Djúpi og virkjun í veituleið Blönduvirkjunar. Þeim mun meiri átök hafa verið um Hvammsvirkjun í Þjórsá og Hvalárvirkjun á Ströndum.

Þessar fjórar vatnsaflsvirkjanir er Alþingi þegar búið að samþykkja inn í nýtingarflokk.Grafík/Hjalti Freyr Ragnarsson
Það vill svo til að þessa dagana er eitt ár liðið frá því virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar var fellt út gildi. Núna er Landsvirkjun byrjuð að bjóða út undirbúningsframkvæmdir í trausti þess að öll leyfi verði fengin í haust.
Hvalárvirkjun virðist einnig komin á hreyfingu en í síðustu viku var greint frá því að HS Orka og Landsnet hefðu undirritað samning um tengingu Hvalárvirkjunar við orkuflutningskerfið sem miðar við að framkvæmdir geti hafiist eftir tvö ár.

Þessa tillögu lagði verkefnisstjórn rammaáætlunar inn á borð umhverfis- og orkumálaráðherra að lokinni kynningu í samráðsgátt stjórnvalda.Grafík/Hjalti Freyr Ragnarsson
Stórt skref vaf stigið fyrir tveimur mánuðum þegar verkefnisstjórn rammaáætlunar skilaði inn tillögu til ráðherra umhverfis- og orkumála um flokkun fimm vatnsaflvirkjana. Hún gefur grænt ljós á að þrjár þeirra fari í nýtingarflokk; Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun og Skrokkölduvirkjun, allt stórvirkjanir, en vill setja tvær þeirra í verndarflokk; Héraðsvötn og Kjalölduveitu.

Nýjasta tillaga verkefnisstjórnar um flokkun vatnsaflsvirkjana er núna í samráðsgátt stjórnvalda.Grafík/Hjalti Freyr Ragnarsson
Og núna er verkefnisstjórnin búin að kynna í samráðsgátt stjórnvalda tillögu að flokkun fjögurra vatnsaflsvirkjana til viðbótar. Hún leggur til að þrjár virkjanir á Vestfjörðum fari allar í nýtingarflokk; Tröllárvirkjun, Hvanneyrardalsvirkjun og Skúfnavatnavirkjun. Hún vill hins vegar að Hamarsvirkjun á Suðausturlandi, upp á 60 megavött, verði ekki leyfð og fari í verndarflokk. Frestur til að gera athugasemdir rennur út 21. júní, eftir þrjá daga.