Innmúruð baðkör – Engin kemst að lögnum
Grein/Linkur: Gefum múraranum frí
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Janúar 1994
Gefum múraranum frí
Pípulögn var lokið. Múrhúðun var lokið. Stigahúsið nálgaðist að vera það sem kallast tilbúið undir tréverk. Múrararnir voru búnir, samkvæmt hefðinni, að hlaða virkisvegg úr vikurplötum utanum allar lagnir í baðherbergjum og pússa vandlega. Inn að þessum lögnum skyldi enginn komast næstu hálfa öldina nema með mikilli fyrirhöfn, brjótandi og bramlandi.
En kennum ekki múraranum um það. Þetta er eitt af því sem allir eru svo hjartanlega sammála um. Svona hefur það verið og svona skal það vera.
Hvers vegna?
Vegna þess að enginn nennir að hugsa.
Nú brjótum við
Múrhúðun er orðin þurr, svo þurr að nú má fara að brjóta hana aftur niður. Pípulagningamaðurinn er mættur á staðinn og brotverkið hefst. Hvað er verið að brjóta? Rauf fyrir baðkerið. Þetta verk vinna menn með helgisvip því nú er það hefðin sem ræður. Þessi þjóð er svo fátæk af hefðum að hún má ekkert missa. Allra síst þessa.
Að múra inn baðker með ærinni fyrirhöfn svo öruggt sé að enginn geti komist að lögnum eða skipt um ker nema með ærinni fyrirhöfn. Þá verður gaman; þá þarf að brjóta og bramla.
Svona vill arkitektinn hafa það, sömuleiðis pípulagningamaðurinn og múrarinn og húseigandinn. En var nokkur að spyrja húseigandann? Nei, að sjálfsögðu ekki; hvað kemur honum þetta við?
Pípulagningamaðurinn stillir baðkerið af, tengir það og hverfur á braut. Þá birtist hann aftur, blessaður múrarinn, með tól sín og tæki. Hleður rammgerðan vegg fyrir framan baðkerið og pússar og steypir.
Múrinn harðnar. Baðkerið skal ekki haggast næstu hálfu öldina.
Ekki þó Suðurlandsskjálftinn eða hans líkar ríði yfir.
Er um annað að velja?
Hversvegna múrum við ekki klósettið fast eða handlaugina? Það dettur engum í hug, sem betur fer. En verður ekki að múra baðkerið fast?
Nei, hvergi á byggðu bóli dettur mönnum önnur eins vitleysa í hug nema hér á þessu eylandi, Íslandi. Þetta er rammíslensk hefð, hefð sem nærist á vananum og hugmyndaleysi fagmanna.
Förum aftur inn í baðherbergi. Utan um lagnir smíðum við stokk úr álbitum eða öðru góðu efni. Klæðum á grindina með rakavörðum plötum, þó þannig að auðvelt sé að opna vegginn allan eða að hluta til að komast að lögnum. Málum, dúkleggjum eða flísaleggjum í hólf og gólf.
Þá er komið að því að setja upp hreinlætistækin, klósett, handlaug og baðker.
Já, baðkerið á ekki að koma fyrr. Þau eru fáanleg með göflum og svuntu (laus framhlið) með nákvæmlega sömu áferð og úr sama efni og baðkerið.
Sumir framleiðendur gera svuntuna þannig úr garði að hægt er að lyfta henni upp með lítilli fyrirhöfn til að strjúka af gólfi undir baðkerinu eða líta eftir hvort lagnir séu í lagi. Einn kosturinn við þennan frágang er sá að enginn raki hefur lokast af eins og oft vill verða þegar baðkerið er múrað inni. Og það sem meira er; þú hefur fengið fallegra baðker sem auðvelt er að fjarlægja er þörf krefur.
Það þarf ekkert að brjóta og bramla.
Hver á hefðina?
Vilja allir Lilju kveðið hafa? Tæplega. Þetta er sameignarfélag. Arkitektinn á stóran hlut; oftast hannar hann baðherbergið þannig að ekki er hægt að koma fyrir lausri svuntu framan á kerið, byggingameistarinn, pípulagningamaðurinn, múrarinn; allir taka þeir þátt í leiknum. Kaupmaðurinn á sitt. Býður hann fram falleg baðker með lausum göflum og svuntum?
Gefum múraranum frí að þessu leyti. Hann er búinn að vera duglegur.