Lagnamenn – Samtaka og frumkvæðisleysi
Grein/Linkur: Vaknaðu Þyrnirós, annars verður þú grafin
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Janúar 1994
Vaknaðu Þyrnirós, annars verður þú grafin
Það er kreppa, segja menn. Allir eru að tala um kreppuna og að eitthvað þurfi að gera til að auka atvinnu. Sumir gera eitthvað, aðrir láta sér nægja að tala, sumir gera ekkert og þegja líka.
Járniðnaðarmenn krefjast aðgerða til að efla skipasmíðar, verslunarmenn krefjast aukins frelsis til viðskipta, sjómenn láta í sér heyra svo um munar.
En lagnamenn þegja. Þeir sitja hver í sínu horni (eða skáp) og láta bera sem minnst á sér.
En lagnamenn á Íslandi skortir ekki verkefni. Það þarf aðeins að bera sig eftir þeim. Það væri ekki aðeins í þágu þeirra sjálfra, heldur einnig viðskiptavinanna, húseigenda. Það væri raunar í þágu þjóðfélagsins alls.
Það er í allra þágu að nota núverandi samdráttarskeið til að endurleggja í öll eldri hús hérlendis.
Þeirra tími er kominn.
Hvað vantar?
Það vantar frumkvæði. Það vantar frumkvæði pípulagningamanna, blikksmiða, hönnuða, húseigenda og forráðamanna sveitarfélaga. Það má telja lánastofnanir með.
En er þetta ekki einfalt mál. Þarf eitthvað sérstakt frumkvæði. Hringir ekki húseigandinn einfaldlega í pípulagningameistara og segir við hann; eitt stykki nýtt lagnakerfi í mitt hús!
Eflaust gengur þetta oft svona og árangur ágætur. En við skulum skoða þetta nánar.
Í fyrsta lagi er endurlögn í gamalt hús allt annað en nýlögn í nýtt hús. Pípulagningamenn, einkum yngri kynslóðin, hefur ekki kynnst öðru en uppmælingaæðinu í blokkunum. Leggja sem hraðast, komast sem fyrst frá verkinu því annað bíður. Aðstæður nánast alltaf þær sömu, efnisvalið alltaf það sama. Sama gildir um hönnuði. Sífellt verið að hanna það sama, lausnirnar þær sömu, efnisvalið það sama.
Afleiðingin staðlaðir lagnamenn sem hafa vanist því að fá verkefni á færibandi í þenslu undangenginna ára. Svo staðlaðir að ef einhver úr stéttinni fer inn á nýjar brautir, hrekkur upp úr hjólfari uppmælingarinnar, er hann álitinn í besta falli skrítinn ef ekki með lausa skrúfu.
Ný hugsun, ný viðhorf
Endurlagnir í eldri hús og samdráttur í verkefnum krefst nýrra viðhorfa. Lagnamenn verða að fara að kynna hvaða þjónustu þeir bjóða, sérhæfing er ekki bannorð.
Það þarf að stofna til samvinnu allra lagnamanna. Að þessu verkefni þurfa að koma pípulagningamenn, blikksmiðir, hönnuðir, efnissalar, samtök húseigenda, lánastofnanir, byggingafulltrúar, veitukerfi, efnissalar og rannsóknarstofnanir.
Það þarf að leggja ákveðna línu í efnisvali. Hvaða efni eru hentugust við endurlagnir? Er hægt að koma við forvinnu eða fjarvinnslu, er hægt að framleiða sumar lagnaeiningar á verkstæðum til að stytta framkvæmdatímann á vinnustað? Þetta krefst náinnar samvinnu iðnaðarmanna, hönnuða og efnissala.
Það verður að tryggja að hver og einn sé ekki í hverju húsi að finna upp hjólið. Þetta er verkefni sem krefst víðtækrar samvinnu og skipulegs undirbúnings. Við erum að fara inn á nýtt svið. Það verða allir að gera sér ljóst að nýbyggingar og þarafleiðandi nýlagnir verða miklu minni hluti af verkefnum lagnamanna eitthvað fram á næstu öld. Enda má spyrja; er það þjóðhagslega hagkvæmt að brjóta sífellt nýtt land fyrir nýbyggingar með óhjákvæmilegri þenslu í götum og veitukerfum en láta eldri byggingar grotna niður og verða óíbúðarhæfar?
Öll gamla Reykjavík bíður. Allir gamlir bæjarkjarnar á Íslandi bíða. Þeirra tími er meira en kominn. Hver ætlar að hafa frumkvæði að þessu þjóðhagslega hagkvæma verkefni sem gæti útrýmt verkefnaskorti lagnamanna en jafnframt verið til hagsbóta fyrir eigendur gamalla húseigna?
Þyrnirós sefur. En ekki í áberandi og fallegri glerkistu. Hún er í okkur öllum. Svefninn birtist í samtaka- og frumkvæðisleysi.
Ef ekkert gerist verður Þyrnirós grafin.