Orkugjafi – Etanól, Metanól (tréspíri)

Grein/Linkur: Skóflustungur

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:

.

.

Október 2010

Skóflustungur

rangefuels-plant-skoflustunga.jpg

rangefuels-plant-skoflustunga

Etanól er sniðugt eldsneyti. En hefur þann stóra galla að vera framleitt úr korni og öðrum manneldisplöntum. Í Bandaríkjunum berjast menn við að finna hagkvæmar leiðir til að framleiða það sem kallað er annarrar kynslóðar etanól. Sem er etanól unnið úr sellulósa; þ.e. úr óætu hlutum plantnanna.

Vesenið er að þetta annarrar kynslóðar etanóleldsneyti ætlar að láta á sér standa. Jafnvel þó svo snillingar eins og Vinod Khosla og margir aðrir stórir fjárfestingasjóðir dæli í þetta peningum.Öll þykjast fyrirtækin vera alveg á mörkum þess að koma með lausnina. Dæmi er  Range Fuels, sem hefur lofað að brátt streymi annarrar kynslóðar etanól á markað frá nýju verksmiðjunni þeirra sem er að rísa í smábænum Soperton í Georgíufylki. Myndin hér að ofan er einmitt frá því fyrsta skóflustungan var tekin að verksmiðjunni þar. Range Fuels er bara eitt af mýmörgum grænorkuverkefnum áðurnefnds Khosla, sem er einungis einn í hópi margra sem veðja stíft á annarrar og þriðju kynslóðar etanól.

En eitthvað virðist ganga hægt að koma þessu annarrar kynslóðar etanóli á brúsana. Orkubloggarinn er satt að segja farinn að efast um að súperetanól-draumurinn rætist í bráð. Hvort sem það er annarrar kynslóðar biofuel eða þriðju kynslóðar þörungasull. Þetta kann að koma e.h.t. í framtíðinni. En hugsanlega er miklu raunhæfara að heimurinn einbeiti sér að öðru og heldur óhollari alkóhóli. Nefnilega árans tréspíranum. Metanóli.

cri_svartsengi.jpg

cri_svartsengi

Svo skemmtilega vill til að Íslendingar gætu þar orðið meðal brautryðjenda. Framleiðsla á metanóli – og jafnvel bráðum einnig á DME – er að hefjast á Íslandi. Metanólverksmiðja Carbon Recycling International (CRI) er að rísa við Svartsengi. Og uppi eru hugmyndir um DME-verksmiðju í Hvalfirði.

Hjá CRI í Svartsenginu er líklega á ferðinni einhver mesta frumkvöðlastarfsemi á landinu um þessar mundir. Ef vel tekst til gæti þetta orðið mikilvægt skref til að byggja upp nýjan og jafnvel umfangsmikinn iðnað á Íslandi. Ekki veitir af.

Þetta er spennandi. Ekki var búið að tryggja fjármögnun verksmiðjunnar í Svartsengi þegar hrunið skall á haustið 2008. En fyrirtækinu tókst hið ótrúlega; að fá nýtt fjármagn inní verkefnið á þessum erfiðu tímum.

cri_svartsengi-skoflustunga.jpg

cri_svartsengi-skoflustunga

Og í október í fyrra (2009) var fyrsta skóflustungan tekin að metanólverksmiðjunni við Svartsengi. Að viðstöddum Nóbelsverðlaunahafanum George Olah, sem hefur verið einn helsti boðberi þess að veröldin nýti metanól sem eldsneyti. Myndin hér til hliðar var einmitt tekin við það tækifæri. Veðrið var svolítið hryssingslegt, en dúndur hressandi.

Til að nota metanól í háu blöndunarhlutfalli sem bifreiðaeldsneyti, þarf að breyta bifreiðunum. Venjulegar vélar þola ekki mikinn styrk metanóls í eldsneytinu. Vandamálin munu t.d. bæði vera gangsetningartruflanir og tæring. Þess vegna er horft til þess að nota metanólið fremur sem lítinn hluta á móti bensíni. Þ.e. nota blöndu metanóls og bensíns, sem óbreyttar bílvélar þola. Þar gæti hlutfall metanólsins verið 10% eða jafnvel 15%.

Stærsta vandamál fyrirtækja sem veðja á metanól er það að enn sem komið er nýtur metanól yfirleitt lítils stuðnings sem bifreiðaeldsneyti. Bæði í Bandaríkjunum og hjá ESB hafa stjórnvöld tregast við að leyfa sterkari metanólblöndu en sem nemur 3% af rúmmáli. Sbr. t.d. tilskipun Evrópusambandsins um eldsneytisstaðla (Fuel Quality Directive nr. 2009/30).

ethanol-american-flag.png

ethanol-american-flag

Það yrði mikill ávinningur fyrir metanóliðnaðinn ef sterkari metanólblanda yrði staðall. Það myndi leggja grunn að öflugum metanóliðnaði, rétt eins og gildir um E10 (15% etanól á móti 90% bensíns). E10 staðallinn er í reynd grundvöllurinn að etanóliðnaðinum í Bandaríkjunum. Án slíkra staðla er hætt við að þróunin verði mjög hæg og fjármagnið treysti sér ekki í verkefnin vegna of mikillar áhættu.

Það er ekkert grín að ætla að koma með nýtt eldsneyti á markað í Bandaríkjunum. Jafnvel þó það verði bæði grænt og vænt. Bandaríski etanóliðnaðurinn tjaldar öllu til að berjast gegn slíku. Það var alveg makalaust að fylgjast með massífum lobbýismanum westur í Washington DC s.l. vor – gegn metanóli. Þar voru á ferð bæði olíuiðnaðurinn og bandaríski bílaiðnaðurinn – en þó fyrst og fremst etanóliðnaðurinn. Þokkaleg þrenning að eiga við! Ástæðan var sú að skv. frumvarpinu var stjórnvöldum heimilað að ákveða nýjan almennan staðal fyrir metanóleldsneyti – allt að M85! Jafnvel þó svo frumvarpið geymdi einnig ákvæði um að stefna að allt að 85% etanóli, beittu Etanólarnir sér af hörku gegn því að metanólið fengi að vera þarna með.

american_clean_energy_and_security-discussions-house-of-representatives.jpg

american_clean_energy_and_security-discussions-house-of-representatives

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti nýja græna orkufrumvarpið í júní á liðnu ári (2009). En hvernig það mun endanlega líta út vitum við ekki. Ekki fyrr en Öldungadeildin hefur afgreitt frumvarpið. Ómögulegt er að segja hvort eða hvenær það verður. Og miðað við lætin er hætt við að metanólhvatar verði þá endanlega horfnir út frumvarpinu eða a.m.k. búið að draga úr þeim allar tennur.

Andstaðan við metanólið í þar vestra kemur sossum ekki á óvart. Ef metanólstandard upp á t.d M10 eða M15 yrði samþykktur myndi það geta haft slæm áhrif á etanóliðnaðinn. Það væri talsvert högg fyrir etanólið ef allt í einu væri hægt að renna inn á bensínstöð og dæla M10 eða M15 á bílinn. Þar með væri hin fræga E10 blanda skyndilega búin að fá dúndrandi samkeppni – frá vöru sem hefur t.d. þann kost umfram etanólið að vera unnin úr m.a. koldíoxíði, meðan etanólið er unnið úr korni og fleiri undirstöðum fæðuframboðs! Þarna er ólíku saman að jafna. Þar að auki er miklu ódýrara að framleiða metanól heldur en etanól. Líklega um 20-25% ódýrara m.v. orkuinnihald. Metanól virðist óneitanlega skynsamari kostur en etanól – en það er stundum bara ekki nóg.

dme-fuel-test.jpg

dme-fuel-test

Orkupólitíkin er skrítin tík. Og meðan metanól fær ekki meira vægi hjá stjórnmálamönnunum leitar fjármagnið sem er tilbúið að fara í eldsneyti af þessu tagi, fremur í etanóliðnaðinn.

Þar með er þó alls ekki búið að dæma metanól úr leik. Í stað þess að metanólbensín (t.d. M10) verði að veruleika gæti metanól nýst sem eldsneyti á díselvélar. Þá væri metanólinu umbreytt í DME (CH3-O-CH3), sem unnt er að nota sem  eldsneyti á díselvélar og gæti t.d. hentað skipum og flutningabílum. Einungis mun þurfa að gera smávægilegar breytingar á vélunum til að geta notað DME. Þetta er eldsneytið sem menn tala nú um að framleiða í sérstakri verksmiðju í Hvalfirði. Þannig getur metanól orðið hlekkur í því að framleiða íslenskt DME.

methanol-china-standard.jpg

methanol-china-standard

Enn sem komið er er einungis eitt land í heiminum sem hefur gert alvöru úr því að nota metanól sem eldsneyti á bifreiðar. Reyndar ekkert smá land – því þetta er sjálft Kína. Kínverjarnir eru á fullu í að framleiða bílvélar sem brenna hvorki meira né minna en M85 (85% metanól). Þarna í Austrinu kann því brátt að myndast verulega stór markaður fyrir metanól. Og það sem er sæmilega stórt í Kína, ætti að gefa ýmis tækifæri!

En vandamálin eru mörg. Það er ennþá varla hægt að tala um að til sé raunverulegur eldsneytismarkaður fyrir metanól hér á Vesturlöndum – né fyrir DME. Það er reyndar svo að eldsneytisverð úr dælunni ræðst ekki bara af olíuverði. Heldur t.d. líka af afköstum olíuhreinsunarstöðvanna. Þróunin síðustu misserin hér á Vesturlöndum hefur verið mikill samdráttur í rekstri olíuhreinsunarstöðva. Í Bandaríkjunum er t.a.m. vart hægt að lýsa þessu öðru vísi en að um sé að ræða hreinar raðlokanir í bransanum. Sú þróun mun valda hækkunum á bensínverði þegar (ef!) eftirspurnin vex á ný. Það gæti reynst metanóliðnaðinum vel. Og auðvitað öðrum tegundum af eldsneyti, sem keppa við hefðbundið eldsneyti.

oil_palace.jpg

oil_palace

Ennþá eru hvatarnir samt ónógir og ennþá er bensínverð í Bandaríkjunum of lágt til að hvetja fjármagnið til að hugleiða metanólframleiðslu af alvöru. Það virðist einfaldlega ennþá vera unnt að bjóða mönnum olíusullið á spottprís – jafnvel þó svo hráolían kosti sitt þessa dagana. Það er því á brattann að sækja fyrir metanólið.

En það er margt að gerast. Orkubloggarinn hefur hér á blogginu stundum lýst aðdáun sinni á Kanada. Eldsneytisstefna Kanadamanna er einmitt eitt af því sem gerir landið áhugavert. Þarna má t.d. nefna reglur í Bresku Kólumbíu um að stórauka hlutfall á eldsneyti sem losar lítið kolefni. Reglugerðin sú nefnist Renewable and Low Carbon Fuel Requirements Regulation (RLCFRR) og tók hún gildi 1. janúar s.l. (2010).

canada_bc_empr_1031417.gif

canada_bc_empr

Þarna eru sett metnaðarfull markmið, sem ásamt kolefnisstefnu kanadísku alríkisstjórnarinnar gætu gert Kanada að leiðandi ríki í að nota t.d. bæði metanól og DME. Ætti Ísland kannski að einbeita sér meira að góðum og nánum samskiptum við Kanada?

Fleira áhugavert: