Mestu olíubirgðir heims – Salthellum USA
Grein/Linkur: Dularfullu salthellarnir
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Maí 2008
Dularfullu salthellarnir
Hvað er betra til að koma hjólum efnahagslífsins á stað en nett stríðsátök? Hér kemur ein létt samsæriskenning. Hún gæti kallast „Dularfullu hellarnir“ – en er reyndar ekki ein af bókum Enid Blyton heldur rammasta alvara:
Þið kannist við Strategic Petroleum Reserve (SPR)? Undanfarið hafa bandarísk stjórnvöld markvisst verið að auka þessar olíubirgðir, sem eru í raun neyðarbirgðir eða birgðir til að nota á neyðartímum. Hvað veldur þessari birgðaaukningu nú – líkt og eitthvað meiriháttar sé í undirbúningi?
Ég ætla ekki að spá fyrir um það. Þó maður kannski hallist að því að þetta sé hluti að undirbúningi árásar á Íran. Í staðinn ætla ég að fara örfáum orðum um þessar neyðarbirgðir Bandaríkjastjórnar af olíu. Sumpart minnir þetta meira á þátt úr X-files, fremur en raunveruleikann. Birgðir þessar eru að mestu geymdar neðanjarðar í gömlum salthellum undir suðurhluta fylkjanna Texas og Louisiana. SPR-olían eru mestu olíubirgðir sem nokkur ríkisstjórn í heiminum ræður yfir. Og það er Bandaríkjaforseti sem tekur ákvarðanir um þessar birgðir. Upphaflega var þeim komið á fót í kjölfar olíukreppunnar upp úr 1970. Um þetta segir nánar t.d. á vef bandaríska orkumálaráðuneytisins (www.fe.doe.gov/programs/reserves/index.html) og sérstökum vef um SPR (www.spr.doe.gov).
Glöggir menn hafa nú tekið eftir því að undanfarið hefur bandaríkjastjórn verið að bæta hátt í 70 þús. tunnum við birgðirnar á degi hverjum. Skv. lögunum um þessar birgðir (Energy Policy Act frá 2005) geta þær orðið allt að 1 milljarður tunna.
Fyrir 11. sept 2001 (árásina á World Trade Center) námu birgðirnar um 545 milljón tunnum, en eftir þá atburði fyrirskipaði Bush að auka birgðirnar í allt að 700 milljón tunnur. Í dag eru birgðirnar yfir 700 milljón tunnur og hafa aldrei í sögunni verið meiri! Og nú hefur bandaríska orkumálaráðuneytið þá opinberu stefnu að auka birgðirnar í nærri 730 milljón tunnur innan fárra mánaða. Enn fremur er lagabreyting núna til umfjöllunar hjá Bandaríkjaþingi þess efnis að auka birgðirnar í allt að 1,5 milljarða tunna. En af hverju þessi mikla aukning nú – og það þegar olíverðið er svo hátt?
Þetta hefur vakið athygli, enda kostar slík aukning ca. 5 milljarða dollara (kaupa þarf olíuna og byggja upp nýjar geymslur fyrir allt magnið). Enn fremur eykur þetta þrýsting á að olía hækki enn meira. Og sú staðreynd er ekki beint til þess fallin að fá almenna Bandaríkjamenn til að brosa. Því eru þeir nú sífellt fleiri sem velta fyrir sér hvaða plön Bush og félagar séu að brugga. Hvað ætli Scully og Mulder myndu segja um þetta?