Hátt olíuverð – T. Boone Pickens, sagan 2008

Grein/Linkur: Pickens was wrong – en er samt svalur gæi

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Pickens was wrong – en er samt svalur gæi

PickensCartoon

PickensCartoon

Jæja – þar kom að því. Olíufatið fór yfir 120 USD í dag. Það er alltaf gaman að hafa rétt fyrir sér. Um miðjan febrúar s.l. spáði ég því að dollan myndi jafnvel rjúfa 120 dollara múrinn fyrir vorið (þá var fatið á slétta 100 dollara). Og í mínum huga eru fyrstu vordagarnir einmitt núna.

Já – mig grunaði að gamli olíurefurinn T. Boone Pickens væri full hógvær þegar hann spáði olíunni í kringum 100 dollarana – og hann byrjaði meira að segja að sjorta olíuna!: „Pickens Expects Oil, Natural Gas Prices to Fall“; www.cnbc.com/id/23272368

Hvort olían á eftir að lafa yfir 120 dollurunum verður að koma í ljós (NYMEX lokaði í kvöld í 119,97 USD). En haftið er rofið – og það er eitthvað heillandi við það. Ekki síst þar sem ástæðan er ekki bara lækkun dollars. Heldur kannski fyrst og fremst óttinn við að framboðið sé einfaldlega of lítið. Ein smá sprenging í Afríku – og verðið rýkur upp.

Ewings

Ewings

Þó svo ég hafi outsmartað Pickens í þetta sinn, er samt full ástæða til að staldra aðeins við þennan magnaða karakter. T. Boone Pickens er nánast goðsögn í lifanda lífi og fyrirmyndin að JR Ewing úr Dallas þáttunum yndislegu. Hann er jafnaldri foreldra minna, fæddur í olíufylkinu Oklahoma i maí 1928 og á því stórafmæli síðar í mánuðinum. Alinn upp í kreppunni miklu kynntist Pickens peningaleysi í æsku, en þegar kom að framhaldsnámi valdi hann jarðfræði. Vegna dapurs ástands í bandaríska olíuiðnaðinum upp úr 1950 var lítið að gera fyrir nýútskrifaða jarðfræðinga. Svo fór að um miðjan 6. áratuginn stofnaði Pickens eigið fyrirtæki, Mesa Petroleum, með 2.500 dollara í hlutafé. Sem smám saman varð stærsta sjálfstæða olíuframleiðslufyrirtæki Bandaríkjanna. Sannkallað „Ewing Oil“.

PickensTimeCover

PickensTimeCover

Fyrirtækið með tvo starfsmenn í upphafi, óx hratt í milljarðaveltu. Og til að gera langa sögu stutta varð T. Boone Pickens frægur að endemum fyrir yfirtökur á fjölda fyrirtækja í olíuiðnaðinum – oft fjandsamlegar og afar arðsamar. Fyrir vikið varð hann einn efnaðasti og umdeildasti bissnessmaður í Bandaríkjunum- harður nagli sem sagður var svífast einskis í viðskiptum. Frægð hans reis hvað hæst á geggjaða 9. áratugnum og þá var Pickens m.a. á forsíðu Time.

Pickens hefur gefið talsvert af fé til ýmissa góðra málefna, ekki síst til Oklahomaháskóla í bænum Stillwater. Af sinni einstöku „hógværð“ samþykkti Pickens að íþróttavöllur skólans yrði einmitt nefndur „Boone Pickens Stadium“. Svo er Pickens einn af heitustu stuðningsmönnum Bush núverandi forseta, enda báðir úr olíuiðnaðinum. Og í síðustu kosningabaráttu varði Pickens gríðarmiklu fé til þeirra sem drógu mannorð John Kerry í svaðið, sem þótti heldur subbulegur leikur. En hann varð fyrir vonbrigðum með stefnu Bush í orkumálum; finnst vanta ríkari áherslu á endurnýjanlega orkugjafa. Pickens mun þó væntanlega seint taka upp á því að styðja demókrata til forseta.

windytexas

windytexas

En hann veit hvar peningarnir eru. Og þrátt fyrir aldurinn er kallinn enn á fullu. Í dag er Pickens farinn út úr Mesa Petroleum og fjárfestir nú grimmt í endurnýjanlegri orku; sérstaklega í vindorku. Á teikniborðinu er hvorki meira né minna en stærsta vindorkuver í heimi. Þetta 4.000 MW orkuver mun rísa á sléttunum vestur af Dallas – fjárfesting upp á litla 10 milljarða USD með hátt í 3.000 vindtúrbínum. Orkan mun nægja u.þ.b. milljón heimilum og áætlað er að fjárfestingin skili 25% arði. Einnig hefur Pickens undanfarið verið stórtækur í uppkaupum á vatnsréttindum. T. Boone Pickens veit nefnilega að í framtíðinni mun mestur arður liggja í náttúruauðlindum og hreinni orku.

Á gamals aldri hefur hann enn fremur draum um að Bandaríkin verði sjálfum sér næg um orku. En sem dæmi má nefna, að olíuframleiðsla í Texas er nú aðeins helmingur þess sem var a gullaldarárunum í kringum 1970.

Fleira áhugavert: