Hitastýrð blöndunartæki – Nauðsynleg öryggistæki

Grein/Linkur:  Hitastýrð blöndunartæki verða alltaf nauðsynleg öryggistæki

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Desember 2007

Vonandi hefur það ekki farið fram hjá neinum að Orkuveita Reykjavíkur hefur hrundið úr vör baráttu gegn slysum af of heitu kranavatni. Vissulega leggjast fleiri á árar, en þetta nær aldrei tilgangi sínum nema það takist að vekja almenning til vitundar um að hér er mikil alvara á ferðum. Kranavatn er víða 70-75°C heitt þar sem hitaveitur eru, en þess eru þó dæmi að það sé snöggtum heitara eða allt upp í 90°C.

stillum hitannMarkmiðið er að kranavatn verði hvergi heitara hérlendis en 60-65° og fyrir þessu markmiði eru sterk rök. Að halda hitanum í þessu hámarki kemur til af því að það er mikill munur hvort einhver lendir undir 75°C heitri bunu eða 60°C að ekki sé talað um ef vatnið er 80°-90°C. Því hærra sem hitastigið er því meiri brunaskaði á skemmri tíma. Að fara ekki niður fyrir mörkin 60°C kemur til af litlu kvikindi sem heitir Legionella pneumophila og er baktería sem reyndast finnst hvarvetna í náttúrunni, einnig hérlendis. Það getur vel verið að þreyttur göngumaður hafi lagst niður við tjörn og slökkt þorstann þó vatnið væri ylvolgt og í því var kannski talsvert af legionella bakteríum. Það kemur ekki að sök því þessi baktería er hættulaus í þeim meltingarvegi. En öðru máli gegnir ef hún kemst í lungun enda má þýða latneskt heiti hennar á íslensku sem „lítill her sem elskar lungu“. Í vatni þarf kvikindið að vera til að fjölga sér og lifa, hún getur fjölgað sér við 23-43°C hitastig vatns, þess vegna er öruggast að fara ekki neðar með hitastig kranavatns en 60°C.

Í þessu átaki gegn brunaslysum af heitu kranavatni er eindregið ráðlagt að lækka hitann við inntak þannig að vatnið fari aldrei heitara inn í dreifikerfið en 60-65°C. Til að fyrirbyggja misskilning er hér aðeins átt við kranavatnið, heita vatnið sem kemur í baðkerið, sturtuna, handlaugina og eldhúsvaskinn, ekki vatnið sem fer í hitakerfið, gott að muna það.

Sem betur fer hafa margir tekið eftir þessu átaki og fleiri eru reiðubúnir til að gera eitthvað heima hjá sér til að varna því að heimilisfólkið brenni sig á of heitu vatni. En það hefur örlað á svolitlum misskilningi sem er sá að með því að lækka hitann í heild verði hitastýrð blöndunartæki óþörf.

En svo er aldeilis ekki. Það þarf jafnframt lækkun hitans á vatninu við inntak að nota eingöngu hitastýrð blöndunartæki. Það er nefnilega hægt að brenna sig þó kranavatnið sé komið niður í 60°C. Því miður hafa sumir fallið fyrir tískunni og valið heldur gömlu blöndunartækin þar sem vatnið er blandað handvirkt, opnað er fyrir heita vatnið til vinstri en það kalda til hægri. Við slíka blöndun getur það gerst að vatnið ýmist kólni eða hitni, það er mjög hvimleitt en getur jafnvel verið hættulegt ef hitinn rýkur upp þegar staðið er í sturtunni. Þau tæki sem margir falla fyrir eru svonefnd „ömmutæki“ vegna þess að þau eru skemmtilega gamaldags í útliti.

En takmarkið ætti að vera þetta; hiti vatnsins lækkaður við inntak og síðan sett hitastýrt blöndunartæki við hvert tæki. Þegar sagt er hvert tæki þá á að taka það bókstaflega. Þar er átt við öll tæki sem upp voru talin að framan þar sem heitu og köldu vatni er blandað saman. Oft er aðeins hugsað um sjálfvirk hitastýrð blöndunartæki fyrir baðker og sturtur en nú eru einnig fáanleg slík tæki fyrir handlaugar og eldhúsvaska.

blonduartakiEn það er ekki nóg að kaupa tæki og nota þau síðan ár eftir ár, hitastýrð blöndunartæki verður að hreinsa og smyrja svo þau vinni sitt verk og innri hlutir þeirra skemmist ekki. Við getum sagt að það sé æskilegt að gera það á þriggja ára fresti.

Þessum pistli fylgir fróðleg mynd. Hún sýnir innri hluti úr Mora hitastýrðu blöndunartæki, en fjöldi slíkra tækja er í notkun hérlendis og hafa þau reynst vel. En það er sama af hvað tegund tækið er; það verður að hreinsa það og smyrja, ef það er gert geta innri hreyfanlegu hlutirnir enst árum saman.

Þetta tæki var búið að vera í notkun í tíu ár og aldrei opnað, aldrei hreinsað, aldrei smurt. Þess vegna var það óhjákvæmilegt að skipta um alla innri hreyfanlega hluti þess sem líklega hefði ekki þurft ef tækið hefði verið þjónustað reglulega.

Á myndinni má sjá þá hluti sem voru fjarlægðir vinstra megin við pennann, nýju hlutirnir hægra megin. Takið eftir sívala stykkinu sem er með hringpakkningu eins og belti um miðjuna. Vinstra megin við hringpakkninguna er sá hluti sem var í snertingu við kalda vatnið, teflonhúðin er farin að láta á sjá. En hægra megin, þar sem heita vatnið lék um, er grátt hrúður. Eflaust dettur einhverjum í hug að þarna sé sá gamli fjandi kísillinn sem svo víða fellur út í hitaveituvatni og festir sig við ventla og lagnir.

En sú er ekki raunin í þessu tilfelli; inn í þetta blöndunartæki hefur aldrei komið dropi af hitaveituvatni. Frá upphafi hefur verið notað kalt vatn, annars vegar í óbreyttri mynd sem kalt vatn, en hins vegar kalt vatn hitað upp í plötuvarmaskipti.

Þetta sýnir okkur að útfellingar geta orðið bæði í hitaveituvatni og venjulegu köldu vatni sem er hitað upp.

Fleira áhugavert: