Olíuverð – Framleiðni, áhrif, sagan
Grein/Linkur: Mundu mig, ég man þig
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Maí 2008
„Mundu mig, ég man þig“
Fyrir stuttu síðan gerðist það ótrúlega að olíufatið fór yfir 120 USD. Nú stefnir það hraðbyri í 130 dollara. Goldman Sachs spáði í dag að verðið færi í 141 USD nú á 2. ársfjórðungi. Og Bush æðir af stað til Arabíu til að grátbiðja þá Abdúlla og Alí að auka framleiðsluna.
Og honum tókst reyndar að sjarmera þá félaga. Saudarnir tóku barrrasta vel í að auka framleiðsluna um 300 þúsund tunnur á dag. Sem er skitin 3% aukning og samsvarar u.þ.b. olíuframleiðslu Dana. Þetta slær varla mikið á verðið – vart nóg til að hræða spákaupmennina í burtu. Þeir – eða ætti ég að segja „við“ – eru(m) hugsanlega farnir að trúa á 200 dollara olíufat fyrir árslok.
Ég verð að viðurkenna að það kom mér á óvart að Saudarnir skyldu koma með þessa yfirlýsingu núna. Þeir eru nýbúnir að fastsetja framleiðslumarkmið innan OPEC. Og satt að segja efast ég um að þeir nái að auka framleiðsluna hratt, einfaldlega vegna takmarkaðrar afkastagetu olíuhreinsunarstöðvana.
En sem sagt; Saudarnir segjast nú hugsanlega tilbúnir að auka framleiðsluna í 9,45 milljón tunnur á dag – ef eftirspurnin kallar á það. Skoðað í samhengi við fyrri yfirlýsingar þeirra hljómar þetta svolítið undarlega. Fyrir aðeins þremur árum sögðust Saudarnir léttilega geta aukið framleiðsluna í 12-15 milljónir tunna.
Þetta fannst Bush gott að heyra árið 2005 og þeir Abdúlla, konungur Saudi Arabíu, leiddust hamingjusamir um garða Hvíta hússins. Og þá sögðu Saudarnir líka að ef eftirspurnin ykist að marki væri þeim unnt að framleiða 23 milljón tunnur daglega. Ekkert mál.
En ég bara spyr; er eitthvað vandamál með eftirspurnina núna? Hún hefur aldrei verið meiri. Hm – þó svo olíuráðherrann Ali al-Naim sé grásprengdur og næstum jafn flottur og Jock Ewing var á sínum tíma í Dallas, finnst mér Ali hættur að vera trúverðugur.
Verð auðvitað að minna á þessa færslu, fyrir tveimur dögum:
„Alí – spámaður olíuguðsins“; http://askja.blog.is/blog/askja/entry/538702/
Já – samband Bandaríkjanna og Saudi Arabíu er vissulega einstakt. Og hefur lengi verið svo. Það var snillingurinn Roosevelt forseti sem átti upphafið að vinsamlegum samskiptum USA við arabísku konungsfjölskylduna.
Það fer vel á að enda þessa færslu með mynd frá þeim sögulega viðburði, þegar Roosevelt fundaði með þáverandi konungi, Abdul Aziz, skömmu fyrir andlát sitt í lok heimsstyrjaldarinnar síðari.
Þetta var strax eftir Jalta-ráðstefnua í febrúar 1945. Þá höfðu bandarísk stjórnvöld gert sér grein fyrir því hversu olían í Saudi Arabíu myndi verða þeim gríðarlega mikilvæg næstu áratugina. Og um ókomna framtíð.