Azerbaijan – Mikilsvirtir olíuframleiðendur
Grein/Linkur: Endurkoma víkinganna?
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Maí 2008
Endurkoma víkinganna?
Hvað er meira viðeigandi á svona fallegum sunnudegi hér í Köben, en að spá aðeins í Júróvisjón úrslitin og umræðuna sem orðin er fastur liður eftir keppnina. Kannski vert að hafa í huga kenningu, sem ég hygg að rekja megi til norska ævintýramannsins Thor Heyerdahl, að ættfeður víkinga hafi verið Azearar. Og þaðan sé hugtakið „Æsir“ eða „Ásar“ komið frá. Kannski er orðið tímabært að víkingarnir í austri nái aftir völdum í Evrópu?
Heyerdahl var m.ö.o. sannfærður um að forfeður víkinganna á Norðurlöndunum hefðu komið frá Azerbaijan við Kaspíahaf. Frá svæði sem kallast því skemmtilega nafni Gobustan. Sem í mínum huga þýðir í reynd Langt-í-burtistan. Þarna austur í Gobustan hafa fundist ævafornar hellamyndir, sem sýna skip, ekki ósvipuð víkingaskipunum. Og skv. kenningu Heyerdahl sigldu menn þaðan til Skandinavíu ca. árið 100 eftir Krist.
eyerdahl er vissulega ýmist hataður eða fyrirlitinn af fornleifafræðingum. En allt frá því ég svolgraði í mig bókina hans um Kon Tiki leiðangurinn frábæra, hef ég haft afskaplega gaman af kenningum hans.
En aftur að Eurovision. Fátt er sterkara en hroki Vestur-Evrópuríkja. Kannski ekki síst gamalla stórvelda eins og Bretlands og Frakklands. Kannski tímabært að þessar þjóðir átti sig á breyttri heimsmynd. En það er auðvitað afskaplega erfitt fyrir bæði gamla risaveldið Bretland og síðasta nýlenduveldið Frakkland, sem t.d. enn drottnar yfir fjölmörgum eyþjóðum í Kyrrahafi. Þessi ríki bara skilja alls ekki, að þau eru einfaldlega ekki lengur þungamiðjan í Evrópu. Ef ekki væri vegna stöðu London sem fjármálamiðstöðvar, myndi Bretland líklega bara teljast sérviturt og gamaldags jaðarríki í Evrópu.
Staða flestra Vestur-Evrópuríkja í dag er ekki alltof góð. Vegna lækkandi fæðingartíðni eru horfur á að velverðarkerfin munu ekki geta staðið til lengdar. A.m.k. verður það erfitt þegar þjóðirnar eldast jafn hratt og nú er að gerast. Þetta er raunar líka mikið vandamál í A-Evrópu. En þar hafa menn aftur á móti ekki lifað við velferðarkerfi að hætti V-Evrópu – og þess vegna ekki um að ræða samskonar hnignun frá því sem verið hefur.
Enn alvarlegri ógn við V-Evrópu er þó hækkandi orkuverð. Smám saman er reyndar öll Evrópa meira eða minna að verða háð Rússlandi um orku. Og fleiri löndum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum, eins og t.d. Kazakstan og Azerbaijan. Hið síðast nefna er auðvitað alveg sérstaklega áhugavert fyrir okkur, afkomendur víkinganna!
Já – gömlu víkingarnir í Azerbaijan, sem eru reyndar löngu orðnir múslímar (95%) eru í dag mikilsvirtir olíuframleiðendur. Í reynd eru fá ríki sem standa jafn vel að þessu leyti, eins og Azerbaijan.
Stærstur hluti olíunnar þeirra kemur frá borpöllum í Kaspíahafi. Sem í dag er reyndar álitið eitt áhugaverðasta og hagkvæmasta nýja olíuvinnslusvæðið í heiminum. Myndin hér til hliðar er af einum pallinum þeirra.
Olíubirgðir Azeara eru taldar vera um 1,2 milljarðar tunna. Og framleiðslan, sem vex hratt, er nú um 800.000 tunnur á dag. Sem er umtalsvert! Og það sem meira er; áætlanir gera ráð fyrir að framleiðslan fari í 1,5 milljón tunnur árið 2010 og í 2 milljón tunnur fyrir 2020. Æsir horfa því fram á bjarta tíma. En V-Evrópa situr eftir með sárt ennið. Og fá stig í Eurovision.
Auðvitað notaði ég danska farsímann mínn til að kjósa Júróbandið okkar. Mörgum sinnum, skv. sérstakri skipan frá dóttur minni. En þó svo mér hafi auðvitað fundist Finnarnir langflottastir í gærkvöldi og verið æstur í sænsku ofurbombuna Sjarlottu, verð ég að segja að Æsir nútímans voru barrrrasta nokkuð svalir líka: