Í birtu og yl – Gleymd gæði
Grein/Linkur: Gæði sem gleymast í barlómi
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Júní 2008
Gæði sem gleymast í barlómi
Enginn er búmaður sem ekki kann að berja sér segir gamalt máltæki. Að undanförnu hefur þetta fengið nokkuð nýja merkingu; það er enginn maður með mönnum nema hann sjái eymd og volæði í hverju horni, krónan hrunin niður fyrir öll fyrri mörk, verðbólgan á skriði upp á við og minnkandi kaupmáttur. Fréttir, hvort sem er í prent- eða ljósvakamiðlum, kynda rækilega undir bölmóðinn og berja menn neðar í sófann, helst niður á gólf, þegar horft er á sjónvarpsfréttir.
Þetta er víst eðli mannskepnunnar að sjá vandamálin og jafnvel mikla þau ef hægt er, en njóta ýmissa gæða hugsunarlaust, þau eru svo sjálfsögð að þau eru gleymd fyrir löngu.
Liðinn vetur var víða nokkuð harður, hlýnunin mikla lét eitthvað á sér standa en þrátt fyrir frost og fannfergi sátu flestir hver í sínum ranni og höfðu það ágætt við birtu og yl. Já, einmitt við yl. Eru ekki þessi gæði, ylurinn frá jarðhitanum, orðin svo sjálfsagður þáttur í lífi flestra Íslendinga að við skenkjum því enga hugsun hvernig aðstæður okkar væru ef enginn fyndist jarðhiti á Íslandi og ekki síst hvað það mundi rýra lífskjör allra heimila ef hvergi kæmi heitt vatn upp úr jörðu.
Hvað mundi það rýra hag heimila á landinu mikið ef allir yrðu að kynda með olíu í dag?
Flestir finna rækilega fyrir því hvað það kostar að fylla tankinn á bílnum en hvernig væri ástandið ef tankbílar frá olíufélögunum væru á stöðugum þeytingi að hverju húsi, svo í þéttbýli sem strjálbýli, til að fylla á tanka við húsveggi svo olíukyndingin geti brennt olíu nótt sem nýtan dag.
Fyrir þá sem eldri eru er auðvelt að setja sig inn í hvernig ástandið væri því mjög margir af eldri kynslóðinni bjuggu við olíukyndingu eða jafnvel kolakyndingu. Jafnvel finnast einstaklingar sem muna eftir að Solo-eldavélin var kynt með sauðaskán en slíkir geirfuglar munu vera orðnir fáir.
Lengi vel hirtu Íslendingar lítt um jarðhitann til upphitunar en víða var hann notaður til baða og er laug Snorra í Reykholti þekktasta dæmið þar um. En þess er getið á mörgum stöðum í Íslendingasögum „að menn gengu til lauga“. Svo virðist sem menn hafi stundað þó nokkuð hreinlæti á sínum kroppum á þjóðveldisöld, það virðist hins vegar hafa farið hnignandi á miðöldum þegar „litla ísöld“ gekk í garð. Ekki er ólíklegt að Stefán Jónsson, bóndi á Reykjum í Mosfellssveit, hafi verið frumkvöðull að því að nota heitt vatn úr jörðu til húshitunar, það mun hafa verið árið 1909. Hitaveita var lögð í Reykjavík innan Hringbrautar á árum seinni heimsstyrjaldar en svo varð ekki meira úr því ævintýri næstu 20 árin. Öll hús sem byggð voru í Reykjavík og nágrannabyggðum á þessum árum voru með kola- eða olíukyndingu. En upp úr 1960 hófst hitaveituvæðing aftur í Reykjavík, forráðamenn Kópavogs sömdu við Hitaveitu Reykjavíkur um lögn hitaveitu í bæinn, síðan komu flest önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu í kjölfarið. Ámóta þróun varð hvarvetna um landið á þessum árum, hvarvetna þar sem heitt vatn fannst var það virkjað og veitukerfi lögð.
Hversvegna er verið að rifja þetta upp, þetta er nokkuð sem er svo sjálfsagt á flestum heimilum að það þarf vart að nefna eða hvað?
Það er svo komið fyrir okkar þjóð að hún er búin að gleyma þeim gæðum að sitja í birtu og yl sem kemur frá okkar eigin vistvænu orkugjöfum. Heita vatnið er ekki aðeins varmagjafi, það eykur okkar vellíðan í sturtu sem heitum potti. Þetta heita vatn er mengunarlaust, það ættu flestir að geta gert sér í hugarlund hvernig ástandið væri ef kynt væri með olíu. Heita vatnið er einnig mjög ódýr orkugjafi og er núna einn af örfáum útgjaldaliðum heimila og fyrirtækja sem hefur nánast engum breytingum tekið í verðlagningu á þessum verðbólgutímum.
Og við þessi gæði, birtu og yl, situr stór hluti þjóðarinnar og heimtar sterkum rómi; við eigum að hætta að virkja, við megum ekki skemma náttúruna, hún á að njóta vafans.
Það væri ekki úr vegi að þeir sem kyrja í þeim kór, sérstaklega í skammdeginu, ættu að slökkva ljósin og skrúfa fyrir hitann þegar kveðið er sem hæst, þá væri frekar hægt að taka mark á þeirra kröftuga áróðri.