Hverjir eiga olíu – Hverjir nota mest olíu
Grein/Linkur: Fjósalykt á þingi
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Maí 2008
Fjósalykt á þingi
Þjóðþing heimsins flippa skemmtilega þessa dagana. Alþingi hyggst styrkja krónuræfilinn, með því að leyfa Seðló að taka að láni jafngildi allt að 500 milljarða ISK. Til að geta keypt krónur þegar eftirspurnin eftir þeim minnkar. Af hverju hef ég á tilfinningunni að þetta muni koma að litlu gagni?
Þetta er þó smávægilegt miðað við megaflippið sem Bandaríkjaþing er á þessa dagana. Ég held að einhver hafi laumað hassi í kökudegið á kaffistofu fulltrúadeildarinnar. Fyrir viku síðan samþykktu þingmenn þar á bæ nefnilega frumvarp, sem bannar samráð OPEC-ríkjanna um kvóta á olíuframleiðslu. Í fúlustu alvöru. Frumvarpið var samþykkt með 324 atkvæðum gegn 84 og kveður á um að lögsækja megi OPEC-ríkin fyrir brot á bandariskri samkeppnislöggjöf, vegna samráðs þeirra.
Haft var eftir einum helsta stuðningmanni frumvarpsins, Steve Kagen frá Búkollufylkinu Wisconsin, að frumvarpið „…guarantees that oil prices will reflect supply and demand economic rules, instead of wildly speculative and perhaps illegal activities„.
Þetta lyktar af fjósaskít – sem er reyndar heldur slöpp samlíking hjá mér, því satt að segja þykir mér fjósalykt barrrasta góð. En það sem ég vildi sagt hafa; hvernig dettur mönnum önnur eins vitleysa í hug. Þá væri nær að stinga amerísku bröskurunum á Wall Street í steininn. Það eru þeir sem eru að flýja með peningana frá fallandi hlutabréfamarkaði og dæla þeim í hrávöru. Sem er að valda ekki bara háu olíuverði, heldur líka stórhækkandi verði á t.d. hveiti, maís og öðrum matvælum. Íbúum fátækra þróunarríkja til mikils tjóns.
Við Steve og félaga segi ég: Maður, líttu þér nær! En það er soddan kosningaskjálfti þarna fyrir Westan núna, að það er eins víst að öldungadeildin samþykki ruglið líka. Því þeir þingmennirnir vita jú að einn frægasti frasi Íslandssögunnar, „fólk er fífl“, er ekki tilkominn af ástæðulausu.
Og það sorglegasta er kannski að þó svo hægt væri að framfylgja þessu gagnvart OPEC, skiptir það í raun engu máli. Saudarnir einir og Íran geta án nokkurs formlegs samráðs ráðið olíuframboðinu. Eins og kortið hér að ofan skýrir svo skemmtilega.
Eitt er víst; bæði Shíar í Íran og Súnníar í Arabíu munu halda áfram að skokka hlæjandi alla leið í bankann. Jafnvel hönd í hönd. En ef frumvarpið verður að lögum og Sádarnir fara í fýlu og beina peningunum sínum annað, vildi ég helst vera búinn að selja amerísku hlutabréfin mín. Nema kannski bréfin í olíufélögunum…