Sjálfbær hús – Orka, neysla, annað

Grein/Linkur:  Aftur til Kópavogs

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Mynd – us.sunpower.com 22.02.2021

.

Október 1994

Aftur til Kópavogs

Hérlendis virðast flestir halda að orka, loft og heitt og kalt vatn séu ótæmandi og óþarfi sé að spara þessi gæði. Þó á það fyrst og fremst við þá sem eru svo heppnir að búa á ódýrum orkusvæðum eins og höfuðborgarsvæðinu. Víða úti á landi er raunveruleikinn annar; upphitun er sligandi kostnaður.

Þeir eru semsagt færri sem búa við slíkar aðstæður, þeir eru minnihluti. Það er líklega þess vegna að sáralitlar tilraunir til orkusparnaðar fara fram hérlendis eða hafa einhverjir heyrt um að reist hafi verið tilraunahús í þessu skyni?

Dönsk tilraun

Þó aðstæður í orkumálum séu allt aðrar í Danmörku en hérlendis er ekki úr vegi að segja svolítið frá tilraunabyggingu, sem reist var við Nörrebro í Kaupmannahöfn 1992­93. Í byggingunni eru 17 íbúðir auk sameignar þar sem er sameiginlegt mötuneyti; angi af gömlu kommúnuhugsjóninni. En þarna voru farnar nokkrar merkilegar og óvenjulegar leiðir.

Neysluvatn

Að nokkru er það regnvatn, sem er safnað af þakinu. Það er eins og að vera kominn fimmtíu ár aftur í timann og til Kópavogs. Ekki er þetta vatn notað til drykkjar eða matargerðar, það kemur frá vatnsveitu borgarinnar. Þakvatninu er safnað í steypta þró utanhúss og aðallega notað til að skola niður úr salernum, en það er vænn sopi. Þetta útheimtir þrjú neysluvatnskerfi, heitt vatn, kalt neysluvatn og þakvatn. Þegar lítið rignir rennur sjálfvirkt í þakvatnstankinn frá borgarkerfinu svo ætíð sé hægt að skola niður. Ef tankurinn yfirfyllist í rigningartíð og menn eru ekki nógu duglegir á salerninu, rennur umframvatnið í skólplögnina.

Heitt neysluvatn er hitað upp af sólarorku og frá fjarvarmaveitu. Alls staðar eru sjálfvirk blöndunartæki, en miðað er við að heita vatnið sé 50­55C.

Sólarhiti

Á þakinu, sem snýr í sólarátt, er samfelldur „varmafangari“. Ysta lag þaksins er gegnsæ plastplata, þar undir svartur trefjadúkur. Loftið, sem hitnar af svarta dúknum, er nýtt í millihitara yfir í vatn og notað á miðstöðvarkerfið. Áætluð er að sólhitakerfið skili 40.000 kWst. en þakflöturinn er 150 ferm.

Hitakerfið

Í húsinu er ofnakerfi, sem auk sólarorkunar, fær hita frá fjarvarmakerfi. Í vissum hlutum byggingarinnar er gólfhiti en kerfið kalla Danir „lághitakerfi“. Hiti inn á kerfið er 60C og út 30C.

Ýmislegt annað

Í byggingunni er loftræsikerfi, sem fær varma frá sólvarmakerfinu, fjarvarmakerfinu og endurvinnslu innanhúss.

Kerfin eru tölvustýrð, á skermi í stjórnherbergi er hægt að fylgjast með kerfinu í heild og með mótaldi geta þjónustuaðilar verið á vakt.

Vandað er til einangrunar hússins og tekið er fram að tvöfalt gler sé í öllum gluggum.

Þó að það komi þessu ekki beint við; allt sorp er flokkað á staðnum.

Spurningin er hvort hér sé verið að skjóta yfir markið en eitt er víst; hvorki hérlendis né erlendis fæst úr því skorið nema gera tilraunir.

Þar sitjum við aftarlega á merinni.

Fleira áhugavert: