Lagnamenn – Er kunnáttan fullnægjandi

Grein/Linkur:  Er kunnátta íslenskra lagnamanna fullnægjandi?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Nóvember 1994

Er kunnátta íslenskra lagnamanna fullnægjandi?

Verkmenntastöð fyrir lagnamenn er nauðsyn..

Stórt er spurt. Er einhver ástæða til að ræða það á opinberum vettvangi? Er þetta ekki einkamál lagnamanna? Síður en svo. Sitjandi í háloftunum í glæsilegum vélum Flugleiða líður okkur vel. Við treystum því að menntun og þjálfun áhafnarinnar muni skila okkur örugglega á áfangastað.

Það sama gildir um allar stéttir. Það á að vera hægt að treysta því að sú þjónusta sem við fáum sé framkvæmd af kunnáttu og samviskusemi. Störf eru misjafnlega ábyrgðarmikil, en það breytir ekki þeirri staðreynd að á bak við hvert verk þarf að vera þekking og þjálfun sem hægt er að treysta.

Hverjir eru lagnamenn?

Já hverjir eru þeir og hvar fá þeir þekkingu og þjálfun? Nefnum helstu hópana og hvar þeir stunda sitt nám. Verkfræðingar stunda nám í háskólum hérlendis og erlendis, tæknifræðingar við Tækniskólann en einnig erlendis. Við Tækniskólann er einnig hægt að fara inn á aðrar brautir en tæknifræðinám, sem varða þó lagnamál. Pípulagningamenn og blikksmiðir stunda nám við iðnskóla og verkmenntaskóla, hjá meisturum og smiðjum. Sama má segja um aðra iðnaðarmenn á lagnasviði. Vélskólinn útskrifar vélstjóra en rafsuðumenn, sem hafa miklu hlutverki að gegna í lagnamálum, hafa ekki fengið þann sess í skólakerfinu sem þeir eiga kröfu á.

Starfsþjálfun nauðsynleg

Iðnaðarmenn stunda sitt nám að meirihluta sem starfsnám. Þeir starfa mestan hluta tímans við þá iðn sem þeir eru að læra, en hluta námsins í skólum. Þeir, sem ofar eru í skólakerfinu, í tækni- og háskólum, fá sáralitla starfsþjálfun. Lengst af hefur það verið álitinn óþarfi; tækniskólanemar hafi lokið henni og verkfræðingar farið í störf þar sem hennar sé ekki þörf, aðallega hönnun og stjórnun.

En á síðustu tímum eru augu margra að opnast fyrir því að allir þurfi meiri og betri starfsþjálfun. Að setjast beint í háskóla eftir stúdentspróf sé kannske ekki nógu góður undirbúningur fyrir hönnuði framtíðarinnar. Að starfa hjá meistara eða í smiðju skili kannske ekki nógu góðri og alhliða þjálfun eins og iðnaðarmenn þurfi á að halda.

Verkmenntastöð

Fyrir frumkvæði Lagnafélags Íslands hillir nú undir betri tíð; að stofnsett verði verkmenntastöð fyrir lagnamenn. Þetta er gífurlegt hagsmunamál allra þeirra sem stunda nám við iðnskóla, fjölbrautaskóla, tækniskóla og háskóla og ekki síður starfandi lagnamenn.

Í þessari stöð er ætlunin að upp verði sett öll helstu lagnakerfi, sem eiga við íslenska staðhætti. Þarna eiga að vera allar gerðir hitakerfa, loftræsikerfa, neysluvatnskerfi og frárennsliskerfi. Ekki aðeins þau sem eru í húsum og á landi, heldur einnig kerfi í skipum og öðrum farartækjum.

Allt bendir til að um þessa verkmenntastöð sameinist allir þeir skólar í landinu sem þetta varðar, samtök lagnamanna og yfirstjórn menntamála og iðnaðar.

Þetta er ekki aðeins hagsmunamál lagnamanna; þetta er ekki síður hagsmunamál þeirra sem þurfa á þjónustu þeirra að halda.

Með þessari verkmenntamiðstöð lagnamanna mun menntun þeirra og þjálfun stórbatna og ekki síður endurmenntun, sem er sífellt að verða mikilvægari þáttur vegna örrar tækniþróunar.

NORSKIR lagnamenn eru um þessar mundir að setja upp verkmenntastöð í Kaunas.

Fleira áhugavert: